Framkvæmdir hófust í síðasta mánuði við byggingu nýs
þjóðarleikvangs fyrir innanhúsíþróttir í Moldóvu. Um er að ræða stóra fjölnota
íþróttahöll sem mun rísa í útjaðri höfuðborgar landsins, Chisinau, og er áætlað
að hún hýsi 5.000 áhorfendur í sæti.
Íþróttahöllin hefur verið nefnd Chisinau Arena en auk hennar
munu önnur íþróttamannvirki rísa á þessu 10 hektara svæði. Ætlunin er að svæðið
verði heimsklassa íþróttasvæði.
Kostnaðaráætlun fyrir byggingu hallarinnar gerir ráð fyrir
fjárfestingu upp á rúma 6 milljarða króna. Moldóvska ríkið mun sjá alfarið um fjármögnun
íþróttahallarinnar í formi raðgreiðslna til tyrkneska byggingafyrirtækisins
Summa sem mun annast framkvæmdirnar og kosta verkefnið ásamt SAM
Investment Company.
Um er að ræða svokallaða sammvinuleið hins opinbera og
einkaaðila (e. private-public partnership).
Hið opinbera mun reiða fyrstu greiðsluna af hendi þegar 10%
af uppbyggingu hallarinnar er lokið en samkvæmt opinberu samkomlagi mun moldóvska ríkið greiða
framkvæmdirnar að fullu 12 árum eftir að byggingu hallarinnar er lokið.
Moldóva er enn ein Evrópuþjóðin sem ákveðið hefur að reisa nýjan þjóðarleikvang fyrir innanhúsíþróttir til að mæta nútímakröfum og reglugerðum í tengslum við fjölnota íþróttahallir. Ísland er eitt örfárra Evrópulanda sem sýnir byggingu nýrrar þjóðarhallar lítinn sem engan áhuga.
Sem stendur er Laugardalshöll ein elsta keppnishöllin sem notuð er að staðaldri í alþjóðlegum keppnisleikjum í Evrópu auk þess sem hún rúmar mun færri áhorfendur en áður vegna strangari reglugerða um öryggi í keppnishöllum.
Hér að neðan er líkan af fyrirhugaðri íþróttahöll í Moldóvu og hvernig umhorfs verður þar inni.
Ummæli
Skrifa ummæli