Fara í aðalinnihald

Staðsetning þjóðarleikvanga: Laugardalur eða annar staður?

Umræðan um staðsetningu og uppbygginga nýrra þjóðarleikvanga hefur verið mikil að undanförnu og að mestu leyti einskorðast við Laugardalinn í Reykjavík. Það er svæði sem flestir Íslendingar skilgreina sem þjóðaríþróttasvæði okkar Íslendinga.

Sú umræða er hins vegar á villigötum að mati Þóris Hákonarsonar, fyrrum framkvæmdarstjóra KSÍ, og vill að málinu verði beint í annan farveg. Þórir, sem starfar nú sem íþróttastjóri Þróttar, vill að nýjum þjóðarleikvangi í knattspyrnu og nýrri þjóðarhöll fyrir innanhúsíþróttir, verði fundinn annar staður á höfuðborgarsvæðinu. Með öðrum orðum annars staðar en í Laugardalnum.

,,Það á að kanna nýja staðsetningu og nýja lausn sem hýsir þetta allt með sómasamleg hætti í stað þess að ræða um að byggja upp Laugardalsvöllinn sem ég held að myndi aldrei takast nægjanlega vel miðað við nútíma kröfur," sagði Þórir í samtali við Guðjón Guðmundsson í Sportpakkanum á Stöð 2 í vikunni.

Undirritaður telur að skoða eigi alla valkosti og ef málið varðandi uppbyggingu í Laugardal er komið í hnút tel ég að framkvæma þurfi staðarvalsgreiningu fyrir þjóðarleikvanga á höfuðborgarsvæðinu. Þá er ég ekki að tala um staðarvalsgreiningu einskorðaða við þjóðarleikvang fyrir knattspyrnunu eða staðarvalsgreiningu fyrir nýja þjóðarhöll (sem undirritaður hefur reyndar þegar framkvæmt). Staðarvalsgreiningin þarf að miða að því að finna fýsilegt svæði sem getur rúmað með góðum hætti marga þjóðarleikvanga - svæði sem myndi leysa Laugardalinn af hólmi.

Þróttur og Ármann eru í Laugardalnum

Það vill gleymast í umræðunni að í Laugardalnum eru starfrækt rótgróin íþróttafélög; Þróttur og Ármann, sem þurfa landrými undir sína starfsemi. Íþróttastarfsemi er landfrek og spurningin er sú hvort Laugardalurinn sé einfaldlega nógu landstór til að rúma starfsemi íþróttafélaga sem vilja stækka og þróast í bland við hina ýmsu þjóðarleikvanga. Það er spurning sem stjórnvöld þurfa að svara.

En hvernig er þessu háttað erlendis? Ég hef margoft bent á þá staðreynd að Laugardalurinn er gersemi í miðju borgarinnar. Íþróttasvæði sem byggðist upp á jaðri byggðarinnar og er nú einskonar vin í þéttbýlinu. Erlendir sérfræðingar á sviði íþrótta- og skipulagsmála hafa tjáð mér að þetta sé svæði sem við þurfum að passa upp á.  Svona svæði í miðju borgar eru fágæt. Þarna er hægt að byggja upp heimsklassa íþróttasvæði - en er það nógu stórt til framtíðar litið? Það er vissulega þrengt að dalnum.

Borgir og þéttbýlissvæði stækka, dreifa úr sér og þróast. Svæði sem byggðust upp á jaðrinum, ,,færast” þó svo þau standi í stað, innar og innar í þéttbýlið. Það má líkja borgum við trjástofn sem stækkar og stækkar – innsti kjarninn er gamli bærinn og trjábörkurinn hin nýju jaðarbelti sem sífellt myndast utan um byggðina. Laugardalurinn er hluti af gömlu jaðarbelti í Reykjavík; einskonar trjábörkur, en með tímanum stækkaði stofninn og mynduðust nýir og nýir berkir utan um byggðina. Laugardalurinn er því í dag með tilliti til borgarinnar/trjástofnsins nálægt miðju þéttbýlisins. Staðsetningin er frábær en er rúm fyrir frekari uppbyggingu. Er þess virði að skoða aðra staðsetningu?

Serbar færa nýtt svæði fyrir þjóðarleikvanga út á jaðar Belgrad

Í fyrra tilkynntu stjórnvöld í Serbíu að ákveðið hefði verið að ráðast í byggingu nýs þjóðarleikvangs í knattspyrnu. Eingöngu er um að ræða leikvang fyrir knattspyrnu en núverandi þjóðarleikvangur Serbíu er fjölnota, þar sem hlaupabraut hverfist um grasvöllinn.

Nýr þjóðarleikvangur Serbíu. Mynd: Fudbalski Savez Srbije / Promo.

Áætlað er að kostnaður við byggingu þessa nýja leikvangs muni nema um 35 milljörðum íslenskra króna en fullbyggður mun hann rúma 60 þúsund áhorfendur í sæti. Serbneska ríkið mun sjá alfarið um fjármögnun leikvangsins.

,,Við erum skoða fjórar útfærslur. Þetta verkefni mun blása nýju lífi í þennan hluta Belgrad enda tekur skipulagið til 600 hektara svæðis. Auk íþróttasvæðisins munu einingar innan skipulagsins hýsa íbúðir og byggingar fyrir viðskipti auk skemmtigarða. Íþróttir snúst ekki lengur engöngu um íþróttir – þær snúast líka um viðskipti,” sagði Sinisa Mali, viðskiptaráðherra Serbíu, þegar tilkynnt var um tilurð verkefnisins í fyrra.

Ráðgert er að uppbygging leikvangsins muni taka um þrjú ár.

Nýr þjóðarleikvangur verður staðsettur á jaðri Belgradborgar. Mynd:  Privatna  Arhiva.

Höfuðborgarsvæðið og Belgrad

Ef við berum þessa fyrirhuguðu uppbyggingu í Belgrad saman við þær hugmyndir sem eru í gangi varðandi Laugardalsvöllsins – þá er eðlismunurinn kannski ekki svo mikill. Báðir þjóðarleikvangar sem eru nú í notkun, þ.e. Laugardalsvöllurinn og Raiko Mitic Stadium í Belgrad eru leikvangar sem eru afurð af gamla skólanum. Fjölnota leikvangar með hlaupabrautum sem þýðir að grasvöllurinn er mjög langt frá áhorfendum. Þeir eru auk þess staðsettir í miðju þéttbýlisins. Þó verður það að segjast að rými til frekari uppbyggingar er meira í Laugardal, á meðan Serbar voru nánast nauðbeygðir til byggja nýjan leikvang annarsstaðar vegna plássleysis.

Nýi leikvangurinn verður í 14 km fjarlægð frá þeim gamla.

Á meðan hérlendis hafa hugmyndir eingöngu gengið út á það að stækka Laugardalsvöll, ákváðu stjórnvöld í Serbíu að byggja skyldi nýjan leikvang og var leitað að hentugri staðsetning á jaðri þéttbýlisins í Belgrad, þar sem nægt landrými er til staðar. Niðurstaðan var að byggt yrði í Surcin, sem er úthverfi í Belgrad -14 kílómetrum frá núverandi þjóðarleikvangi Serbíu inni í sjálfri borginni.

Hugmyndirnar eru skýrar og háleitar. Þarna á að rísa Stadium City sem útleggst á íslensku sem leikvangaborg. Þarna munu líka rísa fleiri vellir, íþróttahallir og önnur íþróttamannvirki. Þetta verður glæsilegt íþróttasvæði sem ráðamenn segja að muni laða að fleiri ferðamenn til Belgrad.

En tökum Þóri Hákonarson aðeins á orðinu. Látum sem stjórnvöld hafi ákveðið að gefa Laugardal upp á bátinn sem framtíðarsvæði fyrir þjóðarleikvanga. Þarna muni staðbundnu íþróttafélögin fá svigrúm til að þróast og stækka. Hvert skal þá leita með tilliti til svæða fyrir þjóðarleikvanga á höfuðborgarsvæðinu?

Ég hef áður viðrað þá hugmynd að hægt sé að byggja upp viðamikið íþróttasvæði á Hólmsheiði.  Það svæði mun byggjast mikið upp á komandi áratugum og væri þarna hægt að skipuleggja framtíðar þjóðaríþróttasvæði - einskonar Stadium City. Geldinganesið er annað spennandi svæði. Það mun tengjast höfuðborgarsvæðinu með fyrirhugaðri Sundabraut og er á nesinu víðáttumikið og gott byggingarland.  Blikastaðaland í Mosfellsbæ er líka valkostur en þar er fyrirhuguð mikil íbúabyggð í bland við verslun og þjónustu. Vífilstaðahraun (Svínahraun) í Garðabæ er einnig mjög ákjósanlegt svæði, þar er flatlendi með mikið rými til uppbyggingar. Það svæði er hins vegar friðlýst. Garðaholt í Garðabæ er einnig svæði sem hægt væri að skoða með tilliti til framtíðaruppbyggingar á þjóðarleikvöngum. Síðast skal nefna Álfsnesið sem er svæði þar sem mikil uppbygging mun eiga sér stað á komandi áratugum og þar mun vegstæði Sundabrautarinnar m.a. liggja.

Annað svæði sem ég hef lengi horft til er Vetrarmýrin í Garðabæ, en því miður er það ekki lengur raunhæfur valkostur þar sem uppbygging er þegar hafin á því svæði og einnig óljóst er hvort stærð þess svæðis gæti rúmað marga þjóðarleikvanga.

Það eru fýsileg uppbyggingarsvæði á jaðri höfuðborgarsvæðisins.

Þetta eru einungis vangaveltur sem mér finnst áhugavert að skoða og er einungis verið að benda hér á staðsetningar sem eru hentugar, m.a. með landfræðilegu tilliti. Engar rannsóknir liggja að baki þessu. Því er þarna á meðal svæði sem er friðlýst (Vífilstaðahraun) og myndi aldrei koma til greina sem raunhæfur valkostur.

Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Nýtt körfuboltahús Hauka, Ólafssalur

Körfuknattleikslið Hauka mun spila á nýjum heimavelli á komandi leiktíð Domino's deildar karla og kvenna. Um er að ræða sérhæft körfuknattleikshús sem mun nær eingöngu þjónusta körfuknattleiksdeild Hauka. Um er að ræða einstakt hús á íslenska vísu og verður fróðlegt að fylgjast með því hvort önnur félög fylgi í kjölfarið. Keppnissalurinn er sérhannaður fyrir körfubolta og stúkan mun rúma 1100 manns en samkvæmt fréttum geta allt að 2.000 manns komist fyrir með því að raða fólki þétt á svölunum. Engin hefðbundin leikklukka verður í húsinu heldur verður stöðu, tíma og stigaskori varpað upp á LED skjái í sitthvorum enda vallarins. Meðfylgjandi myndir voru teknar af Erni Eyjólfssyni, ljósmyndara Fréttablaðsins, og birtist í frétt blaðsins um íþróttamannvirkið síðastliðið vor. Þá var áhorfendaaðstaðan ekki komin til landsins en hún ætti að vera kominn upp fyrir upphaf körfuknattleikstímabilsins í haust. Mynd: Örn Eyjólfsson, Fréttablaðið. Mynd: Örn Eyjólfsson, F

Nýtt íþróttahús í Njarðvík?

Íþróttahúsið í Njarðvík, Ljónagryfjan svokallaða, er elsta keppnishúsið sem er í notkun í Domino‘s deild karla í körfuknattleik. Húsið var tekið í notkun árið 1973 og stendur við grunnskóla Njarðvíkur. Ef mið er tekið af íþróttahúsum sem byggð hafa verið hérlendis á síðasta áratug eða eru í byggingu er ljóst að mannvirkið er allt of lítið; ekki er nægilegt rými umhverfis keppnisgólfið og þá er takmörkuð aðstaða fyrir áhorfendur. Húsið er einfaldlega of lítið fyrir starfsemi félagsins. Vitaskuld er Ljónagryfjan fallegt og skemmtilegt íþróttahús og er það eitt af djásnum íslensks körfubolta en því miður er það ekki boðlegt lengur sem heimavöllur eins sigursælasta körfuknattleiksfélags landsins. ,,Ljónagryfjan" í Njarðvík. Skjáskot: Ja.is. Mikil íbúafjölgun Árið 1973 voru íbúar Njarðvíkur 1.700 en í dag búa yfir 6.000 manns í Njarðvíkurhluta Reykjanesbæjar. Fjölgun íbúa í Njarðvík nemur því um 250% á tímabilinu og er ljóst að þörf er á aðgerðum af hálfu bæjaryfirvalda sem

Laugardalshöllin: gömul, eldri, elst

Þegar fjórar síðustu undankeppnir í EM í handbolta eru skoðaðar kemur í ljós að Laugardalshöll er langelsta íþróttahöllin sem er notuð að staðaldri í keppnisleikjum í Evrópu. Fjölnota íþróttahöll. Alls fóru fram 12 landsleikir í í Laugardalshöll í undankeppni EM á þessu tímabili, eða allir heimaleikir Íslands. Auk Laugardalshallarinnar fóru á þessu tímabili fram landsleikir í 12 öðrum íþróttahöllum sem reistar voru fyrir 1970. Engin þeirra hýsti jafnmarga leiki og Laugardalshöllin en þær hallir sem komust næst Laugardalshöllinni hýstu fjóra leiki á þessu tímabili, eða að meðaltali einn leik í hverri undankeppni. Þær hallir sem hýstu fjóra landsleiki voru Yunost Sports Palace (1967) í Chelyabinsk í Rússlandi, Dvorana Mirza Delibasic (1969) í Sarajevo í Bosníu og Minsk Sports Palace (1966) í Minsk í Hvíta-Rússlandi. Þessar þrjár íþróttahallir eru allar handan austantjaldsins en Ísland er eina Vestur-Evrópu þjóðin þar sem landsleikir í handknattleik eru leiknir að s