Fara í aðalinnihald

Færeyingar undirbúa byggingu nýrrar þjóðarhallar

Það vakti athygli síðastliðið haust þegar evrópska handknattleikssambandið (EHF) felldi úr gildi undanþágu sem gerði Færeyingum kleift að spila keppnisleiki sína í íþróttahöllinni á Hálsi í Þórshöfn.

Þess í stað spiluðu Færeyingar fyrsta heimaleik sinn í undankeppni EM gegn Danmörku í íþróttahöll danska úrvalsdeildarliðsins Skjern í október.

Í kjölfarið hafa skapast miklar umræður um málið meðal ráðamanna og almennings í Færeyjum og er ljóst að nýr þjóðarleikvangur fyrir innanhúsíþróttir mun rísa í Þórshöfn á næstu árum.

Ákveðið hefur verið að ný höll rísi á svæði sem kallast Stóratjörn í norðurjaðri Þórshafnar. Þar var gert ráð fyrir mikilli uppbyggingu fyrir rúmum 10 árum en þær áætlanir frestuðust í kjölfar efnahagshrunsins árið 2008. Nú hefur verið ákveðið að endurvekja þessi áform og mun ný fjölnota íþróttahöll rísa á svæðinu.

Einnig kom til greina að reisa nýja höll á helsta íþróttasvæði Þórshafnar þar sem núverandi þjóðarhöll og þjóðarleikvangurinn í knattspyrnu eru staðsett en Stóratjörn varð fyrir valinu með naumum meirihluta.

Áður hafði skipulags- og byggingarnefnd lagt það til að nýja þjóðarhöllin yrði staðsett við Stórutjörn.

Á bæjarráðsfundi Þórshafnar í október síðastliðnum var málið skoðað í þaula þar sem m.a. var rætt um hversu stór nýr þjóðarleikvangur þarf að vera en núverandi þjóðarhöll, íþróttahöllin á Hálsi, rúmar einungis 1800 manns í sæti.

Annika Olsen, bæjarstjóri Þórshafnar, hafði á öðrum bæjarráðsfundi flutt tillögu þess efnis að setja málefni nýrrar þjóðarhallar inn í fjárlög fyrir árið 2019.

Gunn Ellefsen, formaður færeyska handknattleikssambandsins, segir málið þola litla bið. Það mun ekki ganga til lengdar að spila alla keppnisleiki landsliða á erlendri grundu.

,,Þetta er vandamál,“ sagði Ellefsen sem vill sjá nýja fjölnota íþróttahöll sem stenst alþjóðlegar kröfur rísa sem fyrst. Hún segir að færeyskum stjórnvöldum beri skylda að búa þannig um hnútana að landslið þjóðarinnar spili keppnisleiki heima fyrir. Að hennar mati á fjármögnun nýs þjóðarleikvangs að vera í höndum ríkisins, Þórshafnar og einkaaðila.

Olsen tekur undir þessi orð og segir ljóst að byggja þurfi nýjan þjóðarleikvang fyrir innanhúsíþróttir í bænum, það sé einfaldlega staðreynd málsins. Hins vegar muni það ekki gerast nema með aðkomu ríkisins enda um að ræða fjárfreka framkvæmd.

Olsen fer auk þess hörðum orðum um forvera sinn sem samþykkti stækkun íþróttahallarinnar á Hálsi árið 2015 en þær framkvæmdir hefðu með réttu átt að aðlaga bygginguna að reglugerðum EHF.

Framkvæmdunum lauk árið 2017 og nam kostnaðurinn um 900 milljónum íslenskra króna en þess má geta að framkvæmdum vegna endurbóta hallarinnar hafa numið rúmum einum og hálfum milljarði króna frá 2008.

Heðin Mortensen, sem var forveri Olsen í starfi, segir þetta útúrsnúning hjá Olsen því það hafi verið vitað mál að stækkun íþróttahallarinnar á Hálsi myndi ekki aðlaga höllina að reglugerðum EHF.

Lofthæðin sé einfaldlega of lág og þá er ógerlegt að koma 2000 áhorfendum fyrir þar inni eins og reglugerð EHF segir til um. Það hafi einfaldlega verið mistök að gera ráð fyrir því að undanþágur vegna reglugerðar EHF myndu vara að eilífu.

Bogi Andreasen, sem á sæti í bæjarstjórn Þórshafnar, segir að nú sé runnin upp sú stund að setja byggingu nýrrar þjóðarhallar í ferli.

,,Það var gaman að mæta Dönum í Skjern, þó skemmtilegra hefði verið að mæta þeim í stórri og löglegri færeyskri höll,“ sagði Bogi í samtali við færeyska fjölmiðla.

,,Það er alltaf hægt að vera vitur eftir á og segja að taka hefði átt á þessu máli miklu fyrr en það skiptir ekki máli núna. Núna er mikilvægast að allir séu samtaka í því að ráðast í byggingu þessarar hallar. Hún á að vera vígi í undankeppnum og alþjóðlegum keppnum í handbolta, blaki, fimleikum o.s.frv,“ sagði Bogi og bætti við.

,,Það á að hefjast handa við þessa íþróttahöll, svo að íþróttafólk okkar geti keppt á alþjóðavettvangi hér heima í Færeyjum.“

Talað hefur verið um að nýja þjóðarhöllin í Færeyjum muni rúma á bilinu 3.000 - 4.500 manns í sæti. Til samanburðar tekur Laugardalshöllin 2.300 manns í sæti.

Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Nýtt íþróttahús í Njarðvík?

Íþróttahúsið í Njarðvík, Ljónagryfjan svokallaða, er elsta keppnishúsið sem er í notkun í Domino‘s deild karla í körfuknattleik. Húsið var tekið í notkun árið 1973 og stendur við grunnskóla Njarðvíkur. Ef mið er tekið af íþróttahúsum sem byggð hafa verið hérlendis á síðasta áratug eða eru í byggingu er ljóst að mannvirkið er allt of lítið; ekki er nægilegt rými umhverfis keppnisgólfið og þá er takmörkuð aðstaða fyrir áhorfendur. Húsið er einfaldlega of lítið fyrir starfsemi félagsins. Vitaskuld er Ljónagryfjan fallegt og skemmtilegt íþróttahús og er það eitt af djásnum íslensks körfubolta en því miður er það ekki boðlegt lengur sem heimavöllur eins sigursælasta körfuknattleiksfélags landsins. ,,Ljónagryfjan" í Njarðvík. Skjáskot: Ja.is. Mikil íbúafjölgun Árið 1973 voru íbúar Njarðvíkur 1.700 en í dag búa yfir 6.000 manns í Njarðvíkurhluta Reykjanesbæjar. Fjölgun íbúa í Njarðvík nemur því um 250% á tímabilinu og er ljóst að þörf er á aðgerðum af hálfu bæjaryfirvalda sem

Nýtt körfuboltahús Hauka, Ólafssalur

Körfuknattleikslið Hauka mun spila á nýjum heimavelli á komandi leiktíð Domino's deildar karla og kvenna. Um er að ræða sérhæft körfuknattleikshús sem mun nær eingöngu þjónusta körfuknattleiksdeild Hauka. Um er að ræða einstakt hús á íslenska vísu og verður fróðlegt að fylgjast með því hvort önnur félög fylgi í kjölfarið. Keppnissalurinn er sérhannaður fyrir körfubolta og stúkan mun rúma 1100 manns en samkvæmt fréttum geta allt að 2.000 manns komist fyrir með því að raða fólki þétt á svölunum. Engin hefðbundin leikklukka verður í húsinu heldur verður stöðu, tíma og stigaskori varpað upp á LED skjái í sitthvorum enda vallarins. Meðfylgjandi myndir voru teknar af Erni Eyjólfssyni, ljósmyndara Fréttablaðsins, og birtist í frétt blaðsins um íþróttamannvirkið síðastliðið vor. Þá var áhorfendaaðstaðan ekki komin til landsins en hún ætti að vera kominn upp fyrir upphaf körfuknattleikstímabilsins í haust. Mynd: Örn Eyjólfsson, Fréttablaðið. Mynd: Örn Eyjólfsson, F

Landsliðsmenn um Laugardalshöll árið 1994: ,,á engan hátt samboðin þeirri reisn sem við viljum að íslenskur handknattleikur standi fyrir."

Íslenskir handboltalandsliðsmenn töldu sig illa svikna þegar ljóst var að ný keppnishöll myndi ekki rísa fyrir HM 95. Að þeirra mati var Laugardalshöllin úrelt bygging og engan veginn í stakk búin til að hýsa stórleiki á heimsmeistaramóti sem og aðra leiki að því loknu. Auðvitað var þessi höll þeim öllum kær en að þeirra mati áttu tilfinningar ekki að ráða för í þessu máli. Í júlí 1994, rúmum tíu mánuðum fyrir setningu heimsmeistaramótsins, sendu landsliðsmennirnir aðsenda grein í Morgunblaðið undir yfirskriftinni ,,Við gerum okkar besta - en ..." þar sem framtaksleysi stjórnvalda var harðlega gagnrýnt. ,,V ið höfum allir átt ógleymanlegar stundir í Laugardalshöllinni og margir af stærstu sigrum íslenska landsliðsins hafa einmitt verið þar. Hins vegar verður að viðurkennast að þessi 30 ára gamla bygging er barn síns tíma og á engan hátt samboðin þeirri reisn sem við viljum að íslenskur handknattleikur standi fyrir ," stóð m.a. í greininni. ,,Þ að er hins vegar alveg lj