Á 48. þingi Íþróttabandalags Reykjavíkur (ÍBR) sem fór
fram í mars 2017 var samþykkt að að fela stjórn ÍBR að kanna möguleika á að
byggt verði fjölnota íþrótta- og viðburðahús í Laugardal. Í því felst meðal
annars að gerð verði fýsileikakönnun verkefnisins auk þess sem rekstrarhagkvæmni
slíkrar byggingar fyrir íþróttahreyfinguna í Reykjavík er skoðuð ofan í
kjölinn.
Dalurinn – nýtt fjölnota íþróttahús í Laugardal
Ingvar Sverrisson, formaður ÍBR, sagði m.a. í ræðu á
þinginu um íþróttamannvirkjamál í Reykjavík að æfinga- og keppnisaðstaða ýmissa
landsliða og einstakra félaga væri ekki nógu góð og það þyrfti að bæta.
,,Sem dæmi um
þær áskoranir sem hreyfingin stendur frammi fyrir er að HSÍ hefur sagt að það
þurfi keppnisaðstöðu fyrir 5 – 6.000 manns. KKÍ hefur sagst þurfa um 3 þúsund
manna aðstöðu. Við erum með fjölmörg lítil félög sem eru að æfa hér og
þar um borgina fyrir mikla peninga og við þurfum að leysa úr vanda nokkurra
annarra íþróttagreina. Þá hafa knattspyrnufélögin í Reykjavík sagt að
mikilvægt sé að fá eitt stórt keppnishús í viðbót, miðsvæðis í
borginni,” sagði Ingvar og bætti við að hugmyndavinna stórs fjölnota
íþróttahúss í Laugardal væri í fullum gangi.
,,Til þess
að mæta þessu var kynnt hugmyndin um byggingu Dalsins. Fjölnota
íþróttamannvirkis sem kynnt var á formannafundi ÍBR í fyrra,” sagði
Ingvar.
,,Þessi
vinna hefur verið leidd af mannvirkjanefnd bandalagsins. Í tillögu sem liggur
fyrir þessu á þingi er ráðgert að þeirri vinnu verði haldið áfram og að
stjórnin fái samþykki til að taka næstu skref í þeirri vinnu til þess að
geta mætt þörfum allra þessara íþróttagreina. Það er þó mikilvægt að halda
því vel til haga að ekki getur orðið af uppbyggingu sem þessari nema með
aðkomu ríkisins í formi þess að keyptir verða æfinga- og keppnistímar fyrir
landsliðin okkar en það ekki greitt af Reykjavíkurborg eins og hingað til
hefur verið gert.”
Í
greinargerð um málið stendur orðrétt: ,,Stjórn ÍBR kynnti á formannsfundi í
nóvember s.l. hugmyndir að byggingu íþrótta- og viðburðahúss í Laugardal. Í
Reykjavík er aðeins eitt knattspyrnuhús og liggur fyrir þörf ýmissa greina um
bætta aðstöðu. Laugardalurinn hefur af mörgum verið nefndur sem fýsilegur
kostur vegna staðsetningar. Slíkt hús myndi létta mjög á álagi við æfingar og
keppni í knattspyrnu í borginni en þar gæfist einnig kostur á því að bæta úr
aðstöðu fleiri íþróttafélaga og greina. Í mannvirkinu væri einnig hægt að skapa
aðstæður til að hýsa stórviðburði s.s. landsleiki eða alþjóðleg mót í mörgum
íþróttagreinum með miklum fjölda áhorfenda. Gert er ráð fyrir að kostnaður við fýsileikakönnun geti
numið allt að 10 milljónum króna. Stefnt er að því að mynda vinnuhóp sem komi
að undirbúningi verkefnisins. Markmiðið er að uppbygging og rekstur hins nýja húss muni
hafa umtalsverð jákvæð áhrif fyrir rekstur íþróttahreyfingarinnar í borginni og
á Íslandi heilt yfir.”
![]() |
Yfirlitsmynd af Laugardalnum. |
Óvissa um notagildi
Svo virðist sem að hér sé um að ræða
mannvirki sem hægt verði að nýta sem knattspyrnuhús auk fjölnota íþróttahallar
fyrir innanhúsíþróttir. Í því felast ákveðin vandkvæði fyrir allar viðkomandi
íþróttagreinar en samnýting utan- og innanhússíþrótta þykir hafa nokkra ókosti.
Það er ljóst að æfingaaðstaða landsliðanna kemur ekki til með að batna og þá þekkist það ekki annarsstaðar að þjóðarleikvangur innanhússíþrótta sé auk þess skilgreindur sem mannvirki fyrir íþróttagreinar sem eru líka spilaðar utandyra.
Sá fjöldi íþróttagreina sem mun ætlast til þess að nota húsið verður mikill og því er ljóst mikil óvissa mun ríkja um notagildi slíks húss í framtíðinni. Það er mín skoðun að þjóðarleikvangur fyrir innanhússíþróttir eigi að vera þjóðarleikvangur fyrir innanhúsíþróttir.
Hins vegar er þetta framtak ÍBR lofsvert og verður fróðlegt að sjá hver niðurstaða fýsileikakönnunarinnar verður.

Ummæli
Skrifa ummæli