Ef áætlanir ganga eftir mun Lettland eyða á næstu árum rúmum 13 milljörðum íslenskra króna í endurbætur og uppbyggingu nýrra íþróttamannvirkja
sem eru og verða skilgreind sem þjóðarleikvangar.
Ljóst er að nýr þjóðarleikvangur fyrir knattspyrnu mun rísa
innan fárra ára og leysa af hólmi Skonto Stadions sem var tekinn í notkun árið
2000. Sá völlur þótti aldrei vel heppnaður sem þjóðarleikvangur og er hann m.a. opinn á aðra skammhliðanna þar sem bílastæðaplan er staðsett.
Þá hefur þjóðarleikvangurinn í frjálsum íþróttum, Daugavas
Stadions, gengið í gegnum miklar og gagngerar endurbætur sem þýðir að þar geta
nú farið fram stór og veigamikil frjálsíþróttamót. Leikvangurinn var í nokkurri
niðurníslu en eftir enduruppbygginguna er ljóst að um er að ræða glæsilegan
frjálsíþróttaleikvang.
Stjórnvöld í Lettlandi kynntu síðan fyrir stuttu hugmyndir að
mikilli uppbyggingu á nærsvæði Daugavas Stadions og er ljóst að þar mun rísa
hágæða, alhliða íþróttasvæði. Þarna er þeirra Laugardalur ef svo má segja.
Frjálsíþróttaleikvangur, skautahöll, fjölnota íþróttahöll og frjálsíþróttahöll
Þar er ætlunin að reisa stóra skautahöll sem vonast er til að
geti létt á álaginu á Arena Riga sem er
þjóðarleikvangur skautaíþrótta í Lettlandi. Þörfin á annarri stórri skautahöll er talin mikil.
Íþróttahreyfingin í Lettlandi hefur auk þess á undanförnum
árum kallað eftir því að stór fjölnota íþróttahöll verði reist í Riga sem verði
þjóðarleikvangur fyrir innanhúsíþróttir. Riga Arena sem hýsir meðal annars
leiki lettneska körfuboltalandsliðsins var í grundvallaratriðum hönnuð með
ísknattleik í huga og eru margir þeirrar skoðunar að skautaíþróttir og
innanhúsíþróttir fari ekki vel saman.
Með þetta í huga hefur verið ákveðið að reisa þjóðarleikvang
fyrir innanhúsíþróttir við hliðina á Daugavas Stadions. Um er að ræða stóra og
glæsilega fjölnota íþróttahöll sem mun nýtast hinum ýmsu íþróttagreinum s.s.
körfubolta, handbolta, blaki og fimleikum.
Þá mun stór frjálsíþróttahöll rísa á svæðinu sem einnig
verður hægt að nýta undir hjólreiðaíþróttir.
Aðrar minni hallir munu einnig byggjast upp við Daugavs
Stadions þar sem íþróttagreinar eins og júdó, karate og hnefaleikar munu eiga
samastað.
Ísland langt á eftir í þessum málaflokki
Ef við berum þessa þróun í Lettlandi saman við þá þróun sem
á sér stað á Íslandi verður að segjast að baltneska þjóðin er komin langt á
undan okkur í þessum málum.
Núverandi þjóðarleikvangur ísknattleiks og innanhússíþrótta,
Arena Riga, var tekin í notkun árið 2006. Höllin er glæsilegt mannvirki og
kostaði bygging þess um 4 milljarða króna á núvirði. Til samanburðar var Laugardalshöll tekin í notkun árið 1965.
Eins og áður sagði er núverandi þjóðarleikvangur Letta í
knattspyrnu einungis um 20 ára gamall og nam kostnaðurinn við byggingu hans um 3,5
milljarða króna á núvirði. Ráðgert er að kostnaður við byggingu nýs
þjóðarleikvangs í knattspyrnu muni nema á bilinu 3,5 – 4,5 milljarða króna.
Áætlað er að heildarkostnaðurinn við uppbyggingu
íþróttasvæðisins umhverfis Daugavas Stadions muni nema um 8,2 milljörðum króna
og því er líklegt að Lettland muni eyða nálægt 13 milljörðum króna í
uppbyggingu þjóðarleikvanga á næstu árum.
Hérlendis er lítil hreyfing í þessum málum þó öllum sé ljóst
að þörf sé á að endurbæta Laugardalsvöll, byggja nýjan þjóðarleikvang fyrir
frjálsar íþróttir og nýjan þjóðarleikvang fyrir innanhúsíþróttir.
Ég hef áður fjallað um þá ótrúlega uppbyggingu þjóðarleikvanga sem nú á sér stað í Lúxemborg en ef fram heldur sem horfir munu stjórnvöld í Lúxemborg hafa fjárfest fyrir um 26 milljarða króna í uppbyggingu þjóðarleikvanga árið 2023 þegar öllum framkvæmdum á að ljúka.
Samanlagt munu Lúxemborg og Lettland því eyða rúmum 40 milljörðum króna í uppbyggingu þjóðarleikvanga á komandi árum. Geri aðrir betur.
Afmörkun íþróttasvæðisins umhverfis Daugavas Stadions. Mynd: GoogleMaps |
Afraksturinn verður heimsklassa íþróttasvæði. Mynd: LETA |
Viðamikið bílastæðahús verður undir svæðinu. Mynd: LETA |
Nýr þjóðarleikvangur Lettlands í knattspyrnu. Mynd: LFF.lv |
Ummæli
Skrifa ummæli