Fyrir rúmum 15 árum varð einskonar vitundarvakning í Rúmeníu í málefnum sem tengjast íþróttamannvirkjum og uppbyggingu þeirra. Stjórnvöld og íþróttahreyfingin í landinu vöknuðu upp við vondan draum þegar þeirra helstu íþróttamannvirki, þjóðarleikvangarnir svokölluðu, voru orðin niðurnídd og gömul mannvirki. Þessi staðreynd var farin að hamla framþróun íþrótta í landinu.
Forystumenn í íþróttahreyfingunni stilltu stjórnmálamönnum nánast upp við vegg og sögðu að þjóðin myndi dragast langt aftur úr í mörgum íþróttagreinum yrði ekkert að gert.
Til allrar hamingju ákváðu stjórnvöld í Rúmeníu að gera eitthvað í málinu.
Árið 2005 var staða mála þannig í Rúmeníu. Þjóðarleikvangurinn í knattspyrnu, Stadionul Național , sem var tekinn í notkun árið 1953 var orðinn 53 ára og þjóðarhöllin Sala Polivalentă din București, sem hafði verið vígð árið 1974 var orðin 31 árs.
Til samanburðar þá var Laugardalsvöllurinn vígður árið 1959 og Laugardalshöll var tekin í notkun árið 1965. En það er annað mál.
Afrakstur þessarar stefnubreytingar eða hugarfarsbreytingar stjórnvalda í Rúmeníu varð til þess að glæsilegur þjóðarleikvangur í knattspyrnu reis árið 2011 eða þremur árum eftir að framkvæmdir hófust. Þetta var ekki ódýr framkvæmd en hún kostaði um 46 milljarða íslenskra króna á núvirði.
Leikvangurinn mun m.a. hýsa nokkra leiki í lokakeppni EM á þessu ári.
Þá var komið að því að huga að málefnum nýrrar þjóðarhallar en ákveðið að var bíða með byggingu hennar þar sem ráðgert var, eða árið 2014, að ný og stórglæsileg íþróttahöll myndi rísa í Cluj-Napoca, í um 300 km fjarlægð frá Búkarest.
Sú íþróttahöll, BT Arena, er glæsilegt mannvirki sem rúmar um 10 þúsund áhorfendur í sæti og hýsti m.a. leiki í EuroBasket 2017. Það hefur því verið þögult samkomulag að BT Arena verði skilgreind sem þjóðarhöll Rúmeníu þar til ný höll verður tekin í notkun í Búkarest.
Þess verður þó ekki langt að bíða, þar sem ákvörðun um byggingu nýrrar þjóðarhallar í Búkarest liggur fyrir en skrifað var undir samkomulag þess efnis síðasta sumar. Framkvæmdir við byggingu hallarinar hefjast í sumar að loknum leikjum Evrópumótsins í Arena Națională en nýja höllin rísa í námunda við leikvanginn.
Gabriela Firea, borgarstjóri í Búkarest, var í skýjunum með undirritun samningsins síðasta sumar og sagði að nú myndi senn rísa í borginni nútímaleg íþróttahöll sem stæðist allar kröfur sem gerðar eru til íþróttahalla.
„Ég undirritaði samning þess efnis í dag að bygging nýrrar fjölnota íþróttahallar mun senn hefjast í Búkarest. Hún mun rúma 20 þúsund manns í sæti og hafa allt til brunns að bera sem sæmir nútímalegri íþrótthöll. Þá erum við m.a. að miða við evrópska staðla,“ sagði Gabriela Firea við blaðamenn eftir undirritun samningsins.
„Höllin mun m.a. innihalda 200 sæti fyrir hreyfihamlaða, 4 fundarherbergi, fjölmiðlaherbergi og bílakjallara. Hún mun hýsa viðburði í körfubolta, handbolta, fimleikum, júdó, glímu, borðtennis, skylmingum, blaki, tennis, hnefaleikum auk margra annarra í þróttagreina. Auk þess verða þarna menningarviðburðir,“ sagði Firea og bætti við:
,,Það er áætlað að það taki um 36 mánuði að reisa þessa höll eða þrjú ár. Þetta mannvirki verður mótsvar Búkarest og Rúmeníu við þeirri nýju bylgju sem nú fer um allan heim í byggingu nýrra og glæsilegra íþróttahalla. Þar er m.a. verið að taka tillit til laga- og reglugerða er varða hýsingu leikja og viðburða í alþjóðlegum keppnum. Núna verðum við samkeppnishæf.
Áætlaður kostnaður við byggingu nýju þjóðarhallarinnar í Búkarest er um 19 milljarðar íslenskra króna. Samanlagður kostnaður við uppbyggingu þjóðarleikvanga í knattspyrnu og fyrir innanhúsíþróttir í Rúmeníu mun því nema um 65 milljörðum íslenskra króna frá 2011 - 2023.
Geri aðrir betur.
Ummæli
Skrifa ummæli