Fara í aðalinnihald

Aðstöðuleysi versus aðstöðuleysi – nútímakröfur versus nútímakröfur

Í rúm 20 ár hefur stjórnvöldum verið bent á það aðstöðuleysi sem ríkir í Laugardalshöllinni. Þar eru margir um hituna og ljóst að þessi helsta keppnishöll Íslendinga annar ekki þeirri eftirspurn sem þar er.

Þá er höllin 54 ára gamalt mannvirki og stenst engan veginn þær kröfur sem gerðar eru til nútímaíþróttamannvirkja. Þá er öryggi almennings og keppenda þar innandyra ábótavant í tilfellum keppnisleikja. Hún er á undanþágu hjá alþjóðlegum sérsamböndum sem gerir íslensku landsliðunum í hand- og körfuknattleik kleift að spila heimaleiki sína í undankeppnum stórmóta á íslenskri grund. Margoft hefur verið bent á þá staðreynd að þessi undanþága komi ekki til með að vara að eilífu og er það skandall að ekkert sé gert af hálfu stjórnvalda til að sporna við því með byggingu nýs þjóðarleikvangs innanhússíþrótta.

Ávallt hafa stjórnvöld skellt skollaeyrum við ákalli íþróttahreyfingarinnar um betrumbætur og er ljóst að hér gæti ríkt leiðindaástand innan fárra ára verði ekkert að gert.

Það styttist óðfluga í að Laugardalshöllin komist á sjötugsaldur sem er einsdæmi í tilviki þjóðarhalla sem eru notaðar að staðaldri í alþjóðlegum keppnisleikjum í hinum vestræna heimi.

En svo virðist sem að það skipti máli að vera Jón eða séra Jón.

Bætt úr aðstöðuleysi á Alþingi

Upp úr aldamótunum fór að bera á aðstöðuleysi á Alþingi auk þess sem talin var þörf á að nútímavæða vinnuaðstöðu þingmanna með nýrra og stærra húsnæði. Vinnuaðstaðan var sögð óviðunandi og þörfin mikil á uppbyggingu.

Ólafur G. Einarsson, þáverandi forseti þingsins, sagði m.a. á þingfundi þann 25. mars 1999 vegna fyrirspurnar um fyrirhugaða nýbyggingu, þ.e. þjónustuskála, við Alþingishúsið.

,,Það þarf ekki að hafa um það mörg orð að löggjafarþing sem tryggir ekki þingmönnum og starfsfólki viðunandi aðstöðu getur ekki rækt hlutverk sitt og staða þess verður óhjákvæmilega veikari fyrir bragðið. Það hefur því verið eitt af höfuðviðfangsefnum forustu þingsins þetta kjörtímabil að bæta starfsaðstöðu þingmanna og starfsmanna Alþingis. Ég tel að mikið hafi áunnist í þessum efnum og vísa þá einkum til endurbyggingar húsa þingsins við Kirkjustræti og fyrirhugaðs þjónustuskála vestan við Alþingishúsið. Ég vænti þess að framkvæmdir við skálann geti hafist í maí- eða júnímánuði og að lokið verði við að steypa upp bygginguna um áramót þannig að fyrir haustið árið 2000 verði hægt að taka skálann í notkun. Þjónustuskálinn mun bæta mjög aðstöðu þingsins og ekki síst létta á þeirri ánauð sem nú er á Alþingishúsinu. En skálinn er aðeins einn áfangi af mörgum í húsnæðismálum þingsins.“

Halldór Blöndal, tók við af Ólafi sem forseti Alþingis, og hann ítrekaði þá nauðsyn að bæta þyrfti starfsaðstöðu þingmanna með tilkomu þjónustuskála við Alþingishúsið.

,,Fastanefndirnar hafa lengi búið við óviðunandi aðstöðu og er von mín að hið nýja húsnæði verði til mikilla bóta í nefndastarfinu. Í framhaldi af fyrirhuguðum framkvæmdum við 2. áfanga skálabyggingarinnar, sem hefjast í haust, eru það áform forsætisnefndar að við Kirkjustræti og Tjarnargötu rísi á næstu árum skrifstofubygging fyrir alþingismenn. Skrifstofur alþingismanna eru núna flestar í misgóðu leiguhúsnæði og löngu tímabært að Alþingi reisi eigið skrifstofuhúsnæði til að tryggja þingmönnum nútímalega aðstöðu.“

Í árskýrslu Alþingis vegna starfa löggjafarþings 2001 – 2002 og 2002 – 2003 segir m.a.: ,,Föstudaginn 27. september 2002 tók Alþingi í notkun nýtt húsnæði, svonefndan Skála, sem er þjónustubygging vestan Alþingishússins. Með tilkomu Skálans fékkst langþráð úrbót í húsnæðismálum Alþingis.“

Samkvæmt skilamati Framkvæmdarsýslu ríkisins árið 2005 vegna framkvæmdarinnar kemur fram að heildarkostnaðurinn hafi numið 900 milljónum króna sem gerir um 1,7 milljarð króna á núvirði.

Þrátt fyrir tilkomu Skálans hefur verið ljóst að enn þarf að bæta starfsaðstöðu Alþingis auk þess sem koma þarf ráðuneytunum í nútímalegra og stærra húsnæði.

Því hefur verið samþykkt að byggja stóra skrifstofubyggingu fyrir starfsemi Alþingis í nánd við Alþingishúsið. Um er að ræða um sex þúsund m2 byggingu á fimm hæðum. Kostnaðaráætlun gerir ráð fyrir að byggingin muni kosta rúma þrjá milljarða króna.

Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, sagði m.a. við setningu 148. Löggjafarþings 14. desember 2017: ,,Það þarf ekki að segja þingmönnum hversu mikilvægt það er að hafa alla starfsemi Alþingis og vinnuaðstöðu þingmanna hér á reitnum þar sem húsnæði þess verður samtengt. Slík nútímaleg og sérhönnuð vinnuaðstaða er ekki lítill liður í því að styrkja Alþingi. Ég bind vonir við að hægt verði að hefjast handa við framkvæmdir upp úr miðju næsta ári.“

Helgi Bernódusson, skrifstofustjóri Alþingis, sagði að skrifstofubyggingin muni bæta starfsaðstöðuna til muna.

Hún breytir geysilega miklu. Við höfum í rauninni talað um þetta innandyra eins og viðbyggingu. Af því að við leggjum svo mikla áherslu á að þetta verði allt undir einu og sama þaki. Það er það sem skiptir svo miklu máli; að fá hagkvæmar einingar hérna á alþingisreitinn. En ekki mismunandi stórar skrifstofur og mismunandi hagkvæmar,“ sagði Helgi í samtali við Stöð 2.

Mikil uppbygging fyrirhuguð á Stjórnarráðsreitnum

Þrátt fyrir að heildarkostnaðurinn við byggingu þjónustuskála Alþingis og fyrirhuguð skrifstofubygging stofnunarinnar muni nema rúma um 5 milljörðum króna mun umfangsmesta uppbygging Alþingis eiga sér stað á Stjórnarráðsreitnum.

Í ávarpi forsætisráðherra um fyrirhugaða uppbyggingu á Stjórnarráðsreitnum segir m.a.: ,,Samþykkt ályktunar Alþingis í október 2016 um að fela ríkisstjórninni að efna til samkeppni um skipulag Stjórnarráðsreits og hönnun og útlit Stjórnarráðsbygginga var löngu tímabær þar sem ekki hefur legið fyrir uppbyggingaráætlun fyrir þetta svæði. Mikilvægt er að mörkuð verði stefna og áætlun um lagfæringar húsa sem þar eru fyrir og byggingu nýrra til framtíðar litið. Þá er mikilvægt að tryggja ráðuneytum húsnæði sem stenst kröfur samtímans.“

Í almennri lýsingu vegna hönnunarsamkeppni um skipulag svæðisins segir m.a.: ,,Mikilvægt er að umhverfið uppfylli kröfur um aðgengi, öryggi, og skilvirkni.“

Á öðrum stað segir: ,,Enn fremur mun markviss uppbygging á Stjórnarráðsreit bæta til muna aðstöðu ráðuneytanna, aðgengi almennings að þeim og um leið verða mikilvægt innlegg í vistvæna framtíð miðborgar Reykjavíkur.“

Miðað við það byggingamagn sem áætlað er á reitnum er ljóst að kostnaðurinn við uppbygginguna gæti numið á bilinu 15 – 20 milljörðum króna.

Öll sagan er þó ekki sögð því einnig hefur verið samþykkt að reisa viðbyggingu við Stjórnarráðshúsið við Lækjargötu. Í samkeppnislýsingu um fyrirhugaða byggingu segir m.a.: ,,Byggja þarf viðbyggingu við Stjórnarráðshúsið í Lækjargötu og endurskoða innra skipulag þess til þess að leysa húsnæðisþörf forsætisráðuneytisins. Samhliða þessu verkefni efnir forsætisráðuneytið til samkeppni um skipulag Stjórnarráðsreitsins sem markast af Ingólfsstræti, Skúlagötu, Klapparstíg og Lindargötu. Vonast er til að í framhaldinu verði mörkuð stefna og gerð áætlun um uppbyggingu reitsins fyrir ráðuneyti og stofnanir þar sem horft verði til vistvænna lausna og vinnuumhverfis sem stenst nútímakröfur.“

Gera má ráð fyrir því að kostnaðurinn við viðbygginguna við Stjórnarráðshúsið verði á bilinu tveir til tveir og hálfur milljarður króna.

Eins og talið hefur verið upp hér að framanverðu er ljóst að stefna Alþingis er að bæta starfsumhverfi og starfsaðbúnað sinna starfsmanna. Sem er gott mál og í stefnumörkuninni er að finna orðlag eins og ,,viðunandi aðstaða“, ,,bætt starfsaðstaða“, „nútímaleg aðstaða“, ,,langþráð úrbót“, ,,nútímaleg og sérhönnuð vinnuaðstaða“, ,,hagkvæmar einingar“, ,,löngu tímabær“, ,,standast kröfur samtímans“, ,,uppfylla kröfur um öryggi“, ,,bæta til muna aðstöðu“, ,,leysa húsnæðisþörf“, ,,vinnuumhverfi sem stenst nútímakröfur.“

Ég óska Alþingi til hamingju með þá uppbyggingu sem er lokið og þá uppbyggingu sem fyrirhuguð er.

En hvað með málefni Laugardalshallar?

Hins vegar hefur margoft verið bent á þann vanda sem hverfist um Laugardalshöll, helstu keppnishöll okkar Íslendingar. Þá byggingu sem á að vera flaggskip innanhúsíþrótta hér á landi. Hún stenst ekki nútímakröfur og er úr sér gengið mannvirki.

Árið 1987 sagði Jón Hjaltalín Magnússon, þáverandi formaður HSÍ, að mikil þörf væri á stærra mannvirki en Laugardalshöll. ,,Íþróttahöllin í Laugardal, sem tekin var í notkun fyrir rúmlega 20 árum, var vegleg á þeim tíma, en hvað eftir annað hefur hún sprungið vegna mikils áhorfendafjölda. Því teljum við tímabært að ráðast í byggingu stórs íþróttahúss."

Árið 1989 birtist frétt þess efnis í Morgunblaðinu að Laugardalshöll væri ólögleg keppnishöll vegna þess að hún uppfyllti ekki skilyrði Alþjóða handknattleikssambandsins, IHF, fyrir leiki í Evrópukeppnum. ,,Alþjóða handknattleikssambandið, IHF, hefur gefið út nýja reglugerð um íþróttahús fyrir leiki í Evrópukeppninni í handknattleik. Samkvæmt þessari reglugerð, sem er mjög ítarleg, er Laugardalshöllin ólögleg.“

Þar segir m.a. að fjarlægð marka frá veggjum sé vandamál í höllinni. ,,Í þessari reglugerð segir að mörkin verði að vera að minnsta kosti tvo metra frá vegg og það gæti orðið svolítið erfitt.“

Allt frá því að Laugardalshöllin var tekin í notkun hefur verið barist um notkunartíma þar inni og er frægt þegar Íslandsmótinu í handbolta, sem var á þeim tíma leikið í höllinni, var frestað árið 1970 vegna fatasýningar. ,,Ástæðan fyrir frestuninni er sú að nú stendur yfir fatasýning í höllinni, og er ekki talið hægt að leika í 1. deild, þegar hún stendur yfir, enda trufla eflaust hljóðin í áhorfendum viðskiptavini sýningarinnar. Er ástæða til að spyrja, hvort Laugardalshöllin er íþróttahöll eða sýningarhöll,“ sagði m.a. í frétt um málið á þeim tíma.

Í júlí 1994 sendu þáverandi landsliðsmenn Íslands í handknattleik frá sér sameiginlega yfirlýsingu þar sem þeir sögðu að tími væri kominn til að reisa nýja fjölnota íþróttahöll í stað Laugardalshallarinnar. ,,Við höfum allir átt ógleymanlegar stundir í Laugardalshöllinni og margir af stærstu sigrum íslenska landsliðsins hafa einmitt verið þar. Hins vegar verður að viðurkennast að þessi 30 ára gamla bygging er barn síns tíma og á engan hátt samboðin þeirri reisn sem við viljum að íslenskur handknattleikur standi fyrir.“

Þarna er um að ræða 30 ára gamla byggingu en í dag er hún um helmingi eldri og enn stendur hún sem flaggskip innanhúsíþrótta á Íslandi.

Ekki hefur verið skortur á ábendingum ýmissa aðila um vankanta hallarinnar á umliðnum árum og hér að neðanverðu eru ýmis ummæli þess efnis.

Einar Þorvarðarson (Janúar, 2007): ,,Við náðum til að mynda að selja 1.700-1.800 miða inn á leikinn gegn Svíum í júní og það var fullt hús. Við hefðum getað selt 6-7 þúsund miða á leikinn hefði húsið rúmað þann fjölda. Laugardalshöllin er ekki nægilega stór fyrir leiki af þessari stærðargráðu.“

Einar Þorvarðarson (Júní, 2007): ,,Því miður er aðstaðan þar (í Laugardalshöllinni) ófullnægjandi. Því miður. Ég vil sjá miklu stærra keppnishús rísa og tel rétt að menn leiði hugann að því að byggja nýja þjóðarhöll sem geti að sjálfsögðu hýst fleiri íþróttagreinar en handknattleik. Það er ekki nóg að hafa þjóðarhöll sem tekur um 2.700 manns í sæti.“

Einar Þorvarðarson, framkvæmdarstjóri HSÍ, (Janúar, 2010): „Það er hreint frábært að sjá hversu áhuginn er mikill en jafnframt slæmt að geta ekki haft fleiri miða í boði fyrir þjóðina.“

Einar Þorvarðarson, framkvæmdarstjóri HSÍ, (Mars, 2010): ,,Áhugi á íslenska landsliðinu í handknattleik hefur fyrir löngu sprengt Laugardalshöllina utan af sér.“

Einar Þorvarðarson, framkvæmdarstjóri HSÍ, (Október, 2014): „Höllin er bara barn síns tíma. Það eru orðnar meiri kröfur í kringum alþjóðlega leiki sem húsið ræður ekki við. Svona er bara staðan á þessu húsi; það uppfyllir ekki nútímastaðla.“

Guðjón Valur Sigurðsson, fyrirliði íslenska landsliðsins í handbolta, (Desember, 2015): ,,Mér finnst aðstöðuleysi handbolta- og körfuboltalandsliðsins fyrir neðan allar hellur. Það er enginn standard yfir þessu.“

Einar Örn Jónsson, íþróttafréttamaður á RÚV, (Febrúar, 2017): ,,Ef menntamálaráðherra er að horfa, sem ég veit að hann er að gera þar sem hann er uppi í stúkunni. Þá er þetta ein af ástæðunum að Laugardalshöll er kol, kolólögleg sem keppnishöll. Þessi keppnishöll sem við Íslendingar höfum reyndar átt í rúm 50 ár er einfaldlega úr sér gengin og til skammar. Akkúrat svona atvik eru ástæðan fyrir því að kröfur til keppnishalla eru orðnar miklu, miklu meiri en á miðri síðustu öld þegar þessi höll var byggð. Þetta hús er einfaldlega úrelt og hættulegt fyrir afreksíþróttafólk. Það er hart að segja það en það er einfaldlega staðan. Þessu húsi þarf að loka.“

Hannes Sigurbjörn Jónsson, formaður KKÍ, (Nóvember, 2017): „Við erum ekkert að tala um að fá nýtt íþróttahús eða nýja höll á morgun, heldur að ríkisvaldið komi að því að hjálpa okkur.“

Róbert Geir Gíslason, framkvæmdarstjóri HSÍ, (Nóvember, 2017): ,,Höllin sjálf er barn síns tíma. Þetta er orðið gamalt hús og þrátt fyrir góðan vilja stjórnenda sem vilja allt fyrir okkur gera að þá eru hreinlega aðstæður í höllinni bara ekki boðlegar lengur.“

Róbert Geir Gíslason, framkvæmdarstjóri HSÍ, (Ágúst, 2018): „Þetta er ekki þægileg staða til langs tíma. Hölllin er orðin rúmlega 50 ára gömul. Hún uppfyllir ekki þá staðla sem eru gerðir núna og ef sambandið herðir enn staðlana þá lendum við í miklum vandræðum.”

Róbert Geir Gíslason, framkvæmdarstjóri HSÍ, (Ágúst, 2018): „Ef við missum undanþáguna þá þurfum við að leita annað. Það er ekkert annað hús á Íslandi sem uppfyllir þessi skilyrði. Danmörk er næsta land en við skulum vona að ráðamenn vakni til lífsins ag það verði gert eitthvað í þessum málum.”

Róbert Geir Gíslason, framkvæmdarstjóri HSÍ, (Ágúst, 2018): „Við erum búin að hafa samband bæði við ráðherra og eins við borgarstjóra og biðja um viðbrögð. Það átti að stofna samstarfshóp hjá borginni um þessi málefni, en við höfum lítið heyrt síðan.“

Hannes Sigurbjörn Jónsson, formaður KKÍ, (September, 2018): ,,Mér finnst lítið þokast hjá stjórnvöldum hvað þetta málefni varðar og úrbætur búnar að vera of lengi í spjallfasa. Nú finnst mér vera kominn tími á aðgerðir áður en það verður um seinan.“

Hannes Sigurbjörn Jónsson, formaður KKÍ, (September, 2018): „Ráðamenn verða að vakna. Þeir þurfa að vakna núna en ekki eftir tíu ár.“

Hannes Sigurbjörn Jónsson, formaður KKÍ, (September, 2018): ,,Það er alkunna að höllin er barn síns tíma og FIBA hefur gert alvarlegar athugasemdir við hana í gegnum tíðina. Ég óttast það að eftir tvö til þrjú ár mun FIBA bresta þolinmæðina og við stöndum uppi án löglegrar keppnishallar.“

Lilja Alfreðsdóttir, menntamálaráðherra, (September, 2018): ,,Það er ekkert því til fyrirstöðu að við setjumst öll niður og förum yfir þessi mál á uppbyggilegan og skynsamlegan hátt sem við ætlum okkur svo sannarlega að gera.“

Guðmundur Guðmundsson, landsliðsþjálfari Íslands í handbolta, (Desember, 2018): „Aðstöðuleysi landsliðsins er til háborinnar skammar.“

Flest ofangreind ummæli eiga það sammerkt að benda á aðstöðuleysi og brýna þörf á að byggja upp nútímalega aðstöðu sem uppfyllir nútíma kröfur og öryggi.

Þegar uppbyggingu Alþingis lýkur innan nokkurra ára mun heildarkostnaðurinn hafa numið yfir 20 milljörðum íslenskra króna. Á sama tíma er lítið hlustað ákall íþróttahreyfingarinnar um að löngu sé tímabært að reisa hér á landi nýjan þjóðarleikvang fyrir innanhúsíþróttir.

Þið Alþingismenn sáuð vel hversu aðstöðuleysi torveldaði starfi ykkar og ákváðu því að bæta úr því. Á sama tíma hljótið þið að sjá hversu mikið keppnis og æfingaaðstöðuleysi torveldar landsliðunum í hand- og körfuknattleik.

Vonandi munu ríki og borg sjá sóma sinn í því að bæta aðstöðu þessa afreksfólks sem hefur aukið hróður Íslands á Ólympíuleikum, Heimsmeistaramótum og Evrópumótum. Það og allir í kringum landsliðin eiga betra skilið. Líka stuðningsmennirnir.

Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Nýtt körfuboltahús Hauka, Ólafssalur

Körfuknattleikslið Hauka mun spila á nýjum heimavelli á komandi leiktíð Domino's deildar karla og kvenna. Um er að ræða sérhæft körfuknattleikshús sem mun nær eingöngu þjónusta körfuknattleiksdeild Hauka. Um er að ræða einstakt hús á íslenska vísu og verður fróðlegt að fylgjast með því hvort önnur félög fylgi í kjölfarið. Keppnissalurinn er sérhannaður fyrir körfubolta og stúkan mun rúma 1100 manns en samkvæmt fréttum geta allt að 2.000 manns komist fyrir með því að raða fólki þétt á svölunum. Engin hefðbundin leikklukka verður í húsinu heldur verður stöðu, tíma og stigaskori varpað upp á LED skjái í sitthvorum enda vallarins. Meðfylgjandi myndir voru teknar af Erni Eyjólfssyni, ljósmyndara Fréttablaðsins, og birtist í frétt blaðsins um íþróttamannvirkið síðastliðið vor. Þá var áhorfendaaðstaðan ekki komin til landsins en hún ætti að vera kominn upp fyrir upphaf körfuknattleikstímabilsins í haust. Mynd: Örn Eyjólfsson, Fréttablaðið. Mynd: Örn Eyjólfsson, F

Nýtt íþróttahús í Njarðvík?

Íþróttahúsið í Njarðvík, Ljónagryfjan svokallaða, er elsta keppnishúsið sem er í notkun í Domino‘s deild karla í körfuknattleik. Húsið var tekið í notkun árið 1973 og stendur við grunnskóla Njarðvíkur. Ef mið er tekið af íþróttahúsum sem byggð hafa verið hérlendis á síðasta áratug eða eru í byggingu er ljóst að mannvirkið er allt of lítið; ekki er nægilegt rými umhverfis keppnisgólfið og þá er takmörkuð aðstaða fyrir áhorfendur. Húsið er einfaldlega of lítið fyrir starfsemi félagsins. Vitaskuld er Ljónagryfjan fallegt og skemmtilegt íþróttahús og er það eitt af djásnum íslensks körfubolta en því miður er það ekki boðlegt lengur sem heimavöllur eins sigursælasta körfuknattleiksfélags landsins. ,,Ljónagryfjan" í Njarðvík. Skjáskot: Ja.is. Mikil íbúafjölgun Árið 1973 voru íbúar Njarðvíkur 1.700 en í dag búa yfir 6.000 manns í Njarðvíkurhluta Reykjanesbæjar. Fjölgun íbúa í Njarðvík nemur því um 250% á tímabilinu og er ljóst að þörf er á aðgerðum af hálfu bæjaryfirvalda sem

Laugardalshöllin: gömul, eldri, elst

Þegar fjórar síðustu undankeppnir í EM í handbolta eru skoðaðar kemur í ljós að Laugardalshöll er langelsta íþróttahöllin sem er notuð að staðaldri í keppnisleikjum í Evrópu. Fjölnota íþróttahöll. Alls fóru fram 12 landsleikir í í Laugardalshöll í undankeppni EM á þessu tímabili, eða allir heimaleikir Íslands. Auk Laugardalshallarinnar fóru á þessu tímabili fram landsleikir í 12 öðrum íþróttahöllum sem reistar voru fyrir 1970. Engin þeirra hýsti jafnmarga leiki og Laugardalshöllin en þær hallir sem komust næst Laugardalshöllinni hýstu fjóra leiki á þessu tímabili, eða að meðaltali einn leik í hverri undankeppni. Þær hallir sem hýstu fjóra landsleiki voru Yunost Sports Palace (1967) í Chelyabinsk í Rússlandi, Dvorana Mirza Delibasic (1969) í Sarajevo í Bosníu og Minsk Sports Palace (1966) í Minsk í Hvíta-Rússlandi. Þessar þrjár íþróttahallir eru allar handan austantjaldsins en Ísland er eina Vestur-Evrópu þjóðin þar sem landsleikir í handknattleik eru leiknir að s