Fara í aðalinnihald

Skeifan - þjóðarhöll sem skipulagshvati

Þegar landinn ferðast til útlanda og þá sérstaklega til stórra borga í Bandaríkjunum er mjög líklegt að hann muni koma auga á stórar íþróttahallir og leikvanga á rölti sínu í miðborgum þessarra borga. Þessi mannvirki eru afurðir stefnubreytingar sem átti sér stað í Norður-Ameríku undir lok síðustu aldar en þá hafði uppbygging stórra íþróttamannvirkja verið á jaðri þéttabýlissvæðanna í rúma þrjá áratugi. Á jaðrinum og fyrir utan hann var að finna víðáttumikil, óbyggð svæði sem þýddi að þar var hægt að byggja gríðarlega stór mannvirki umlukin bílastæðaflæmum.

Ein helsta ástæða þess að ákveðið var færa uppbyggingu íþróttamannvirkja úr miðborgunum út á jaðarinn um miðja síðustu öld var tilkoma einkabílsins auk þess sem helsti markhópurinn, þ.e. millistéttar íþróttaáhugamaðurinn, var sífellt að flytjast úr miðborgunum og út í úthverfin. Eins og áður sagði snerist þessi þróun við á níunda áratug síðustu aldar.

En annar angi þessarar stefnubreytingar náði til uppbyggingar íþróttamannvirkja í niðurníddum athafna- og iðnaðarsvæðum og verslunar- og þjónustusvæðum af öllum stærðum og gerðum. Tiltekin borgaryfirvöld veltu fyrir sér framtíðarþróun borganna og sáu íþróttamannvirkin fyrir sér sem skipulagshvata.

Skipulagshvatar

Skipulagshvatar eru ein áhrifaríkasta endurnýjunaraðferð hverfa innan borga eða tiltekinna borgarhluta. Íþróttamannvirki eru hluti af þessum skipulagshvötum og því gætir áhrifa þeirra í dreifingarmynstri slíkra mannvirkja. Hvatarnir eru skilgreindir sem mannvirki sem leiða af sér frekari uppbyggingu og starfsemi og þróun byggðar í nærumhverfinu.

Íþróttamannvirki hafa á síðastliðnum þremur áratugum verið helstu skipulagshvatarnir á bandarískum þéttbýlissvæðum en á tímabilinu 1990 – 2011 voru byggð 102 stór íþróttamannvirki sem skilgreinast sem slíkir hvatar; þ.e. allar byggingarnar hafa leitt af sér frekari uppbyggingu og starfsemi í nærumhverfinu. Eins og áður sagði hefur þetta leitt til endurnýjunar miðborganna en í dag eru um 80% nýrra íþróttamannvirkja í Norður-Ameríku staðsett í eða í nánd við miðborgirnar.

Þessi þróun hefur einnig verið að líta dagsins ljós í Evrópu þar sem úrsérgengin athafna- og iðnaðarsvæði og verslunar- og þjónustusvæði eru tekin til gagngerðar endurnýjunar í borgunum. Oft er um að ræða víðáttumikil vöruskemmusvæði þar sem yfirvöld hafa tekið ákvörðun um að breyta landnotkun með breytingu á aðalskipulagi.

Skeifan

Á höfuðborgarsvæðinu hérlendis er að finna eitt slíkt svæði þar sem hugmyndir eru uppi um að breyta um notkuninni, þ.e. Skeifan. Skeifan er virkur miðkjarni samkvæmt aðalskipulagi og er auk þess eitt af lykil þróunarsvæðum í nýju aðalskipulagi Reykjavíkur til 2030. Svæðið er skilgreint sem miðsvæði fyrir verslun og þjónustu. Það var í fyrstu skilgreint sem iðnaðarsvæði í útjaðri borgarinnar en með örum vexti byggðarinnar er það staðsett nokkuð miðsvæðis í dag.

Í framtíðinni er gert ráð fyrir blandaðri byggð í Skeifunni, með verslun og þjónustu, skrifstofum, stofnunum og íbúðum. Það má skilgreina Skeifuna sem smækkaða útgáfu af svæðum í stærri borgum þar sem hnignun hefur átt sér stað. Hún er dæmi um athafna- og iðnaðarsvæði sem þróaðist út í verslunar- og þjónustusvæði þar sem vöruskemmur og bílastæðaflæmi þekja stóran hluta svæðisins. Til að ráðast gegn hnignuninni hafa, eins og áður var getið, borgaryfirvöld í mörgum tilvikum reist íþróttamannvirki á hnignunarsvæðunum sem hluti af endurnýjunaráætlun svæðanna eða í sumum tilfellum borgarhlutanna. Því er vert að spyrja hvort uppbygging þjóðarleikvangs innanhússíþrótta í Skeifunni gæti stuðlað að endurreisn svæðisins?

Aðgengi að Skeifunni er gott þar sem Miklabraut og Suðurlandsbraut miðla umferð inn á svæðið. Almenningssamgöngur þar eru góðar auk þess sem ráðgert er að ein af meginlínum borgarlínunnar muni liggja um svæðið eftir Suðurlandsbrautinni. Góðar almenningssamgöngur eru mikilvægur þáttur með tilliti til enduruppbyggingar einstakra svæða.

Svæði sem gengið hafa í gegnum endurnýjun með tilkomu íþróttamannvirkja dafna í flestum tilvikum vel en þekkt er að íþróttaskólar, ráðstefnumiðstöðvar, höfuðstöðvar íþróttasérsambanda, íþróttahótel, endurhæfingarstöðvar, líkamsræktarstöðvar, crossfitstöðvar, veitingastaðir, íþróttavöruverslanir og önnur tengd starfsemi byggist upp í kjölfarið. Skeifan yrði því einskonar íþróttamiðstöð þjóðarinnar, steinsnar frá helsta íþróttasvæði landsins, Laugardalnum.

Ekki ætla ég að fullyrða að þannig starfsemi geti byggst upp umhverfis nýjan þjóðarleikvang innanhúsíþrótta í Skeifunni en það er alls ekki útilokað að það geti gerst. Umhugsunarvert.





Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Nýtt íþróttahús í Njarðvík?

Íþróttahúsið í Njarðvík, Ljónagryfjan svokallaða, er elsta keppnishúsið sem er í notkun í Domino‘s deild karla í körfuknattleik. Húsið var tekið í notkun árið 1973 og stendur við grunnskóla Njarðvíkur. Ef mið er tekið af íþróttahúsum sem byggð hafa verið hérlendis á síðasta áratug eða eru í byggingu er ljóst að mannvirkið er allt of lítið; ekki er nægilegt rými umhverfis keppnisgólfið og þá er takmörkuð aðstaða fyrir áhorfendur. Húsið er einfaldlega of lítið fyrir starfsemi félagsins. Vitaskuld er Ljónagryfjan fallegt og skemmtilegt íþróttahús og er það eitt af djásnum íslensks körfubolta en því miður er það ekki boðlegt lengur sem heimavöllur eins sigursælasta körfuknattleiksfélags landsins. ,,Ljónagryfjan" í Njarðvík. Skjáskot: Ja.is. Mikil íbúafjölgun Árið 1973 voru íbúar Njarðvíkur 1.700 en í dag búa yfir 6.000 manns í Njarðvíkurhluta Reykjanesbæjar. Fjölgun íbúa í Njarðvík nemur því um 250% á tímabilinu og er ljóst að þörf er á aðgerðum af hálfu bæjaryfirvalda sem

Nýtt körfuboltahús Hauka, Ólafssalur

Körfuknattleikslið Hauka mun spila á nýjum heimavelli á komandi leiktíð Domino's deildar karla og kvenna. Um er að ræða sérhæft körfuknattleikshús sem mun nær eingöngu þjónusta körfuknattleiksdeild Hauka. Um er að ræða einstakt hús á íslenska vísu og verður fróðlegt að fylgjast með því hvort önnur félög fylgi í kjölfarið. Keppnissalurinn er sérhannaður fyrir körfubolta og stúkan mun rúma 1100 manns en samkvæmt fréttum geta allt að 2.000 manns komist fyrir með því að raða fólki þétt á svölunum. Engin hefðbundin leikklukka verður í húsinu heldur verður stöðu, tíma og stigaskori varpað upp á LED skjái í sitthvorum enda vallarins. Meðfylgjandi myndir voru teknar af Erni Eyjólfssyni, ljósmyndara Fréttablaðsins, og birtist í frétt blaðsins um íþróttamannvirkið síðastliðið vor. Þá var áhorfendaaðstaðan ekki komin til landsins en hún ætti að vera kominn upp fyrir upphaf körfuknattleikstímabilsins í haust. Mynd: Örn Eyjólfsson, Fréttablaðið. Mynd: Örn Eyjólfsson, F

Landsliðsmenn um Laugardalshöll árið 1994: ,,á engan hátt samboðin þeirri reisn sem við viljum að íslenskur handknattleikur standi fyrir."

Íslenskir handboltalandsliðsmenn töldu sig illa svikna þegar ljóst var að ný keppnishöll myndi ekki rísa fyrir HM 95. Að þeirra mati var Laugardalshöllin úrelt bygging og engan veginn í stakk búin til að hýsa stórleiki á heimsmeistaramóti sem og aðra leiki að því loknu. Auðvitað var þessi höll þeim öllum kær en að þeirra mati áttu tilfinningar ekki að ráða för í þessu máli. Í júlí 1994, rúmum tíu mánuðum fyrir setningu heimsmeistaramótsins, sendu landsliðsmennirnir aðsenda grein í Morgunblaðið undir yfirskriftinni ,,Við gerum okkar besta - en ..." þar sem framtaksleysi stjórnvalda var harðlega gagnrýnt. ,,V ið höfum allir átt ógleymanlegar stundir í Laugardalshöllinni og margir af stærstu sigrum íslenska landsliðsins hafa einmitt verið þar. Hins vegar verður að viðurkennast að þessi 30 ára gamla bygging er barn síns tíma og á engan hátt samboðin þeirri reisn sem við viljum að íslenskur handknattleikur standi fyrir ," stóð m.a. í greininni. ,,Þ að er hins vegar alveg lj