Fara í aðalinnihald

,,Svona lið þarf bætta aðstöðu"

Árið 1961 náði íslenska landsliðið í handknattleik þeim merka áfanga að ljúka keppni í sjötta sæti heimsmeistaramótsins sem fram fór í Vestur-Þýskalandi. Þessi árangur náðist þrátt fyrir að hér á landi væri mjög takmörkuð aðstaða til að stunda handknattleik á löglegum keppnisvöllum. Íslandsmótið fór fram í íþróttahúsinu Hálogalandi og var aðstaðan þar bágborin. Hérlendis vantaði fullstóran völl með rúmri áhorfendaaðstöðu.

Laugaralshöllin reis fimm árum síðar, árið 1965; mannvirki sem gjörbylti allri aðstöðu þess tíma. Því miður, núna hálfri öld síðar, er ljóst að höllin stenst ekki nútímakröfur og þörf er á nýju mannvirki til að bæta æfinga- og keppnisaðstöðu landsliðanna í hand- og körfuknattleik.

Hverfum 57 ár aftur í tímann og vitnum í Ásbjörn Sigurðsson, þáverandi formann HSÍ. Hann lét gamminn geysa áður en lagt var af stað í heimsmeistarakeppnina í Vestur-Þýskalandi og sagði í gamni: ,,Við förum út, komumst í lokakeppnina og þegar við komum heim, þá verður búið að byggja fyrir okkur nýja glæsilega íþróttahöll með fullstórum handknattleikssal og rúmgóðu áhorfendasvæði.”

Það sorglega við þetta er að hægt er að yfirfæra þessi orð Ásbjörns til dagsins í dag. Segjum að Guðmundur B. Ólafsson, formaður HSÍ, láti hafa eftir sér áður en lagt verður af stað í lokakeppni HM í Danmörku og Þýskalandi í byrjun næsta árs. ,,Við förum út, komumst í milliriðil og þegar við komum heim, þá verður búið að byggja fyrir okkur nýja glæsilega íþróttahöll með löglegu keppnisrými og rúmgóðu áhorfendasvæði.”


Ennfremur segir í frétt Morgunblaðsins árið 1961 sem bar yfirskriftina ,,Svona lið þarf bætta aðstöðu" að handboltahetjurnar sem náðu þeim frábæra árangri að enda í sjötta sæti ættu svo sannarlega skilið betri aðstöðu í öllu sem viðkemur iðkun íþróttarinnar.

,,Og ættu piltarnir sem gert hafa ísl. íþróttir frægar á skammri stund í Þýskalandi það ekki skilið að fá sómasamlegar aðstæður til æfinga og keppni. Þeir hafa sannarlega sýnt með afrekum sínum að ekki má lengur dragast að skapa viðunandi aðstæður hér á landi fyrir þessa grein, sem hæst ber afrekslega hjá okkar þjóð.

Þarna stóð að landsliðinu vantaði sómasamlega aðstöðu til æfinga. Hvernig er staðan í dag? Jú, hún er bágborin og til skammar. Landsliðin í hand- og körfuknattleik þurfa að ganga á milli íþróttafélaga í Reykjavík og betla um æfingatíma fyrir mikilvæga landsleiki. Ekki er hægt að æfa í Laugardalshöllinni því hún er bókuð undir önnur verkefni. Okkar helsta keppnishöll úthýsir í raun hand- og körfuboltalandsliðunum þegar gríðarlega mikið er undir. Ófyrirgefanlegt.

Ég læt hér fylgja lokaorð greinarinnar úr Morgunblaðinu frá 1961 og hugsa til silfurdrengjanna frá Peking 2008. Ekki fengu þeir að spila á nýjum og glæsilegum heimavelli eftir stórkostlegt afrek. Við skulum vona að nýjar hetjur á borð við Gísla Þorgeir Kristjánsson, Hauk Þrastarson og Martin Hermannsson fái að sýna listir sínar í nýrri höll áður en langt um líður.

 ,,Vart er um annað talað hér heima en góða frammistöðu þessa liðs og er það að vonum. En gleymum henni bara ekki strax aftur. Svona lið þarf bætta aðstöðu og það helst áður en þessir liðsmenn eru hættir keppni og orðnir gamlir menn.”

Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Nýtt íþróttahús í Njarðvík?

Íþróttahúsið í Njarðvík, Ljónagryfjan svokallaða, er elsta keppnishúsið sem er í notkun í Domino‘s deild karla í körfuknattleik. Húsið var tekið í notkun árið 1973 og stendur við grunnskóla Njarðvíkur. Ef mið er tekið af íþróttahúsum sem byggð hafa verið hérlendis á síðasta áratug eða eru í byggingu er ljóst að mannvirkið er allt of lítið; ekki er nægilegt rými umhverfis keppnisgólfið og þá er takmörkuð aðstaða fyrir áhorfendur. Húsið er einfaldlega of lítið fyrir starfsemi félagsins. Vitaskuld er Ljónagryfjan fallegt og skemmtilegt íþróttahús og er það eitt af djásnum íslensks körfubolta en því miður er það ekki boðlegt lengur sem heimavöllur eins sigursælasta körfuknattleiksfélags landsins. ,,Ljónagryfjan" í Njarðvík. Skjáskot: Ja.is. Mikil íbúafjölgun Árið 1973 voru íbúar Njarðvíkur 1.700 en í dag búa yfir 6.000 manns í Njarðvíkurhluta Reykjanesbæjar. Fjölgun íbúa í Njarðvík nemur því um 250% á tímabilinu og er ljóst að þörf er á aðgerðum af hálfu bæjaryfirvalda sem ...

Nýtt körfuboltahús Hauka, Ólafssalur

Körfuknattleikslið Hauka mun spila á nýjum heimavelli á komandi leiktíð Domino's deildar karla og kvenna. Um er að ræða sérhæft körfuknattleikshús sem mun nær eingöngu þjónusta körfuknattleiksdeild Hauka. Um er að ræða einstakt hús á íslenska vísu og verður fróðlegt að fylgjast með því hvort önnur félög fylgi í kjölfarið. Keppnissalurinn er sérhannaður fyrir körfubolta og stúkan mun rúma 1100 manns en samkvæmt fréttum geta allt að 2.000 manns komist fyrir með því að raða fólki þétt á svölunum. Engin hefðbundin leikklukka verður í húsinu heldur verður stöðu, tíma og stigaskori varpað upp á LED skjái í sitthvorum enda vallarins. Meðfylgjandi myndir voru teknar af Erni Eyjólfssyni, ljósmyndara Fréttablaðsins, og birtist í frétt blaðsins um íþróttamannvirkið síðastliðið vor. Þá var áhorfendaaðstaðan ekki komin til landsins en hún ætti að vera kominn upp fyrir upphaf körfuknattleikstímabilsins í haust. Mynd: Örn Eyjólfsson, Fréttablaðið. Mynd: Örn Eyjólfsson, F...

Kristianstad Arena í Svíþjóð

Svíar eru leiðandi afl í uppbyggingu íþróttamannvirkja á Norðurlöndum og í Kristianstad þar sem búa um 40.000 þúsund manns er að finna gríðarlega vandaða fjölnota íþróttahöll. Höllin sem um ræðir ber heitið Kristianstad Arena og var tekin í notkun árið 2010. Hún tekur 4.700 áhorfendur í sæti og var ein af keppnishöllunum á HM í handbolta í Svíþjóð 2011. Byggingarkostnaður hallarinnar nam um 4,5 milljörðum íslenskra króna á núvirði og var fjármögnunin alfarið í höndum sveitarfélagsins Kristianstad. Þó svo að höllin taki einungis 4.700 manns í sæti er hönnunin slík að svo virðist sem hún rúmi mun fleiri áhorfendur. Þetta er gríðarlega skemmtilegt og metnaðarfullt mannvirki sem 40.000 manna bær getur verið stoltur af. Þess má geta að höllin er heimavöllur IFK Kristianstad, þar sem Ólafur Andrés Guðmundsson, handknattleikskappi, hefur gert garðinn frægan á undanförnum árum.   Skjáskot: Google Earth. Mynd: Petter Arvidson/Bildbyrån.