EHF hefur ákveðið að fella úr gildi undanþágu sem gerði
Færeyjingum kleift að spila alþjóðlega keppnisleiki í íþróttahöllinni á Hálsi í
Þórshöfn.
Um er að ræða stærstu íþróttahöll fyrir innanhúsíþróttir í
Færeyjum en ákveðið hefur verið að fyrsti heimaleikur Færeyja í undankeppni EM
2020 verði 27. eða 28. október í Skjern í Danmörku. Og hverjir verða
andstæðingarnir? Jú, Danir.
Samkvæmt frétt sem birtist á Handball-Planet í dag uppfyllir Höllin á hálsi ekki lágmarkskröfur er varðar áhorfendafjölda en hægt er að rúma 1.800 manns þar í sæti. EHF gerir kröfur um að lágmarkssætafjöldi í keppnishöllum sé 2.000 sæti en þess má geta að Laugardalshöllin tekur 2.300 manns í sæti.
Höllin á Hálsi. Mynd: In.fo. |
Samkvæmt fréttinni uppfyllti Höllin á Hálsi ekki aðra
sérgreindra kröfustaðla en gera má ráð fyrir því að þeir lúti að rýmingu
mannvirkisins í tilfelli elds. Auk þess virðist sem að of þröngt sé á milli
keppnisrýmis og áhorfendarýmis.
Laugardalshöllin næst?
Laugardalshöllin er á svipaðri undanþágu og því ljóst að
þessar fréttir vekja ugg hjá forráðamönnum HSÍ en eins og ég greindi frá á
þessari síðu fyrir stuttu getur EHF fellt undanþágu Laugardalshallarinnar
úr gildi með einu símtali.
Í reglugerð EHF kemur fram að reglulega skuli sýnt fram á að skilyrðum undanþágunnar sé fylgt eftir með staðfestingu af hálfu sambandsins. Þar kemur skýrt fram að EHF getur afturkallað undanþágur hvenær sem er. Það er ótrúlegt að íslenska handknattleikssambandið þurfi að búa við slíkar aðstæður. Það er raunar óásættanlegt.
Það er líka ótrúlegt að Ísland er eina þjóðin sem er reglulegur þátttakandi á Evrópumótum í handknattleik karla sem á ekki þjóðarhöll í fyrsta gæðaflokki. Þess í stað spilar landsliðið heimaleiki í lítilli 53 ára gamalli höll, sem stenst ekki nútíma kröfur og staðla.
Svo virðist sem að stefna EHF í þessum efnum sé að verða strangari og að þjóðir með keppnishallir á undanþágum þurfi að fara að taka þessi mál alvarlega.
Ég hef heyrt orðróm þess efnis að stefnt sé að því að keppnishallir þurfi að rúma að minnsta kosti 3.000 áhorfendur á alþjóðlegum keppnisleikjum í framtíðinni. Það myndi þýða endalok Laugardalshallarinnar.
Færeyjingum hefur verið settur stóllinn fyrir dyrnar. Er HSÍ
næst?
Ummæli
Skrifa ummæli