Árið 2003 reis fjölnota íþróttahöll í Celje í Slóveníu sem
enn í dag þykir eitt best heppnaða innanhúsíþróttamannvirki í Evrópu. Ástæðan
er sú að byggingarkostnaður var lágur auk þess sem hönnun og skipulag
byggingarinnar þykir framúrskarandi. Helsti kosturinn er þó sú gríðarlega
stemning og sá mikli hávaði sem myndast í höllinni, gestaliðum til mikils ama.
Margir hafa haft á orði að þessi íþróttahöll sé of vel heppnuð.
Íþróttahöllin ber nafnið Zlatorog Arena og þótti mörgum
skrítið að höll með 5.500 sæti skildi rísa í Celje þar sem íbúafjöldinn er um
40 þúsund manns. Það væri líkt og að á höfuðborgarsvæðinu yrði byggð ný
íþróttahöll með 25 – 30.000 sæti en nóg um það.
Lítill vandi hefur reynst að reka mannvirkið.
Hér að neðan eru þrjár ljósmyndir af Zlatorog Arena:
Strax eftir byggingu mannvirkisins fór hróður þess að
berast um álfuna og svo fór að þegar borgaryfirvöld í Veszprém í Ungverjalandi
ákváðu að reisa nýja fjölnota íþróttahöll skildi Zlatorog Arena höfð sem
fyrirmynd.
Afraksturinn var gríðarlega vel heppnuð eftirlíking og var
Veszprém Arena vígð í júlí 2008 og nam kostnaðurinn við byggingu hallarinnar um
tveimur milljörðum íslenskra króna.
Höllin þjónustar öllum þörfum innanhúsíþrótta í Veszprém
auk þess sem hún er heimavöllur handboltarisans MBK Veszprém og þykir fátt
jafnast á við stemninguna sem myndast þar á stórleikjum í handbolta. Hún tekur
5.096 áhorfendur í sæti og fékk handboltasnillingurinn Aron Pálmarsson að
kynnast stemningunni þar inni en hann lék með MBK Veszprém um nokkurra ára bil.
Hér fyrir neðan eru tvær ljósmyndir af Veszprém Arena:
Íbúafjöldinn í Veszprém er um 60 þúsund manns eða litlu
fleiri en íbúafjöldinn í Celje.
Saga þessara gríðarlega vel heppnuðu mannvirkja er þó ekki
öll sögð enn því borgaryfirvöld í Kielce í Póllandi horfa nú til þessarra
tveggja íþróttahalla sem fyrirmyndir nýrrar fjölnota íþróttahallar sem ráðgert
er að rísi í borginni.
Nýja íþróttahöllin mun leysa hina 12 ára gömlu Hala
Legionów af hólmi en þarfagreiningu við byggingu hennar virðist hafa verið mjög
ábótavant því komið hefur á daginn að hún annar ekki að þjónusta innanhúsíþróttir
í Kielce sem skildi.
Auk þess er hún heimavöllur pólska stórliðsins Vive Tauron
Kielce og þykja 4.200 sæti of fá þegar stórleikir í Meistaradeildinni eru
spilaðir þar.
Borgaryfirvöld í Kielce hafa því ákveðið að leita í hönnun
og skipulag Zlatorog Arena en með töluvert stækkuðu sniði. Hönnun er sú sama,
bara stærri.
Íbúar í Kielce eru 200 þúsund talsins og því ljóst að ný
íþróttahöll þarf að rúma fleiri en 5.000 áhorfendur.
,,Okkar hugmyndir eru að byggja íþróttahöll sem mun rúma
8.200 manns í sæti og við erum þess fullviss að hún verði troðfull á hverjum
meistaradeildarleik,” sagði forseti Vive Tauron Kielce árið 2015.
Hér fyrir neðan eru þrjár tölvuteiknaðar myndir af Kielce Arena:
Gætum við Íslendingar leitað í þennan brunn? Byggt
íþróttahöll sem yrði byggð með Zlatorog Arena sem fyrirmynd. Hún þyrfti þó að
rúma fleiri áhorfendur en þá gætum við skoðað þær hugmyndir sem eru í gangi í
Kielce.
Það væri ekkert slor að reisa mannvirki sem teldist of vel
heppnað.






Ummæli
Skrifa ummæli