Fara í aðalinnihald

Hvernig á aðbúnaður landsliða sem eru tíðir gestir á lokamótum að vera í sínu heimalandi?

Við Íslendingar erum mikil íþróttaþjóð. Það hefur árangur síðustu 10 ára í hinum ýmsu íþróttagreinum staðfest svo rækilega.

Ef við einblínum á stærstu og vinsælustu innanhússíþróttagreinarnar hérlendis, þ.e. hand- og körfubolta, og berum árangur landsliða okkar í þeim greinum við aðrar Evrópuþjóðir kemur margt í ljós.

Við skulum skoða hvaða Evrópuþjóðir unnu sér þátttökurétt á síðustu tvær lokakeppnir EM og HM í handbolta og síðustu tvær lokakeppnir EuroBasket í körfubolta.

Til að gera langa sögu stutta er Ísland í einvala hópi sjö þjóða, sem allar teljast stórþjóðir í íþróttum. Þessar þjóðir eru Þýskaland, Spánn, Frakkland, Króatía, Pólland og Slóvenía auk Íslands.

Laugardalshöll. Mynd: Art Bicnick.
Það er reyndar ótrúlegt að okkar fámenna þjóð skuli vera á meðal þessara risa og því mætti halda að stjórnvöld myndu leggja mikla áherslu á að hafa aðbúnað við æfingar og keppni hérlendis sem bestan. Svo er ekki því miður.

Með réttu hefðu ráðamenn átt að setjast niður með HSÍ í kjölfar silfurverðlaunanna á Ólympíuleikunum í Peking 2008 og ræða byggingu nýrrar keppnishallar. Nýs þjóðarleikvangs innanhússíþrótta. En kreppan skall á um það leyti og allt hrökk í baklás.

En árin liðu og bronsverðlaun urðu raunin hjá handboltalandsliðinu á EM í Austurríki 2010. Síðan hefur landsliðið verið þátttakandi á hverju stórmótinu á fætur öðru.

Þá hefur körfuboltalandsliðið bitið hressilega frá sér með því að vinna sér þátttökurétt á tveimur síðustu lokamótum EuroBasket. Það að svona lítil þjóð vinni sér þátttökurétt í þeirri keppni er stórkostlegt afrek.

Það er mín skoðun að aðbúnaður þessa landsliða sé fyrir neðan allar hellur í dag og samræmist ekki þeim árangri sem þau hafa náð á undanförnum árum. Þessi landslið eiga skilið keppnishöll þar sem hægt er að stunda æfingar og keppni í friði.

Staðan í dag er þannig að forráðamenn HSÍ og KKÍ þurfa að leita á náðir íþróttafélaga og sveitarfélaga til að fá inni í íþróttahúsum í aðdraganda mikilvægra keppnisleikja.

Af þessum sjö þjóðum sem hafa verið tíðir gestir á áðurnefndum lokamótum er aðbúnaðurinn slakastur hérlendis. Þessu þarf að breyta.

Þjóð (vígsluár þjóðarhalla):
Pólland (2014)
Slóvenía (2010)
Króatía (2008)
Spánn (2002)
Þýskaland (1998)
Frakkland (1984)
Ísland (1965)

Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Nýtt íþróttahús í Njarðvík?

Íþróttahúsið í Njarðvík, Ljónagryfjan svokallaða, er elsta keppnishúsið sem er í notkun í Domino‘s deild karla í körfuknattleik. Húsið var tekið í notkun árið 1973 og stendur við grunnskóla Njarðvíkur. Ef mið er tekið af íþróttahúsum sem byggð hafa verið hérlendis á síðasta áratug eða eru í byggingu er ljóst að mannvirkið er allt of lítið; ekki er nægilegt rými umhverfis keppnisgólfið og þá er takmörkuð aðstaða fyrir áhorfendur. Húsið er einfaldlega of lítið fyrir starfsemi félagsins. Vitaskuld er Ljónagryfjan fallegt og skemmtilegt íþróttahús og er það eitt af djásnum íslensks körfubolta en því miður er það ekki boðlegt lengur sem heimavöllur eins sigursælasta körfuknattleiksfélags landsins. ,,Ljónagryfjan" í Njarðvík. Skjáskot: Ja.is. Mikil íbúafjölgun Árið 1973 voru íbúar Njarðvíkur 1.700 en í dag búa yfir 6.000 manns í Njarðvíkurhluta Reykjanesbæjar. Fjölgun íbúa í Njarðvík nemur því um 250% á tímabilinu og er ljóst að þörf er á aðgerðum af hálfu bæjaryfirvalda sem ...

Nýtt körfuboltahús Hauka, Ólafssalur

Körfuknattleikslið Hauka mun spila á nýjum heimavelli á komandi leiktíð Domino's deildar karla og kvenna. Um er að ræða sérhæft körfuknattleikshús sem mun nær eingöngu þjónusta körfuknattleiksdeild Hauka. Um er að ræða einstakt hús á íslenska vísu og verður fróðlegt að fylgjast með því hvort önnur félög fylgi í kjölfarið. Keppnissalurinn er sérhannaður fyrir körfubolta og stúkan mun rúma 1100 manns en samkvæmt fréttum geta allt að 2.000 manns komist fyrir með því að raða fólki þétt á svölunum. Engin hefðbundin leikklukka verður í húsinu heldur verður stöðu, tíma og stigaskori varpað upp á LED skjái í sitthvorum enda vallarins. Meðfylgjandi myndir voru teknar af Erni Eyjólfssyni, ljósmyndara Fréttablaðsins, og birtist í frétt blaðsins um íþróttamannvirkið síðastliðið vor. Þá var áhorfendaaðstaðan ekki komin til landsins en hún ætti að vera kominn upp fyrir upphaf körfuknattleikstímabilsins í haust. Mynd: Örn Eyjólfsson, Fréttablaðið. Mynd: Örn Eyjólfsson, F...

Kristianstad Arena í Svíþjóð

Svíar eru leiðandi afl í uppbyggingu íþróttamannvirkja á Norðurlöndum og í Kristianstad þar sem búa um 40.000 þúsund manns er að finna gríðarlega vandaða fjölnota íþróttahöll. Höllin sem um ræðir ber heitið Kristianstad Arena og var tekin í notkun árið 2010. Hún tekur 4.700 áhorfendur í sæti og var ein af keppnishöllunum á HM í handbolta í Svíþjóð 2011. Byggingarkostnaður hallarinnar nam um 4,5 milljörðum íslenskra króna á núvirði og var fjármögnunin alfarið í höndum sveitarfélagsins Kristianstad. Þó svo að höllin taki einungis 4.700 manns í sæti er hönnunin slík að svo virðist sem hún rúmi mun fleiri áhorfendur. Þetta er gríðarlega skemmtilegt og metnaðarfullt mannvirki sem 40.000 manna bær getur verið stoltur af. Þess má geta að höllin er heimavöllur IFK Kristianstad, þar sem Ólafur Andrés Guðmundsson, handknattleikskappi, hefur gert garðinn frægan á undanförnum árum.   Skjáskot: Google Earth. Mynd: Petter Arvidson/Bildbyrån.