Stjórnvöld í Lúxemborg hafa eytt 17,5 milljörðum króna í
uppbyggingu þjóðarleikvanga frá árinu 2002. 9,7 milljarðar fóru í byggingu hins
gríðarstóra d’Coque íþróttamannvirkis sem hýsir m.a. þjóðarleikvang
innanhúsíþrótta og stærstu innisundlaug Lúxemborgar. Byggingarframkvæmdum þar lauk
árið 2002.
7,8 milljarðar hafa farið í byggingu nýs þjóðarleikvangs í
knattspyrnu sem verður tekinn á notkun árið 2019.
Í dag kynnti ríkistjórnin síðan uppbyggingaráform stórrar
hjólreiðahallar (velodrome) upp á 8,4 milljarða í útjaðri höfuðborgarinnar. Um er að ræða mannvirki sem verður skilgreint sem þjóðarleikvangur fyrir
hjólreiðaíþróttir og mun menntamálaráðuneytið og íþróttamálaráðuneytið skipta fjármögnunni á milli sín. Uppbygging hallarinnar á að fara fram tímabilið 2020 – 2023.
Það þýðir að árið 2023 munu stjórnvöld í Lúxemborg hafa eytt
26 milljörðum króna í uppbyggingu á hinum ýmsu þjóðarleikvöngum á um 20 ára
tímabili. Íslensk stjórnvöld hafa á sama tíma fjárfest brotabroti af þessari upphæð í uppbyggingu þjóðarleikvanga hérlendis.
En hvers vegna er Lúxemborg, þetta smáríki með um 600 þúsund íbúa, að
fjárfesta svona mikið í innviðum tengdum íþróttum? Hefur árangur
knattspyrnulandsliðsins verið að batna á undanförnum árum. Hefur
knattspyrnulandsliðið náð að komast inn á síðustu tvö stórmót? Hefur
körfuboltalandsliðið náð að tryggja sig inn á EuroBasket? Hefur
handboltalandsliðið unnið til verðlauna á stórmótum á síðustu 10 árum? Svarið
er nei. Ef þessum spurningum væri beint að öðru smáríki, væri svarið já. Við
öllum spurningum. Ég er að tala um Ísland.
Margir spyrja sig eflaust hvers vegna í ósköpunum Lúxemborg
sé að undirbúa byggingu hjólreiðahallar upp á 8,4 milljarða. Svarið er einfalt.
Það má líkja gildi hjólreiða í Lúxemborg við gildi handknattleiks hérlendis og
eru þessar tvær íþróttagreinar óopinberar þjóðaríþróttir þessara tveggja þjóða.
Stjórnvöld í Lúxemborg vilja gera vel við þjóðaríþróttina. Íslendingar taki eftir.
Afreksíþróttafólk í hjólreiðaíþróttum í Lúxemborg eru stolt
þjóðarinnar og hafa hjólreiðamenn frá Lúxemborg m.a. unnið virtustu og
veigamestu hjólreiðakeppni heims, Tour de France, í fimm skipti og er Lúxemborg
í fimmta sæti yfir sigursælustu þjóðir keppninnar frá upphafi.
Stjórnvöld í Lúxemborg gera sér auðvitað grein fyrir mikilvægi
þessarar íþróttagreinar meðal landsmanna og hafa nú ákveðið að reisa
framúrskarandi mannvirki sem gerir hjólreiðafólki kleift að æfa og keppa við
bestu aðstæður. Það á að ekkert að stíga á bremsuna, það á að gera afreksfólkið betra.
Hérlendis er handboltinn óopinber þjóðaríþrótt okkar
Íslendinga og árangur karlalandsliðsins í körfubolta hefur batnað gríðarlega á
undanförnum árum. En hvar er fjárfestingin í bættri aðstöðu og bættum innviðum hjá þessum innanhúsíþróttagreinum? Ég spyr.
Lúxemborg ætlar að fjárfesta 8,4 milljörðum í þjóðarleikvang
fyrir hjólreiðar en hver er framkvæmdavilji íslenskra stjórnvalda í garð innanhússíþróttagreina?
Vissulega er komin hreyfing á mál Laugardalsvallar en betur
má ef duga skal.
Við þurfum ekki að horfa lengra en til Lúxemborgar til að
sjá að smáríki geta fjárfest duglega í íþróttatengdum innviðum.
Nýr þjóðarleikvangur fyrir hjólreiðaíþróttir í Lúxemborg. Mynd: Mecanoo Architecten. |
Nýr þjóðarleikvangur í knattspyrnu. Mynd: FLF. |
D'Coque, þar sem þjóðarleikvangur innanhússíþrótta er m.a. til húsa. Mynd: FLTT. |
Ummæli
Skrifa ummæli