Fara í aðalinnihald

ÍBR vill reisa Dalinn (fjölnota íþróttahús) í Laugardal

Á 48. þingi Íþróttabandalags Reykjavíkur (ÍBR) sem fór fram í mars 2017 var samþykkt að að fela stjórn ÍBR að kanna möguleika á að byggt verði fjölnota íþrótta- og viðburðahús í Laugardal. Í því felst meðal annars að gerð verði fýsileikakönnun verkefnisins auk þess sem rekstrarhagkvæmni slíkrar byggingar fyrir íþróttahreyfinguna í Reykjavík er skoðuð ofan í kjölinn.

Dalurinn – nýtt fjölnota íþróttahús í Laugardal
Ingvar Sverrisson, formaður ÍBR, sagði m.a. í ræðu á þinginu um íþróttamannvirkjamál í Reykjavík að æfinga- og keppnisaðstaða ýmissa landsliða og einstakra félaga væri ekki nógu góð og það þyrfti að bæta.

,,Sem dæmi um þær áskoranir sem hreyfingin stendur frammi fyrir er að HSÍ hefur sagt að það þurfi keppnisaðstöðu fyrir 5 – 6.000 manns. KKÍ hefur sagst þurfa um 3 þúsund manna aðstöðu. Við erum með fjölmörg lítil félög sem eru að æfa hér og þar um borgina fyrir mikla peninga og við þurfum að leysa úr vanda nokkurra annarra íþróttagreina. Þá hafa knattspyrnufélögin í Reykjavík sagt að mikilvægt sé að fá eitt stórt keppnishús í viðbót, miðsvæðis í borginni,” sagði Ingvar og bætti við að hugmyndavinna stórs fjölnota íþróttahúss í Laugardal væri í fullum gangi.

,,Til þess að mæta þessu var kynnt hugmyndin um byggingu Dalsins. Fjölnota íþróttamannvirkis sem kynnt var á formannafundi ÍBR í fyrra,” sagði Ingvar.

,,Þessi vinna hefur verið leidd af mannvirkjanefnd bandalagsins. Í tillögu sem liggur fyrir þessu á þingi er ráðgert að þeirri vinnu verði haldið áfram og að stjórnin fái samþykki til að taka næstu skref í þeirri vinnu til þess að geta mætt þörfum allra þessara íþróttagreina. Það er þó mikilvægt að halda því vel til haga að ekki getur orðið af uppbyggingu sem þessari nema með aðkomu ríkisins í formi þess að keyptir verða æfinga- og keppnistímar fyrir landsliðin okkar en það ekki greitt af Reykjavíkurborg eins og hingað til hefur verið gert.”

Í greinargerð um málið stendur orðrétt: ,,Stjórn ÍBR kynnti á formannsfundi í nóvember s.l. hugmyndir að byggingu íþrótta- og viðburðahúss í Laugardal. Í Reykjavík er aðeins eitt knattspyrnuhús og liggur fyrir þörf ýmissa greina um bætta aðstöðu. Laugardalurinn hefur af mörgum verið nefndur sem fýsilegur kostur vegna staðsetningar. Slíkt hús myndi létta mjög á álagi við æfingar og keppni í knattspyrnu í borginni en þar gæfist einnig kostur á því að bæta úr aðstöðu fleiri íþróttafélaga og greina. Í mannvirkinu væri einnig hægt að skapa aðstæður til að hýsa stórviðburði s.s. landsleiki eða alþjóðleg mót í mörgum íþróttagreinum með miklum fjölda áhorfenda. Gert er ráð fyrir að kostnaður við fýsileikakönnun geti numið allt að 10 milljónum króna. Stefnt er að því að mynda vinnuhóp sem komi að undirbúningi verkefnisins. Markmiðið er að uppbygging og rekstur hins nýja húss muni hafa umtalsverð jákvæð áhrif fyrir rekstur íþróttahreyfingarinnar í borginni og á Íslandi heilt yfir.”


Yfirlitsmynd af Laugardalnum.


Óvissa um notagildi
Svo virðist sem að hér sé um að ræða mannvirki sem hægt verði að nýta sem knattspyrnuhús auk fjölnota íþróttahallar fyrir innanhúsíþróttir. Í því felast ákveðin vandkvæði fyrir allar viðkomandi íþróttagreinar en samnýting utan- og innanhússíþrótta þykir hafa nokkra ókosti.

Það er ljóst að æfingaaðstaða landsliðanna kemur ekki til með að batna og þá þekkist það ekki annarsstaðar að þjóðarleikvangur innanhússíþrótta sé auk þess skilgreindur sem mannvirki fyrir íþróttagreinar sem eru líka spilaðar utandyra.

Sá fjöldi íþróttagreina sem mun ætlast til þess að nota húsið verður mikill og því er ljóst mikil óvissa mun ríkja um notagildi slíks húss í framtíðinni. Það er mín skoðun að þjóðarleikvangur fyrir innanhússíþróttir eigi að vera þjóðarleikvangur fyrir innanhúsíþróttir.

Hins vegar er þetta framtak ÍBR lofsvert og verður fróðlegt að sjá hver niðurstaða fýsileikakönnunarinnar verður.

Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Nýtt íþróttahús í Njarðvík?

Íþróttahúsið í Njarðvík, Ljónagryfjan svokallaða, er elsta keppnishúsið sem er í notkun í Domino‘s deild karla í körfuknattleik. Húsið var tekið í notkun árið 1973 og stendur við grunnskóla Njarðvíkur. Ef mið er tekið af íþróttahúsum sem byggð hafa verið hérlendis á síðasta áratug eða eru í byggingu er ljóst að mannvirkið er allt of lítið; ekki er nægilegt rými umhverfis keppnisgólfið og þá er takmörkuð aðstaða fyrir áhorfendur. Húsið er einfaldlega of lítið fyrir starfsemi félagsins. Vitaskuld er Ljónagryfjan fallegt og skemmtilegt íþróttahús og er það eitt af djásnum íslensks körfubolta en því miður er það ekki boðlegt lengur sem heimavöllur eins sigursælasta körfuknattleiksfélags landsins. ,,Ljónagryfjan" í Njarðvík. Skjáskot: Ja.is. Mikil íbúafjölgun Árið 1973 voru íbúar Njarðvíkur 1.700 en í dag búa yfir 6.000 manns í Njarðvíkurhluta Reykjanesbæjar. Fjölgun íbúa í Njarðvík nemur því um 250% á tímabilinu og er ljóst að þörf er á aðgerðum af hálfu bæjaryfirvalda sem ...

Nýtt körfuboltahús Hauka, Ólafssalur

Körfuknattleikslið Hauka mun spila á nýjum heimavelli á komandi leiktíð Domino's deildar karla og kvenna. Um er að ræða sérhæft körfuknattleikshús sem mun nær eingöngu þjónusta körfuknattleiksdeild Hauka. Um er að ræða einstakt hús á íslenska vísu og verður fróðlegt að fylgjast með því hvort önnur félög fylgi í kjölfarið. Keppnissalurinn er sérhannaður fyrir körfubolta og stúkan mun rúma 1100 manns en samkvæmt fréttum geta allt að 2.000 manns komist fyrir með því að raða fólki þétt á svölunum. Engin hefðbundin leikklukka verður í húsinu heldur verður stöðu, tíma og stigaskori varpað upp á LED skjái í sitthvorum enda vallarins. Meðfylgjandi myndir voru teknar af Erni Eyjólfssyni, ljósmyndara Fréttablaðsins, og birtist í frétt blaðsins um íþróttamannvirkið síðastliðið vor. Þá var áhorfendaaðstaðan ekki komin til landsins en hún ætti að vera kominn upp fyrir upphaf körfuknattleikstímabilsins í haust. Mynd: Örn Eyjólfsson, Fréttablaðið. Mynd: Örn Eyjólfsson, F...

Kristianstad Arena í Svíþjóð

Svíar eru leiðandi afl í uppbyggingu íþróttamannvirkja á Norðurlöndum og í Kristianstad þar sem búa um 40.000 þúsund manns er að finna gríðarlega vandaða fjölnota íþróttahöll. Höllin sem um ræðir ber heitið Kristianstad Arena og var tekin í notkun árið 2010. Hún tekur 4.700 áhorfendur í sæti og var ein af keppnishöllunum á HM í handbolta í Svíþjóð 2011. Byggingarkostnaður hallarinnar nam um 4,5 milljörðum íslenskra króna á núvirði og var fjármögnunin alfarið í höndum sveitarfélagsins Kristianstad. Þó svo að höllin taki einungis 4.700 manns í sæti er hönnunin slík að svo virðist sem hún rúmi mun fleiri áhorfendur. Þetta er gríðarlega skemmtilegt og metnaðarfullt mannvirki sem 40.000 manna bær getur verið stoltur af. Þess má geta að höllin er heimavöllur IFK Kristianstad, þar sem Ólafur Andrés Guðmundsson, handknattleikskappi, hefur gert garðinn frægan á undanförnum árum.   Skjáskot: Google Earth. Mynd: Petter Arvidson/Bildbyrån.