Leiða má líkum að því að
ákveðin vatnaskil séu framundan í uppbyggingarmálum þjóðarleikvanga á Íslandi
en reglugerð um viðurkenningu slíkra íþróttamannvirkja tók gildi árið 2018.
Markmið hennar er m.a. að tryggja að skilgreindir þjóðarleikvangar standist
gæðakröfur sem gerðar eru til þess konar mannvirkja. En þátturinn er lítur að
fjármögnun uppbyggingarinnar er hins vegar ennþá mjög óljós.
Allt sem viðkemur íþróttum á Íslandi heyrir undir menntamálaráðuneytið og þar með talið öll innviðauppbygging. Hins vegar er lítið fjallað um uppbyggingu íþróttamannvirkja í íþróttalögunum. Í 8. grein laganna segir að veita megi framlög úr íþróttasjóði til: ,,sérstakra verkefna á vegum íþróttafélaga og samtaka þeirra sem miða að því að bæta aðstöðu til íþróttaiðkunar.” Í stóra samhenginu er hér um sáralitlar upphæðir að ræða.
Það þarf ekki að fara í
grafgötur með þá staðreynd að hið opinbera hefur lítið tekið þátt í uppbyggingu
íþróttamannvirkja á Íslandi. Íþróttasjóður ríksins var settur á laggirnar árið
1940 m.a. í þeim tilgangi að stuðla að uppbyggingu íþróttamannvirkja hérlendis
og var úthlutað reglulega úr honum til ársins 1990 en umfangið var þó lítið.
Sjóðurinn fjárfesti t.a.m. aldrei að fullu í íþróttamannvirkjum en styrkir frá
ríkinu gátu numið allt að 40% af byggingarkostnaði.
Hið opinbera hættir innviðauppbyggingu í íþróttum
Árið 1990 losaði ríkið sig
að fullu við þær byrðar að fjármagna uppbyggingu íþróttamannvirkja þegar lög um
breytingu á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga um byggingu slíkra mannvirkja
öðluðust gildi. Með tilkomu laganna var sveitarfélögum gert að fjármagna að
fullu uppbyggingu íþróttamannvirkja. En hvað með fjármögnun á uppbyggingu
skilgreindra þjóðarleikvanga?
Þar vandast hins vegar
málið því hérlendis er einungis einn leikvangur skilgreindur sem
þjóðarleikvangur og er það skíðaaðstaðan í Hlíðarfjalli á Akureyri. Tvö helstu
íþróttamannvirki þjóðarinnar, þ.e. Laugardalsvöllur og Laugardalshöll eru ekki
skilgreindir þjóðarleikvangar.
Í frétt sem birtist í
Morgunblaðinu árið 2015 er fjallað um vöntun á skilgreiningu þjóðarleikvanga á
Íslandi og segir Óskar Þór Ármannsson, þáverandi sérfræðingur í mennta- og
menningarmálaráðuneytinu, að það sé skýrt í lögum að fjárhagslegar
skuldbindingar ríkisins gagnvart uppbyggingu íþróttamannvirkja séu engar,
jafnvel þó ríkið muni veita ákveðnum leikvöngum vottun. Í skýrslu starfshóps
sem Óskar var aðili að segir að þegar horft sé til Norðurlandanna séu ekki alls
staðar til stefnur um þjóðarleikvanga.
Stefna sé þó til staðar
í Noregi þar sem gert er ráð fyrir að ríkið hafi einhvers konar aðkomu að
slíkum mannvirkjum í formi byggingar- og viðhaldsstyrkja eða rekstrarstyrkja.
Hægt er að sækja um fjármagn til uppbyggingar íþróttamannvirkja, þ.m.t.
þjóðarleikvanga, til menningarmálaráðuneytisins. Mögulegt er að sækja um
byggingarstyrki í gegnum sérstakt umsóknarferli. Þetta kerfi er ekki til staðar
á Íslandi og er í raun vandasamt að bera Ísland saman við hin Norðurlöndin er
kemur að uppbyggingu íþróttamannvirkja. Þar er allt annað umhverfi enda
töluvert fleiri íbúar í þessum löndum og tekjur af getraunum og lottó mun
hærri. Þar eru sérsamböndin auk þess mun fjársterkari en sérsambönd á Íslandi.
Kýpverska módelið
Ég
myndi þess í stað bera Ísland saman við smáríkið Kýpur og það kerfi sem þar er við lýði.
Íþróttasamband
Kýpur (CSO) fer með æðsta vald yfir íþróttum í landinu. Sambandið er hálf opinber
stofnun (semi-governmental) og er á fjárlögum kýpverska ríksins. Hið opinbera
fjármagnar CSO ár hvert sem síðan sér um að dreifa fjármununum til sérsambandanna
innan íþróttasambandsins. Þar er t.a.m. ákveðið hvort og hve háar upphæðir eiga
að fara í uppbyggingu tiltekinna íþróttamannvirkja, þ.m.t. þjóðarleikvanga.
Í stjórn
CSO sitja 9 aðilar sem eru skipaðir í embætti af forseta landsins og ráðuneytum
ríksins. Um óháða aðila er að ræða og er fylgst gaumgæfilega með því hvert
fjármagninu er dreift.
Árið 2013
fékk CSO 3,8 milljarða íslenskra króna af fjárlögum og nam fjárhagsáætlun
sambandsins um fjórum milljörðum króna en aðrar tekjur fengust með leigu á
íþróttamannvirkjum. Ekki er öruggt að gengið verði í allt fjármagnið af
fjárlögum ár hvert en t.a.m. úthlutaði CSO rúmum 1,5 milljarði króna af þeim
rúmum fjórum milljörðum sem voru til staðar, til íþróttasérsambanda á árinu
2013.
Fyrir
tilstuðlan þessa kerfis í Kýpur ríkir engin óvissa um þátttöku ríkis og
hlutfall þess í kostnaðarþátttöku nýrra íþróttamannvirkja. Þess í stað hafa
risið þar glæsileg íþróttamannvirki á undanförum árum, þ.m.t. þjóðarleikvangar
fyrir ýmsar íþróttagreinar en CSO fjármagnaði m.a. tvo nýjustu þjóðarleikvanga
innanhúsíþrótta á Kýpur með fjármagni af fjárlögum ríksins. Um er að ræða
þjóðarleikvang sem var reistur árið 1993, sem kostaði um 2,7 milljarða króna á
núvirði, og glæsilega fjölnota íþróttahöll sem var byggð árið 2005 og nam
kostnaðurinn um 3 milljörðum króna.
Því spyr
ég, er þörf á kerfisbreytingu á Íslandi?
Ætti að setja innviðauppbyggingu í íþróttum á fjárlög líkt og innviðauppbyggingu samgöngukerfisins?
Ummæli
Skrifa ummæli