Fara í aðalinnihald

Að lýsa upp myrkasta janúarskammdegið

Hvaða þýðingu skyldi janúarmánuður hafa í hugum flestra Íslendinga? Desemberþynnka kannski og svo auðvitað sú vitneskja að leikir með íslenska handknattleikslandsliðinu á stórmóti muni lýsa upp myrkasta skammdegið og hressa upp á sálartetrið.
Hver man ekki eftir þeirri ömurlegu ónotatilfinningu einn dag í júní 2014 þegar við töpuðum fyrir Bosníu í umspili um sæti á heimsmeistaramótinu í Katar 2015. Sú staðreynd að hinn allra heilagasti janúarmánuður myndi ganga í garð án strákanna okkar var í meira lagi súr á bragðið. Sem betur komumst við bakdyramegin inn á mótið og janúar reddaðist nokkurn veginn fyrir horn. 
En væri ekki skemmtilegra að vera á staðnum og sjá landsliðið spila í eigin persónu á heimavelli? Það verður raunhæfur möguleiki þegar ný fjölnota íþróttahöll með sæti fyrir 6 – 8.000 manns hefur risið í Laugardalnum.
Áður en lengra er haldið er best að taka fram að ég er ekki að tala fyrir því að hér eigi að halda Heims- eða Evrópumeistaramót í allri sinni dýrð með 24 keppnisþjóðum og fjölda keppnisstaða líkt og raunin var hér á landi árið 1995.
Nei, það mun aldrei ganga upp í dag. Þess í stað myndum við hýsa einn af riðlunum á EM eða á HM. Í tifelli HM yrði um að ræða sex þjóða riðil en fjögurra þjóða riðil í tilfelli EM, eins og snið þessara móta eru í dag. Leikirnir yrðu því fimm á HM, spilaðir á sjö dögum, og þrír á EM, spilaðir á fjórum dögum. Stanslaust partí.
Samkvæmt reglugerðum EHF um stærð keppnishalla í lokakeppni Evrópumóts karla þurfa hallir sem hýsa leiki í riðlakeppninni að rúma að minnsta kosti 5.000 áhorfendur.
Samkvæmt reglugerðum IFH um stærð keppnishalla í lokakeppni Heimsmeistaramóts þurfa keppnishallir að rúma að minnsta kosti 4 – 6.000 áhorfendur í sæti í riðlakeppninni.
Að lokinni riðlakeppninni þyrfti gamanið ekki endilega að taka enda því það er einnig raunæfur möguleiki á að hýsa annan milliriðlanna í lokakeppnum EM. Þar gera kröfur ráð fyrir að hallirnar séu að minnsta kosti með 8.000 sæti.
Eftir riðlakeppni í HM eru 16 liða úrslit á dagskrá og gera kröfur IHF ráð fyrir því að keppnishallirnar rúmi þá að minnsta kosti 6 – 8.000 áhorfendur. Þegar komið er í 8 liða úrslit er ætlast til þess að hallirnar séu að minnsta kosti með 8 – 10.000 sæti.
Þessi upptalning sýnir að vel væri hægt að hýsa riðil á stórmóti í handbolta hérlendis. Jafnvel milliriðil og jafnvel leik í 16 og 8 liða úrslitum. Ef ný þjóðarhöll á Íslandi mun rúma að minnsta kosti 6.000 áhorfendur er ljóst að hún yrði gjaldgeng fyrir riðlakeppni á EM og HM, milliriðil á EM og 16 liða úrslit á HM.
En eru stórmót sem eru haldin sameiginlega af nokkrum þjóðum fýsilegur möguleiki? Já. Slík mótssnið hafa aukist mjög á síðustu árum á alþjóðlega sviðinu í fótbolta, körfubolta og handbolta. Tökum sem dæmi í handboltanum:
Næsta Evrópumót (EM2020) mun fara fram í þremur löndum, þ.e. Austurríki, Noregi og Svíþjóð.
Leikir í riðlakeppni EM202 munu fara fram í þessari íþróttahöll í Þrándheimi. Tölvuteiknuð mynd: Link Arkitektur.
Árið 2022 mun Evrópumótið fara fram í Slóvakíu og Ungverjalandi en þess má geta að Frakkland, Spánn og Belgía sóttust einnig eftir því að halda mótið sameiginlega auk þess sem Danmörk og Sviss sóttust einnig eftir því að halda mótið sameiginlega.
Næsta Heimsmeistaramót, sem mun fara fram á næsta ári, mun fara fram í tveimur löndum, þ.e. Danmörku og Þýskalandi.
HM2023 mun fara fram í Póllandi og Svíþjóð.
Með þetta í huga er ljóst að það er fýsilegt fyrir Íslendinga að halda stórmót sameiginlega með til að mynda hinum Norðurlandaþjóðunum.
En hvað með vegalengdirnar? Er Ísland ekki einfaldlega of langt í burtu frá öðrum löndum til að geta haldið sameiginleg stórmót. Svarið er nei. Það er vel gerlegt að Ísland haldi stórmót í samvinnu við Noreg, Danmörku eða Svíþjóð.
Til að mynda eru 1.874 km á milli keppnishallarinnar í Þrándheimi í Noregi og keppnishallarinnar í Graz í Austurríki sem munu hýsa leiki í riðlakeppni EM2020. Til samanburðar eru 1.569 km á milli keppnishallarinnar í Þrándheimi og Laugardalshallarinnar (sjá neðangreindar myndir)
Allt er gerlegt í þessum heimi og ef við Íslendingar viljum enn vera vel gildandi innan handboltasamfélagsins á komandi áratugum er þörf á nýrri og stórri keppnishöll hérlendis. Keppnishöll sem getur hýst hluta stórmóta í framtíðinni.
Mynd: Google Earth.

Mynd: Google Earth.

Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Nýtt íþróttahús í Njarðvík?

Íþróttahúsið í Njarðvík, Ljónagryfjan svokallaða, er elsta keppnishúsið sem er í notkun í Domino‘s deild karla í körfuknattleik. Húsið var tekið í notkun árið 1973 og stendur við grunnskóla Njarðvíkur. Ef mið er tekið af íþróttahúsum sem byggð hafa verið hérlendis á síðasta áratug eða eru í byggingu er ljóst að mannvirkið er allt of lítið; ekki er nægilegt rými umhverfis keppnisgólfið og þá er takmörkuð aðstaða fyrir áhorfendur. Húsið er einfaldlega of lítið fyrir starfsemi félagsins. Vitaskuld er Ljónagryfjan fallegt og skemmtilegt íþróttahús og er það eitt af djásnum íslensks körfubolta en því miður er það ekki boðlegt lengur sem heimavöllur eins sigursælasta körfuknattleiksfélags landsins. ,,Ljónagryfjan" í Njarðvík. Skjáskot: Ja.is. Mikil íbúafjölgun Árið 1973 voru íbúar Njarðvíkur 1.700 en í dag búa yfir 6.000 manns í Njarðvíkurhluta Reykjanesbæjar. Fjölgun íbúa í Njarðvík nemur því um 250% á tímabilinu og er ljóst að þörf er á aðgerðum af hálfu bæjaryfirvalda sem

Nýtt körfuboltahús Hauka, Ólafssalur

Körfuknattleikslið Hauka mun spila á nýjum heimavelli á komandi leiktíð Domino's deildar karla og kvenna. Um er að ræða sérhæft körfuknattleikshús sem mun nær eingöngu þjónusta körfuknattleiksdeild Hauka. Um er að ræða einstakt hús á íslenska vísu og verður fróðlegt að fylgjast með því hvort önnur félög fylgi í kjölfarið. Keppnissalurinn er sérhannaður fyrir körfubolta og stúkan mun rúma 1100 manns en samkvæmt fréttum geta allt að 2.000 manns komist fyrir með því að raða fólki þétt á svölunum. Engin hefðbundin leikklukka verður í húsinu heldur verður stöðu, tíma og stigaskori varpað upp á LED skjái í sitthvorum enda vallarins. Meðfylgjandi myndir voru teknar af Erni Eyjólfssyni, ljósmyndara Fréttablaðsins, og birtist í frétt blaðsins um íþróttamannvirkið síðastliðið vor. Þá var áhorfendaaðstaðan ekki komin til landsins en hún ætti að vera kominn upp fyrir upphaf körfuknattleikstímabilsins í haust. Mynd: Örn Eyjólfsson, Fréttablaðið. Mynd: Örn Eyjólfsson, F

Landsliðsmenn um Laugardalshöll árið 1994: ,,á engan hátt samboðin þeirri reisn sem við viljum að íslenskur handknattleikur standi fyrir."

Íslenskir handboltalandsliðsmenn töldu sig illa svikna þegar ljóst var að ný keppnishöll myndi ekki rísa fyrir HM 95. Að þeirra mati var Laugardalshöllin úrelt bygging og engan veginn í stakk búin til að hýsa stórleiki á heimsmeistaramóti sem og aðra leiki að því loknu. Auðvitað var þessi höll þeim öllum kær en að þeirra mati áttu tilfinningar ekki að ráða för í þessu máli. Í júlí 1994, rúmum tíu mánuðum fyrir setningu heimsmeistaramótsins, sendu landsliðsmennirnir aðsenda grein í Morgunblaðið undir yfirskriftinni ,,Við gerum okkar besta - en ..." þar sem framtaksleysi stjórnvalda var harðlega gagnrýnt. ,,V ið höfum allir átt ógleymanlegar stundir í Laugardalshöllinni og margir af stærstu sigrum íslenska landsliðsins hafa einmitt verið þar. Hins vegar verður að viðurkennast að þessi 30 ára gamla bygging er barn síns tíma og á engan hátt samboðin þeirri reisn sem við viljum að íslenskur handknattleikur standi fyrir ," stóð m.a. í greininni. ,,Þ að er hins vegar alveg lj