Á meðan mál nýrrar þjóðarhallar á Íslandi eru í algjörri óvissu og nánast ekkert að gerast í þeim efnum, virðist annað vera uppi á teningnum hjá frændum vorum í Færeyjum.
Líkt og margir vita þurftu Færeyingar að spila heimaleiki sína í síðustu undankeppni EM í handbolta utan Færeyja en íþróttahöllin á Hálsi í Þórshöfn, sem hefur verið á undanþágu um nokkurt skeið, telst nú vera óhæf til að hýsa alþjóðlega keppnisleiki í handbolta. Laugardalshöll okkar Íslendinga er einnig á undanþágu og bíða menn nú milli vonar og ótta um að EHF skelli ekki í lás þar líka. Hinn ískaldi raunveruleiki er hins vegar sá að það gæti gerst, fyrr en síðar.
Færeyingar hafa brugðist við þeim leiðindagjörningi að vera úthýst úr íþróttahöllinni á Hálsi með því undirbúa byggingu nýrrar og stórrar þjóðarhallar. Norskir fjölmiðlar greina frá því að arkitektinn Stefan Ekberg hafi þegar verið fenginn til að teikna hið nýja mannvirki.
,,Forvinnan á að klárast fyrir jól,“ skrifaði staðarmiðillinn Möre í Noregi fyrr í þessum mánuði.
,,Færeyingar hafa verið að skoða hvers konar verkefni hentar þeirra þörfum og í því ferli komu þeir auga á Volda Campus Sparebank1 Arena. Verkefnið í Þórshöfn verður hins vegar nokkuð stærra,“ sagði Ekberg í samtali við Möre.
,,Höllin á að byggjast á sama konsepti og höllin í Volda og er áætlað að hún muni rúma 3.000 áhorfendur.“
Þess má geta að Laugardalshöll rúmar 2.200 manns í sæti og munu Færeyingar því eiga töluvert stærri þjóðarhöll en við Íslendingar innan tíðar.
Færeyski vefmiðillinn VP hefur heimildir fyrir því að nú þegar sé búið að skaffa um 500 milljónum íslenskra króna í undirbúningsvinnu fyrir byggingu hallarinnar.
Vilja að efnilegir handboltamenn spili við kjöraðstæður heima
Þau undur og stórmerki gerðust í sumar að U17 ára landslið Færeyja bar sigur úr býtum á opna evrópska meistaramótinu í handbolta. Ísland hlaut bronsverðlaun á sama móti.
Stjórnmálamenn í Færeyjum vilja hlúa að þessum efniviði sem virðist svo sannarlega vera til staðar og ríkir mikill einhugur á að ný þjóðarhöll sem uppfyllir allar kröfur og reglugerðir rísi sem fyrst.
Gefum Gunvöru Balle, varaborgarstjóra í Þórshöfn orðið en hún lét eftirfarandi orð falla í kjölfar glæsts sigur U17 ára landsliðsins í sumar.
,,Vit tosa øll um tað, vit vita øll av tí. Vit mangla ein heimavøll til landsliðshondbóltin, her krevst ein stórhøll. Gullið í Gøteborg sker hetta út í papp. Eg havi tosað við Anniku, borgarstjóran (hon letur endiliga heilsa) og eg skilji á lagnum, at landsins hægstu tosa um tykkara bragd, nú tey eru savnaði til Oyggjaleikirnar og tey eru samd um, at nú skal smíðast. Tí føroyskur ítróttur skal hava neyðugu umstøðurnar til altjóða kappingar her heima. Og eg veit, at nógvar góðar kreftir eru longu í gongd og arbeiða við at fáa bygt eina stórhøll, eisini Tórshavnar kommuna. Øll vilja vit gera okkara, so at Føroyar um ikki so langa tíð kunnu bjóða heimsins bestu av á heimavølli.“
Petur Mittún, formaður íþróttasambands Færeyja, er gríðarlega spenntur fyrir byggingu nýrrar þjóðarhallar.
,,Þarna er um mjög spennandi verkefni að ræða og við í ÍSF stöndum heilshugar á bak við það.“
Íþróttahöllin á Hálsi í Þóshöfn |
Ummæli
Skrifa ummæli