Fara í aðalinnihald

Hvar skaltu rísa þjóðarleikvangur innanhússíþrótta?

Þörfin á nýjum þjóðarleikvangi innanhússíþrótta er gríðarlega mikil hér á landi. Laugardalshöllin er úr sér gengin og annar ekki eftirspurn; það er útilokað fyrir alla aðila að nýta höllina til síns brúks.

Handboltalandsliðið er á vergangi þegar kemur að undirbúningi fyrir mikilvæga landsleiki því Laugardalshöllin er fullbókuð. Forráðamenn HSÍ þurfa því að leita á náðir íþróttafélaganna á höfuðborgarsvæðinu til fá inni í íþróttahúsum þeirra. Það sama á við um körfuboltalandsliðið þegar mikilvægan undirbúning ber að höndum. Er þetta í lagi?

Mikilvægt er að stjórnvöld og fulltrúar borgaryfirvalda setjist niður og ákveði að byggja skuli sómasamlega íþróttahöll; þjóðarleikvang fyrir innanhúsíþróttir. Hins vegar er mikilvægt að finna hentuga staðsetningu fyrir slíkt mannvirki áður en ákveðið er að byggja.

Innan borgar eða á borgarjaðrinum
Undirritaður er menntaður land- og skipulagsfræðingur og fjallaði meistaraverkefni mitt í Skipulagsfræði um staðarvalsgreiningu fyrir þjóðarleikvang innanhússíþrótta á höfuðborgarsvæðinu.

Það þarf að vanda til verka þegar finna skal stórum, fjölnota íþróttahöllum stað. Slík höll mun standa næstu áratugina og því þarf að meta hugsanlega staðsetningu út frá þeim innviðum sem eru eða eru ekki til staðar á svæðinu (t.a.m. uppbyggð bílastæði), hvernig eru almenningssamgöngur í nánd við svæðið, er svæðið í nánd við stofnbraut? Er það nægilega stórt ef ráðast þarf í frekari uppbyggingu innan ákveðinna áratuga, hvernig er aðgengi að svæðinu? (er góð tenging við stofnbraut eða þarf að komast að því með því að keyra í gegnum hverfi), er svæðið í eigu ríkis, sveitarfélags eða einkaaðila? Það getur verið töluvert dýrara að komast yfir lóðir í eigu einkaaðila. Hvernig er lega svæðisins og gerð? Er mikill landhalli eða er undirlendið flatt? Það er svo margt sem þarf að hafa í huga.

Í lokaritgerð minni var allt höfuðborgarsvæðið undir, að Kjalarnesinu undanskildu. Jaðarsvæðin voru skoðuð því það þekkist víða annarsstaðar að byggja upp íþróttasvæði á borgarjöðrunum. Þar er nægt landrými og yfirleitt skilvirkar tengingar við stofnbrautir. Hver kannast ekki við úthvefi í bandarískum stórborgum þar sem gríðarstór íþróttamannvirki rísa upp úr auðninni, umkringd endalausu flæmi bílastæða. Þar eru þessi íþróttasvæði oft undirlögð þyrpingu af ruðningsleikvöngum, hafnaboltaleikvöngum, körfuknattleikshöllum og ísknattleikshöllum.

Ástæðan er einföld. Það er óðs manns æði að byggja flest þessarra mannvirkja inni í borgunum og hvað þá í miðborgunum. Íþróttahallirnar eru þó undantekningin því þær þurfa ekki það mikla landrými og stórir íþróttaleikvangar þurfa. Upp úr miðri síðustu öld færðust þær út á jaðarinn með hinum íþróttamannvirkjunum en undir lok aldarinnar sneru þær aftur inn í borgirnar og miðborgirnar. Ástæðan var sú að með tilkomu þeirra voru miðborgir vaktar til lífs á ný; umhverfis hallirnar byrjaði önnur starfsemi og þjónusta að blómstra.

Það kom margt áhugavert í ljós með því að skoða borgarjaðarinn á höfuðborgarsvæðinu með tilliti til nýs þjóðarleikvangs fyrir innanhúsíþróttir. Eins og staðan er í dag er það ekki fýsilegt að byggja slíkt mannvirki vegna skorts á innviðum og óskilvirkra almenningssamgangna. Í framtíðinni gæti það þó þótt fýsilegt.

Reykjavík mun þróast næstu áratugi og árhunduð líkt og aðrar borgir heimsins. Borgir og þéttbýlissvæði eru eins konar lífverur sem vaxa og dafna. Vaxtarverkirnir geta verið miklir líkt og raunin hefur verið í miðborginni í Reykjavík en á sama tíma hafa útlimirnir (úthverfin) teygst í allar áttir, upp á holt og hæðir á öllu höfuðborgarsvæðinu. Við borgarvöxtinn verða til einskonar jaðarbelti í borgarmynstrinu. Slík jaðarbelti geta verið stór íþróttasvæði sem byggðust fyrst upp á borgarjaðrinum en eftir því sem borgin stækkaði færðist svæðið innar og innar í borgina. Laugardalurinn er slíkt jaðarbelti; íþróttasvæði sem byggðist upp á austurjaðri borgarinnar á sjötta áratug síðustu aldar en er nú blómlegt svæði innan borgar, nálægt miðborginni. Í fjarlægri framtíð mun annað stórt íþróttasvæði byggjast upp á borgarjaðrinum og í enn fjarlægri framtíð mun það íþróttasvæði verða innan borgar eftir því sem hún stækkar. Annað jaðarbelti. Slíkt íþróttasvæði gæti byggst upp á Álfsnesi, Hólmsheiði, Hvassahrauni eða jafnvel á Geldinganesi þegar Sundabrautin verður orðin að veruleika. Það er hlutverk framtíðarkynslóða að hafa áhyggjur af því.

Laugardalurinn, vin í steinsteyptri auðn
Ég hef rætt við marga erlenda skipulagsfræðinga og arkítekta sem halda ekki vatni yfir Laugardalssvæðinu. Þetta er vin í auðn steinsteypra mannvirkja og malbikaðra samgöngumannvirkja sem umkringja það líkt og þykkur kragi. Við skulum ekki taka því sem gefnu að slík svæði séu algeng erlendis, þ.e. stór íþróttasvæði innan borgar, nálægt miðborg, þar sem þyrping þjóðarleikvanga mynda sterka heild. Reykjavík er í rauninni einstök í þessu tilliti.

En hvernig verður þetta í framtíðinni? Þurfa innanhúsíþróttir að leita annað. Nú á sér stað þéttingarstefna á vegum borgarinnar þar sem gengið er á fýsileg uppbyggingarsvæði víðsvegar innan þéttbýlisins. Laugardalurinn er þar engin undantekning. Ráðgert er að stækka Laugardalsvöllinn og gera hann að þjóðarleikvangi í knattspyrnu. Þá þarf að finna frjálsum íþróttum nýtt athvarf í Laugardal og er ljóst að góðan landskika þarf undir þá starfsemi. Lóðin sunnan við frjálsíþróttahöllina er talin fýsilegur kostur fyrir frjálsíþróttaleikvang. Þróttarar eru með sína starfsemi í Laugardalnum og þeim sárvantar íþróttahús og hafa þeir lagt inn beiðni um að fá að reisa íþróttahús vestan við gervigrasvöllinn í Laugardal. Þá þurfa þeir æfingasvæði fyrir knattspyrnustarfsemi félagsins en það er núna austan við Laugardalsvöllinn, á Valbjarnarvellinum sem nú er reyndar horfinn. Já, mín spá er að Valbjarnarvöllurinn verður eftirsótt uppbyggingarsvæði innan fárra ára.

Valbjarnarvöllurinn
Niðurstöður staðarvalsgreiningarinnar fyrir þjóðarleikvang innanhússíþrótta voru Laugardalnum mjög í hag og eru þar þrjú svæði sem eru mjög fýsileg.

Eitt þessarra svæða er lóðin undir Valbjarnarvellinum en þar felast miklir möguleikar á skilvirkri uppbyggingu í nánum tengslum við þá uppbyggingu sem mun eiga sér stað á Laugardalsvellinum.  Það væri t.a.m. raunhæft að samnýta bílastæði; jafnvel með bílastæðahúsi undir íþróttahöllinni.

Ég mun fjalla nánar um þennan staðarvalskost og hvað felst í honum á morgun. Sýna fram á kosti og galla hans (sem eru fáir), hugsanlegar vegtengingar að svæðinu og hvernig uppbyggingu svæðisins gæti verið háttað í framtíðinni. Tími aðgerða er núna.

Þjóðarleikvangur innanhússíþrótta við hliðina á stærri Laugardalsvelli?












Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Nýtt íþróttahús í Njarðvík?

Íþróttahúsið í Njarðvík, Ljónagryfjan svokallaða, er elsta keppnishúsið sem er í notkun í Domino‘s deild karla í körfuknattleik. Húsið var tekið í notkun árið 1973 og stendur við grunnskóla Njarðvíkur. Ef mið er tekið af íþróttahúsum sem byggð hafa verið hérlendis á síðasta áratug eða eru í byggingu er ljóst að mannvirkið er allt of lítið; ekki er nægilegt rými umhverfis keppnisgólfið og þá er takmörkuð aðstaða fyrir áhorfendur. Húsið er einfaldlega of lítið fyrir starfsemi félagsins. Vitaskuld er Ljónagryfjan fallegt og skemmtilegt íþróttahús og er það eitt af djásnum íslensks körfubolta en því miður er það ekki boðlegt lengur sem heimavöllur eins sigursælasta körfuknattleiksfélags landsins. ,,Ljónagryfjan" í Njarðvík. Skjáskot: Ja.is. Mikil íbúafjölgun Árið 1973 voru íbúar Njarðvíkur 1.700 en í dag búa yfir 6.000 manns í Njarðvíkurhluta Reykjanesbæjar. Fjölgun íbúa í Njarðvík nemur því um 250% á tímabilinu og er ljóst að þörf er á aðgerðum af hálfu bæjaryfirvalda sem

Nýtt körfuboltahús Hauka, Ólafssalur

Körfuknattleikslið Hauka mun spila á nýjum heimavelli á komandi leiktíð Domino's deildar karla og kvenna. Um er að ræða sérhæft körfuknattleikshús sem mun nær eingöngu þjónusta körfuknattleiksdeild Hauka. Um er að ræða einstakt hús á íslenska vísu og verður fróðlegt að fylgjast með því hvort önnur félög fylgi í kjölfarið. Keppnissalurinn er sérhannaður fyrir körfubolta og stúkan mun rúma 1100 manns en samkvæmt fréttum geta allt að 2.000 manns komist fyrir með því að raða fólki þétt á svölunum. Engin hefðbundin leikklukka verður í húsinu heldur verður stöðu, tíma og stigaskori varpað upp á LED skjái í sitthvorum enda vallarins. Meðfylgjandi myndir voru teknar af Erni Eyjólfssyni, ljósmyndara Fréttablaðsins, og birtist í frétt blaðsins um íþróttamannvirkið síðastliðið vor. Þá var áhorfendaaðstaðan ekki komin til landsins en hún ætti að vera kominn upp fyrir upphaf körfuknattleikstímabilsins í haust. Mynd: Örn Eyjólfsson, Fréttablaðið. Mynd: Örn Eyjólfsson, F

Landsliðsmenn um Laugardalshöll árið 1994: ,,á engan hátt samboðin þeirri reisn sem við viljum að íslenskur handknattleikur standi fyrir."

Íslenskir handboltalandsliðsmenn töldu sig illa svikna þegar ljóst var að ný keppnishöll myndi ekki rísa fyrir HM 95. Að þeirra mati var Laugardalshöllin úrelt bygging og engan veginn í stakk búin til að hýsa stórleiki á heimsmeistaramóti sem og aðra leiki að því loknu. Auðvitað var þessi höll þeim öllum kær en að þeirra mati áttu tilfinningar ekki að ráða för í þessu máli. Í júlí 1994, rúmum tíu mánuðum fyrir setningu heimsmeistaramótsins, sendu landsliðsmennirnir aðsenda grein í Morgunblaðið undir yfirskriftinni ,,Við gerum okkar besta - en ..." þar sem framtaksleysi stjórnvalda var harðlega gagnrýnt. ,,V ið höfum allir átt ógleymanlegar stundir í Laugardalshöllinni og margir af stærstu sigrum íslenska landsliðsins hafa einmitt verið þar. Hins vegar verður að viðurkennast að þessi 30 ára gamla bygging er barn síns tíma og á engan hátt samboðin þeirri reisn sem við viljum að íslenskur handknattleikur standi fyrir ," stóð m.a. í greininni. ,,Þ að er hins vegar alveg lj