Fara í aðalinnihald

Forsætisráðherrann sem stóð við loforðið

Íbúar Mið-Ameríkuríkisins Belís sprungu úr stolti þegar körfuboltalandslið þjóðarinnar vann til silfurverðlauna í Mið-Ameríkukeppninni í körfubolta, COCABA Championships, árið 2009. Liðið hafði beðið nauman ósigur fyrir Mexíkó í úrslitaleiknum og voru liðsmennirnir hylltir sem þjóðhetjur við heimkomuna enda í fyrsta skipti sem þjóðin vann til verðlauna í liðakeppni á alþjóðavettvangi.

Við þetta tilefni gaf þáverandi forsætisráðherra landsins, Dean O. Barrow, landsmönnum loforð. ,,Ég ætla að lofa því hér með að ég mun finna fjármagn til að byggja fyrsta flokks körfuknattleikshöll. Þetta afrek körfuboltalandsliðsins á ekki minna skilið.“

Þáverandi þjóðarleikvangur innanhússíþrótta í Belís var reistur undir lok 8. áratugarins og stóðst ekki þær kröfur og reglugerðir sem gerðar eru til nútímaíþróttahalla. Engum hugnaðist að þetta frækna körfuboltalandslið þyrfta að spila við þess konar aðstæður. Engum.

Níu árum eftir þennan frækna árangur var nýr þjóðarleikvangur fyrir innanhúsíþróttir vígður í Belís en um er að ræða nútímalega íþróttahöll sem er verðugt vígi körfuboltalandsliðsins.
Íbúar Belís eru um 385 þúsund eða u.þ.b. 30 þúsund fleiri en Íslendingar og því er það ekkert skrýtið hversu stoltir þeir voru af árangrinum í Mið-Ameríkukeppninni.

Ég leiði hugann þó að því hversu mikill munur er á þankaganginum hérlendis og í Belís. Erum við of góðu vön þegar kemur að íþróttum.

Það eru jú ekki nema rúm 11 ár síðan okkar ástkæra handboltalandslið vann til silfurverðlauna á Ólympíuleikum. Ekki í Mið-Ameríku heldur á ÓLYMPÍULEIKUM. Þá var slæm keppnisaðstaða í Laugardalshöll á allra vitorði og menn á borð við Einar Þorvarðarson, þáverandi framkvæmdarstjóri HSÍ, höfðu látið hafa eftir sér að höllin væri úrelt mannvirki og þörf væri á nýju.

Ekki steig forsætisráðherra fram með eftirfarandi yfirlýsingu í anda kollega síns frá Belís: ,,Ég ætla að lofa því hér með að ég mun finna fjármagn til að byggja fyrsta flokks þjóðarleikvang. Þetta afrek handboltalandsliðsins á ekki minna skilið."

Afrekið var samt sem áður gríðarlega stórt og voru leikmenn og aðstandendur landsliðsins sæmdir riddarakrossinum. Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, sagði m.a. við það tilefni: ,,Mér finnst það mikilvægt að Íslendingar allir átti sig á því að afrek ykkar er ekki aðeins merkilegt og einstakt í okkar sögu heldur er það það líka í heimssögu íþróttanna.“

Já, þetta var merkilegt afrek en samt ekki nógu merkilegt í augum stjórnmálamanna að búa þessu afrekslandsliði viðunandi æfinga- og keppnisaðstöðu hér heima. Það eru 11 ár síðan strákarnir okkur unnu til silfurverðlauna á Ólympíuleikunum og ástandið hefur aðeins breyst til hins verra. Síðan þá hefur sætum í Laugardalshöll t.a.m. fækkað um nokkur hundruð og þá hafa eftirlitsmenn á vegum EHF verið iðnir við að benda á vankanta hallarinnar í keppnisleikjum.

Í hvaða þjóðarhöll þarf að hnika til keppnisdúki, þvers og kurs, svo að hægt sé að keppa á sem sómasamlegastan hátt, fyrir leikmenn og áhorfendur. Jú í Laugardalshöll.

Það er auðvitað eðlilegt að verðlauna þennan frábæra árangur á Ólympíuleikunum með því að fækka sætum og gefa þarf með færri stuðningsmönnum kost á því að berja landsliðið augum. Hins vegar er það nauðsynlegt, til að koma til móts við reglugerð EHF.

Hér þarf að rísa ný þjóðarhöll. Strax.
 
 

 
Svona lítur nýja þjóðarhöllin í Belís út.




 

Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Nýtt körfuboltahús Hauka, Ólafssalur

Körfuknattleikslið Hauka mun spila á nýjum heimavelli á komandi leiktíð Domino's deildar karla og kvenna. Um er að ræða sérhæft körfuknattleikshús sem mun nær eingöngu þjónusta körfuknattleiksdeild Hauka. Um er að ræða einstakt hús á íslenska vísu og verður fróðlegt að fylgjast með því hvort önnur félög fylgi í kjölfarið. Keppnissalurinn er sérhannaður fyrir körfubolta og stúkan mun rúma 1100 manns en samkvæmt fréttum geta allt að 2.000 manns komist fyrir með því að raða fólki þétt á svölunum. Engin hefðbundin leikklukka verður í húsinu heldur verður stöðu, tíma og stigaskori varpað upp á LED skjái í sitthvorum enda vallarins. Meðfylgjandi myndir voru teknar af Erni Eyjólfssyni, ljósmyndara Fréttablaðsins, og birtist í frétt blaðsins um íþróttamannvirkið síðastliðið vor. Þá var áhorfendaaðstaðan ekki komin til landsins en hún ætti að vera kominn upp fyrir upphaf körfuknattleikstímabilsins í haust. Mynd: Örn Eyjólfsson, Fréttablaðið. Mynd: Örn Eyjólfsson, F

Nýtt íþróttahús í Njarðvík?

Íþróttahúsið í Njarðvík, Ljónagryfjan svokallaða, er elsta keppnishúsið sem er í notkun í Domino‘s deild karla í körfuknattleik. Húsið var tekið í notkun árið 1973 og stendur við grunnskóla Njarðvíkur. Ef mið er tekið af íþróttahúsum sem byggð hafa verið hérlendis á síðasta áratug eða eru í byggingu er ljóst að mannvirkið er allt of lítið; ekki er nægilegt rými umhverfis keppnisgólfið og þá er takmörkuð aðstaða fyrir áhorfendur. Húsið er einfaldlega of lítið fyrir starfsemi félagsins. Vitaskuld er Ljónagryfjan fallegt og skemmtilegt íþróttahús og er það eitt af djásnum íslensks körfubolta en því miður er það ekki boðlegt lengur sem heimavöllur eins sigursælasta körfuknattleiksfélags landsins. ,,Ljónagryfjan" í Njarðvík. Skjáskot: Ja.is. Mikil íbúafjölgun Árið 1973 voru íbúar Njarðvíkur 1.700 en í dag búa yfir 6.000 manns í Njarðvíkurhluta Reykjanesbæjar. Fjölgun íbúa í Njarðvík nemur því um 250% á tímabilinu og er ljóst að þörf er á aðgerðum af hálfu bæjaryfirvalda sem

Laugardalshöllin: gömul, eldri, elst

Þegar fjórar síðustu undankeppnir í EM í handbolta eru skoðaðar kemur í ljós að Laugardalshöll er langelsta íþróttahöllin sem er notuð að staðaldri í keppnisleikjum í Evrópu. Fjölnota íþróttahöll. Alls fóru fram 12 landsleikir í í Laugardalshöll í undankeppni EM á þessu tímabili, eða allir heimaleikir Íslands. Auk Laugardalshallarinnar fóru á þessu tímabili fram landsleikir í 12 öðrum íþróttahöllum sem reistar voru fyrir 1970. Engin þeirra hýsti jafnmarga leiki og Laugardalshöllin en þær hallir sem komust næst Laugardalshöllinni hýstu fjóra leiki á þessu tímabili, eða að meðaltali einn leik í hverri undankeppni. Þær hallir sem hýstu fjóra landsleiki voru Yunost Sports Palace (1967) í Chelyabinsk í Rússlandi, Dvorana Mirza Delibasic (1969) í Sarajevo í Bosníu og Minsk Sports Palace (1966) í Minsk í Hvíta-Rússlandi. Þessar þrjár íþróttahallir eru allar handan austantjaldsins en Ísland er eina Vestur-Evrópu þjóðin þar sem landsleikir í handknattleik eru leiknir að s