Fara í aðalinnihald

Uppbygging íþróttamannvirkja - þörf á kerfisbreytingu?


Leiða má líkum að því að ákveðin vatnaskil séu framundan í uppbyggingarmálum þjóðarleikvanga á Íslandi en reglugerð um viðurkenningu slíkra íþróttamannvirkja tók gildi árið 2018. Markmið hennar er m.a. að tryggja að skilgreindir þjóðarleikvangar standist gæðakröfur sem gerðar eru til þess konar mannvirkja. En þátturinn er lítur að fjármögnun uppbyggingarinnar er hins vegar ennþá mjög óljós.
Allt sem viðkemur íþróttum á Íslandi heyrir undir menntamálaráðuneytið og þar með talið öll innviðauppbygging. Hins vegar er lítið fjallað um uppbyggingu íþróttamannvirkja í íþróttalögunum. Í 8. grein laganna segir að veita megi framlög úr íþróttasjóði til: ,,sérstakra verkefna á vegum íþróttafélaga og samtaka þeirra sem miða að því að bæta aðstöðu til íþróttaiðkunar.” Í stóra samhenginu er hér um sáralitlar upphæðir að ræða.
Það þarf ekki að fara í grafgötur með þá staðreynd að hið opinbera hefur lítið tekið þátt í uppbyggingu íþróttamannvirkja á Íslandi. Íþróttasjóður ríksins var settur á laggirnar árið 1940 m.a. í þeim tilgangi að stuðla að uppbyggingu íþróttamannvirkja hérlendis og var úthlutað reglulega úr honum til ársins 1990 en umfangið var þó lítið. Sjóðurinn fjárfesti t.a.m. aldrei að fullu í íþróttamannvirkjum en styrkir frá ríkinu gátu numið allt að 40% af byggingarkostnaði.

Hið opinbera hættir innviðauppbyggingu í íþróttum

Árið 1990 losaði ríkið sig að fullu við þær byrðar að fjármagna uppbyggingu íþróttamannvirkja þegar lög um breytingu á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga um byggingu slíkra mannvirkja öðluðust gildi. Með tilkomu laganna var sveitarfélögum gert að fjármagna að fullu uppbyggingu íþróttamannvirkja. En hvað með fjármögnun á uppbyggingu skilgreindra þjóðarleikvanga?
Þar vandast hins vegar málið því hérlendis er einungis einn leikvangur skilgreindur sem þjóðarleikvangur og er það skíðaaðstaðan í Hlíðarfjalli á Akureyri. Tvö helstu íþróttamannvirki þjóðarinnar, þ.e. Laugardalsvöllur og Laugardalshöll eru ekki skilgreindir þjóðarleikvangar.
Í frétt sem birtist í Morgunblaðinu árið 2015 er fjallað um vöntun á skilgreiningu þjóðarleikvanga á Íslandi og segir Óskar Þór Ármannsson, þáverandi sérfræðingur í mennta- og menningarmálaráðuneytinu, að það sé skýrt í lögum að fjárhagslegar skuldbindingar ríkisins gagnvart uppbyggingu íþróttamannvirkja séu engar, jafnvel þó ríkið muni veita ákveðnum leikvöngum vottun. Í skýrslu starfshóps sem Óskar var aðili að segir að þegar horft sé til Norðurlandanna séu ekki alls staðar til stefnur um þjóðarleikvanga.
Stefna sé þó til staðar í Noregi þar sem gert er ráð fyrir að ríkið hafi einhvers konar aðkomu að slíkum mannvirkjum í formi byggingar- og viðhaldsstyrkja eða rekstrarstyrkja. Hægt er að sækja um fjármagn til uppbyggingar íþróttamannvirkja, þ.m.t. þjóðarleikvanga, til menningarmálaráðuneytisins. Mögulegt er að sækja um byggingarstyrki í gegnum sérstakt umsóknarferli. Þetta kerfi er ekki til staðar á Íslandi og er í raun vandasamt að bera Ísland saman við hin Norðurlöndin er kemur að uppbyggingu íþróttamannvirkja. Þar er allt annað umhverfi enda töluvert fleiri íbúar í þessum löndum og tekjur af getraunum og lottó mun hærri. Þar eru sérsamböndin auk þess mun fjársterkari en sérsambönd á Íslandi.

Kýpverska módelið

Ég myndi þess í stað bera Ísland saman við smáríkið Kýpur og það kerfi sem þar er við lýði. 
Íþróttasamband Kýpur (CSO) fer með æðsta vald yfir íþróttum í landinu. Sambandið er hálf opinber stofnun (semi-governmental) og er á fjárlögum kýpverska ríksins. Hið opinbera fjármagnar CSO ár hvert sem síðan sér um að dreifa fjármununum til sérsambandanna innan íþróttasambandsins. Þar er t.a.m. ákveðið hvort og hve háar upphæðir eiga að fara í uppbyggingu tiltekinna íþróttamannvirkja, þ.m.t. þjóðarleikvanga.

Í stjórn CSO sitja 9 aðilar sem eru skipaðir í embætti af forseta landsins og ráðuneytum ríksins. Um óháða aðila er að ræða og er fylgst gaumgæfilega með því hvert fjármagninu er dreift.

Árið 2013 fékk CSO 3,8 milljarða íslenskra króna af fjárlögum og nam fjárhagsáætlun sambandsins um fjórum milljörðum króna en aðrar tekjur fengust með leigu á íþróttamannvirkjum. Ekki er öruggt að gengið verði í allt fjármagnið af fjárlögum ár hvert en t.a.m. úthlutaði CSO rúmum 1,5 milljarði króna af þeim rúmum fjórum milljörðum sem voru til staðar, til íþróttasérsambanda á árinu 2013.

Fyrir tilstuðlan þessa kerfis í Kýpur ríkir engin óvissa um þátttöku ríkis og hlutfall þess í kostnaðarþátttöku nýrra íþróttamannvirkja. Þess í stað hafa risið þar glæsileg íþróttamannvirki á undanförum árum, þ.m.t. þjóðarleikvangar fyrir ýmsar íþróttagreinar en CSO fjármagnaði m.a. tvo nýjustu þjóðarleikvanga innanhúsíþrótta á Kýpur með fjármagni af fjárlögum ríksins. Um er að ræða þjóðarleikvang sem var reistur árið 1993, sem kostaði um 2,7 milljarða króna á núvirði, og glæsilega fjölnota íþróttahöll sem var byggð árið 2005 og nam kostnaðurinn um 3 milljörðum króna.

Því spyr ég, er þörf á kerfisbreytingu á Íslandi?

Ætti að setja innviðauppbyggingu í íþróttum á fjárlög líkt og innviðauppbyggingu samgöngukerfisins?
Hér er ég einungis að tala um uppbyggingu íþróttamannvirkja sem heyra undir skilgreiningu þjóðarleikvanga. Ljóst er þessi kerfisbreyting myndi létta á byrðum sveitarfélaga sem þyrftu ekki standa straum af kostnaði við uppbyggingu þjóðarleikvanga.



Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Nýtt körfuboltahús Hauka, Ólafssalur

Körfuknattleikslið Hauka mun spila á nýjum heimavelli á komandi leiktíð Domino's deildar karla og kvenna. Um er að ræða sérhæft körfuknattleikshús sem mun nær eingöngu þjónusta körfuknattleiksdeild Hauka. Um er að ræða einstakt hús á íslenska vísu og verður fróðlegt að fylgjast með því hvort önnur félög fylgi í kjölfarið. Keppnissalurinn er sérhannaður fyrir körfubolta og stúkan mun rúma 1100 manns en samkvæmt fréttum geta allt að 2.000 manns komist fyrir með því að raða fólki þétt á svölunum. Engin hefðbundin leikklukka verður í húsinu heldur verður stöðu, tíma og stigaskori varpað upp á LED skjái í sitthvorum enda vallarins. Meðfylgjandi myndir voru teknar af Erni Eyjólfssyni, ljósmyndara Fréttablaðsins, og birtist í frétt blaðsins um íþróttamannvirkið síðastliðið vor. Þá var áhorfendaaðstaðan ekki komin til landsins en hún ætti að vera kominn upp fyrir upphaf körfuknattleikstímabilsins í haust. Mynd: Örn Eyjólfsson, Fréttablaðið. Mynd: Örn Eyjólfsson, F

Nýtt íþróttahús í Njarðvík?

Íþróttahúsið í Njarðvík, Ljónagryfjan svokallaða, er elsta keppnishúsið sem er í notkun í Domino‘s deild karla í körfuknattleik. Húsið var tekið í notkun árið 1973 og stendur við grunnskóla Njarðvíkur. Ef mið er tekið af íþróttahúsum sem byggð hafa verið hérlendis á síðasta áratug eða eru í byggingu er ljóst að mannvirkið er allt of lítið; ekki er nægilegt rými umhverfis keppnisgólfið og þá er takmörkuð aðstaða fyrir áhorfendur. Húsið er einfaldlega of lítið fyrir starfsemi félagsins. Vitaskuld er Ljónagryfjan fallegt og skemmtilegt íþróttahús og er það eitt af djásnum íslensks körfubolta en því miður er það ekki boðlegt lengur sem heimavöllur eins sigursælasta körfuknattleiksfélags landsins. ,,Ljónagryfjan" í Njarðvík. Skjáskot: Ja.is. Mikil íbúafjölgun Árið 1973 voru íbúar Njarðvíkur 1.700 en í dag búa yfir 6.000 manns í Njarðvíkurhluta Reykjanesbæjar. Fjölgun íbúa í Njarðvík nemur því um 250% á tímabilinu og er ljóst að þörf er á aðgerðum af hálfu bæjaryfirvalda sem

Laugardalshöllin: gömul, eldri, elst

Þegar fjórar síðustu undankeppnir í EM í handbolta eru skoðaðar kemur í ljós að Laugardalshöll er langelsta íþróttahöllin sem er notuð að staðaldri í keppnisleikjum í Evrópu. Fjölnota íþróttahöll. Alls fóru fram 12 landsleikir í í Laugardalshöll í undankeppni EM á þessu tímabili, eða allir heimaleikir Íslands. Auk Laugardalshallarinnar fóru á þessu tímabili fram landsleikir í 12 öðrum íþróttahöllum sem reistar voru fyrir 1970. Engin þeirra hýsti jafnmarga leiki og Laugardalshöllin en þær hallir sem komust næst Laugardalshöllinni hýstu fjóra leiki á þessu tímabili, eða að meðaltali einn leik í hverri undankeppni. Þær hallir sem hýstu fjóra landsleiki voru Yunost Sports Palace (1967) í Chelyabinsk í Rússlandi, Dvorana Mirza Delibasic (1969) í Sarajevo í Bosníu og Minsk Sports Palace (1966) í Minsk í Hvíta-Rússlandi. Þessar þrjár íþróttahallir eru allar handan austantjaldsins en Ísland er eina Vestur-Evrópu þjóðin þar sem landsleikir í handknattleik eru leiknir að s