Landsliðsmenn um Laugardalshöll árið 1994: ,,á engan hátt samboðin þeirri reisn sem við viljum að íslenskur handknattleikur standi fyrir."
Íslenskir handboltalandsliðsmenn töldu sig illa svikna þegar ljóst var að ný keppnishöll myndi ekki rísa fyrir HM 95. Að þeirra mati var Laugardalshöllin úrelt bygging og engan veginn í stakk búin til að hýsa stórleiki á heimsmeistaramóti sem og aðra leiki að því loknu. Auðvitað var þessi höll þeim öllum kær en að þeirra mati áttu tilfinningar ekki að ráða för í þessu máli.
Í júlí 1994, rúmum tíu mánuðum fyrir setningu heimsmeistaramótsins, sendu landsliðsmennirnir aðsenda grein í Morgunblaðið undir yfirskriftinni ,,Við gerum okkar besta - en ..." þar sem framtaksleysi stjórnvalda var harðlega gagnrýnt.
,,Við höfum allir átt ógleymanlegar stundir í Laugardalshöllinni og margir af stærstu sigrum íslenska landsliðsins hafa einmitt verið þar. Hins vegar verður að viðurkennast að þessi 30 ára gamla bygging er barn síns tíma og á engan hátt samboðin þeirri reisn sem við viljum að íslenskur handknattleikur standi fyrir," stóð m.a. í greininni.
,,Það er hins vegar alveg ljóst að ef heimavöllurinn á að nýtast okkur þá er talsverður munur á því að leika um mikilvæg úrslitasæti með 5.000 eldheita stuðningsmenn hvetjandi okkur til dáða eða örfá standandi hunduð. Það er því einróma hvatning okkar til yfirvalda að þau taki af skarið og byggi stóra íþróttahöll í Laugardalnum með sæti fyrir 7.000 manns og með beina tengingu við Laugardalshöllina," stóð ennfremur.
Landsliðsmennirnir gagnrýndu einnig þá fyrirætlan Reykjavíkurborgar að bíða með byggingu knattspyrnuhallar framyfir HM á sama tíma og áform um fjölnota íþróttahöll voru lagð til hliðar. Hvöttu þeir til samnýtingar.
,,Okkur skilst að innan örfárra ára eigi að rísa í Laugardalnum yfirbyggður knattspyrnuvöllur sem standa eigi í heila öld. Þá spyrjum við: Hvers vegna í ósköpunum má ekki byggja þessa höll strax þannig að hún nýtist okkur í HM 95 og verður allri íþróttahreyfingunni - og ferðaþjónustunni - til heilla næstu áratugina? Ef litið er á málin í framtíðarsamhengi þá skiptir tæpast nokkru þótt byrjað sé að afskrifa þessa byggingu tveimur árum fyrr eða síðar. Íslendingar, stöndum nú saman um að HM 95 verði sem glæsilegust og að það berist til eyrna að við séum þess megnugir að halda hér stórviðburð í íþróttum á heimsvísu og reisum þetta margumtalaða hús. Þá getum við líka auðveldlega gert okkar besta."
Eftirtaldir landsliðsmenn
skrifuðu undir yfirlýsinguna:
Áfram ísland!
Bergsveinn Bergsveinsson,
Bjarki Sigurðsson,
Bjarni Frostason,
Dagur Sigurðsson,
Einar Gunnar Sigurðsson,
Geir Sveinsson,
Guðmundur Hrafnkelsson,
Gunnar Beinteinsson,
Gústaf Bjarnason,
Halldór Ingólfsson,
Héðinn Gilsson,
Jón Kristjánson,
Júlíus Jónasson,
Konráð Olavsson,
Ólafur Stefánsson,
Patrekur Jóhannesson,
Róbert Sighvatsson,
Sigurður Sveinsson,
Valdimar Grímsson.
Valdimar Grímsson.
Ummæli
Skrifa ummæli