Á síðasta ári lauk ég námi í Skipulagsfræði og fjallaði lokaritgerð mín um staðarvalsgreiningu fyrir þjóðarleikvang innanhússþrótta á höfuðborgarsvæðinu. Ég skoðaði höfuðborgarsvæðið í þaula og skimaði eftir hentugum svæðum innan þéttbýlisins sem og á jaðrinum. Ég ákvað að einskorða verkefnið ekki við Laugardalinn og nærsvæði en þrátt fyrir það var niðurstaðan á þá leið að fýsilegast væri að reisa nýja og stór fjölnota íþróttahöll í eða í grennd við Laugardalinn, þar sem helstu íþróttamannvirki þjóðarinnar eru staðsett. Þar eru innviðir til staðar auk þess sem nálægðin við fyrirhugaða borgarlínu er mikilvæg.
Ég hef skrifað um suma staðarvalskostina á þessari síðu en í þessari færslu ætla ég að fjalla um þann staðarvalskost sem skoraði hæst í greiningunni. Hann var titlaður staðarvalskostur 3 - Engjavegur A, B og C. Innan þessa staðarvalskostar eru því þrjár útfærslur og mun ég fjalla um útfærslu Engjavegar A.
Útfærsla þessa staðarvalskostar afmarkast af Engjavegi til suðurs og lóðinni Engjavegi 7 þar sem félagshús íþróttafélagsins Þróttar er til húsa. Á lóðinni er knattspyrnuvöllur í fullri stærð (gervigrasvöllur), sem er aðalkeppnisvöllur Þróttar í knattspyrnu. Auk þess er áhorfendastúka á lóðinni, sunnan við völlinn.
Í þessari umfjöllun er gert ráð fyrir því að byggður yrði nýr gervigrasvöllur fyrir Þrótt, austan við Laugardalsvöll eða suðaustan við frjálsíþróttahöllina meðfram Suðurlandsbraut.
|
Staðsetning nýs þjóðarleikvangs við Engjaveg. Mannvirkið yrði einskonar miðja íþróttasvæðisins. |
Gott aðgengi er að svæðinu en Suðurlandsbraut liggur þar rétt sunnan við og eru stuttar vegalengdir í Kringlumýrarbraut og Sæbraut. Framtíðaráætlanir sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu gera ráð fyrir
nýju og afkastamiklu almenningssamgangnakerfi á höfuðborgarsvæðinu og er ráðgert að Suðurlandsbraut verði ein af meginlinum kerfisins. Telst það mikill kostur að íþróttasvæðið í Laugardal muni verða beintengt þessu kerfi. Erlendis telst þáttur samgangna mikilvægur í tengslum við staðarvalsgreiningar fyrir íþróttahallir eða leikvanga; að gott almenningssamgangnakerfi sé til og frá íþróttasvæðum.
|
Yfirlit yfir Laugardal, ný höll norðan við Laugardalshöll. |
Staðarvalskosturinn við Engjaveg er skilgreindur í gildandi aðalskipulagi sem íþróttasvæði (ÍÞ) þar sem íþróttafélagið Þróttur er með aðstöðu og höfuðstöðvar og er umliggjandi landnotkun íþróttatengd starfsemi, þ.e. svæði í tengslum við Laugardalsvöll; þjóðarleikvang Íslands í knattspyrnu og Laugardalshöll sem er helsta keppnishöll þjóðarinnar í innanhúsíþróttum. Þar er miðsvæði (S12) jafnframt skilgreint sem svæði fyrir stofnanir auk opinna grænna svæða.
|
Laugardalur er að mestu leyti skilgreint sem íþróttasvæði. |
Fýsileiki þessarar staðsetningar fyrir fjölnota íþróttahöll er mjög mikill. Staðsetningin er ákjósanleg enda er um að ræða lóð á helsta íþróttasvæði Íslendinga. Laugardalshöllin er staðsett nærri lóðinni og skapast því því möguleiki að samnýta mannvirkin í tilvikum alþjóðlegra keppna. Laugardalshöllin gæti þá nýst sem upphitunar- og æfingahús. Mannvirkið yrði einskonar miðja í Laugardalnum.
|
Ný fjölnota íþróttahöll við Engjaveg. |
Laugardalsvöllur er staðsettur rétt norðan við lóðina og eru þar fyrir hendi bílastæði sem hægt er að samnýta með nýrri fjölnota íþróttahöll. Í þessum valkosti er gert ráð fyrir að ný íþrótta rísi á þeim stað þar sem gervigrasvöllurinn í Laugardal er staðsettur. Völlurinn liggur um 4 metra neðar í landslaginu en Engjavegur sem liggur meðfram sunnanverðum vellinum. Þar skapast því möguleiki á að byggja bílastæðakjallara undir íþróttahöllinni eins og þekkist víða erlendis.
|
Ný íþróttahöll myndi liggja neðar í landslaginu en Laugardalshöll og ekki gnæfa yfir nálægða byggð. |
|
Auðvelt yrði að koma bílakjallara fyrir undir byggingunni. |
|
Horft yfir Laugardal í norðvestur. |
|
Horft yfir Laugardal í austur. |
Eins og áður kom fram eru þrjár útfærslur mögulegar meðfram Engjaveginum og í útfærslum B og C myndi gervigrasvöllurinn halda sér. Tekið skal fram að þetta var sett fram einungis sem lokaverkefni í Masterskúrs og á ekki stoð í raunveruleikanum. Þarna er heimavöllur Þróttar í knattspyrnu og ekki yrði ráðist í svona framkvæmdir fyrr en félaginu yrði úthlutað annað svæði undir heimavöll. Auk þess er í farvatninu að félagið í samvinnu við Ármann reisi nýtt íþróttahús vestan við gervigrasvöllinn.
Eitt helsta markmið mitt með þessum skrifum og vangaveltum er að stjórnvöld og aðrir tengdir aðilar innan borga og íþróttahreyfingarinnar sjái að við núverandi ástand verði ekki unað. Þörf á nýjum þjóðarleikvangi fyrir innanhúsíþróttir er mikil og skýr og er tími til kominn að allir hagsmunaaðilar komi sér saman um að koma ferli um nýtt mannvirki af stað. Sem fyrst.
Ummæli
Skrifa ummæli