Íþróttasvæði Fram í Safamýri er gríðarlega
spennandi uppbyggingarsvæði. Ljóst er Fram mun yfirgefa svæðið innan þriggja
ára þegar það flytur starfsemi sína í Úlfarsárdal. Vilji borgarinnar er að
áfram verði starfrækt íþróttatengd starfsemi á svæðinu en þó hafa einnig verið
uppi hugmyndir að skipuleggja þar íbúabyggð.
Skjáskot: Já.is. |
Svæðið er vissulega nógu stórt og mjög
fýsilegt undir fjölnota íþróttahöll; nýjan þjóðarleikvang innanhússíþrótta. Með
einföldu mati á grunnkorti/loftmynd er augljóst að auðveldlega er hægt að koma
þar fyrir um 10.000 m2 byggingu sem er stærð 7 – 8.000 sæta
íþróttahallar. Auk þess er rými fyrir viðbótaruppbyggingu í tengslum við
mannvirkið. Enginn landhalli er á svæðinu og má segja að það kjörlendi fyrir
stórt íþróttamannvirki. Þá er svæðið skilgreint sem íþróttasvæði í aðalskipulagi Reykjavíkur og þyrfti því ekki að ráðast í breytta skilgreinda landnotkun.
Lóðin er um 3,8 ha að stærð en afmörkun hennar má sjá hér að neðan auk þess sem byggingarmassi 10.000 m2 fjölnota íþróttahallar er mátaður við tvær staðsetningar á svæðinu.
Staðsetning svæðisins er auk þess mjög fýsileg með
tilliti nálægðar við stofnbrautir (sjá neðangreinda mynd) en tvær stórar samgönguæðar liggja nálægt
svæðinu, þ.e. Miklabraut (austur-vestur) og Kringlumýrarbraut (suður-norður).
Mikilvægt er að umferðarflæði sé óskert frá
svæðinu enda 7 – 8.000 manns töluverður fjöldi.
Hins vegar er ljóst að bæta þyrfti aðgengi
að svæðinu til muna en það er töluverður ókostur að núverandi aðgengi ökutækja
er í gegnum íbúahverfi. Ljóst er að koma þyrfti á beinni tengingu svæðisins við
Miklubraut eða Kringlumýrarbraut.
Staðsetning Safamýrar er góð með tilliti
til almenningssamgangna sem fara reglulega um þetta svæði og þá er ráðgert að
borgarlínan fylgi þessum tveimur stofnbrautum í framtíðinni.
Einn stærsti verslunarkjarni landsins,
Kringlusvæðið, er í grennd við Safamýri og þar skapst jafnvel möguleiki á að
samnýta þar bílastæðahúsin utan háannatími líkt og þekkist víða erlendis, þar
sem íþróttamannvirki eru byggð í nánd við verslunarmiðstöðvar.
Það er þó ljóst að 10.000 m2 bygging
mun hafa töluverð neikvæð áhrif á nærliggjandi byggð sem hverfist um
íþróttasvæðið. Hins vegar er hægt að draga úr áhrifunum með ákveðinni
staðsetningu mannvirkisins á svæðinu.
Þetta er frekari innlegg í umræðuna um nýjan þjóðarleikvang fyrir innahúsíþróttir. Vitaskuld er Laugardalurinn fýsilegasti valkosturinn og með réttu ætti hann að vera fyrsti, annar og þriðji valkostur. En vangaveltur eru skemmtilegar.
Ummæli
Skrifa ummæli