Fara í aðalinnihald

Þegar Steingrímur Hermannsson reyndi að bjarga HM-höllinni

Verkfræðingurinn, Framsóknarmaðurinn og þá fyrrverandi forsætisráðherra Íslands, Steingrímur Hermannsson heitinn, steig í pontu á Alþingi í lok árs 1991 í umræðum um fjárlögin fyrir árið 1992 og vék orðum sínum að þeim ógöngum sem málefni handboltahallarinnar svokölluðu voru komin í.

Hann sat í samsteypustjórn Alþýðu-, Framsóknar- og Sjálfstæðisflokksins árið 1988 þegar ríkisstjórnin skrifaði undir viljayfirlýsingu um byggingu nýrrar fjölnota íþróttahallar vegna umsóknar Íslands um að fá að halda HM 93 í handknattleik (sem síðar varð HM 95). Höllin átti að rúma 8.000 manns í sæti og var glæsilegur bæklingur gefinn út þar sem Davíð Oddsson, þáverandi borgarstjóri Reykjavíkur, og Vigdís Finnbogadóttir, þáverandi forseti Íslands, lögðu blessun sína yfir umsóknina.

Ísland fékk vilyrði fyrir að halda Heimsmeistarakeppnina en í kjölfarið hófst skrípaleikur sem rakinn hefur verið í grófum dráttum á þessari síðu og verður ekki gerður frekari skil hér. Hins vegar í miðri hringiðu þessa skrípaleiks steig Steingrímur fram, þá orðinn óbreyttur þingmaður á nýjan leik, og vildi að þetta mikla hitamál fengi farsælan endi. Það var í raun ótrúlegt hversu mikið þessari fyrirhuguðu íþróttahöll var bölvað. ,,Guð forði okkur frá því að hér rísi íþróttahöll fyrir einn handboltaleik!" heyrðist sagt. Já, ótrúleg skammsýni.

Steingrímur hafði þetta að segja um handboltahöllina í pontu Alþingis, í desember 1991. Þau atriði sem mér finnst áhugaverð eru feitletruð.

,,Ég legg síðan til í annarri tillögu minni að veitt verði 50 millj. kr. til byrjunarframkvæmda við handboltahöll. Mér er fyllilega ljóst að þetta er umdeilt mál en ég er mjög eindregið þeirrar skoðunar að standa eigi við samninga og reyndar einnig, getum við sagt, alþjóðasamninga eins og þessi er. Hann er bæði alþjóðasamningur og innlendur samningur. Og ég vek athygli á aðdraganda þessa máls. Handknattleikssambandið gekk í það að ná samningi um að heimsmeistaramót yrði haldið hér á landi og fékk mikinn stuðning frá stjórnvöldum. Það gaf út mikinn glæsibækling og í hann skrifuðu m.a. fyrrv. utanrrh. Matthías Á. Matthiesen, fyrrv. borgarstjóri Davíð Oddsson og fyrrv. menntmrh. Birgir Ísleifur Gunnarsson og studdu eindregið þessa málaleitun Handknattleikssambands undir, getum við sagt, forystu hæstv. utanrrh. Það var reyndar meira gert því öll utanríkisþjónustan var notuð í því sambandi. Ég hygg að allir sendiherrar og aðrir sem starfa í utanríkisþjónustunni erlendis hafi fengið bréf frá utanrrh. um það og þeir hafa verið beðnir að vinna að því eins og þeir frekast gætu. Ég veit að fjölmargir ræðismenn sem fengu slíka beiðni gengu í málið og niðurstaðan varð sú að alþjóðlegur samningur náðist um að halda mótið hér á landi. Ég vil taka það skýrt fram að ég var samþykkur og studdi það eins og ég gat svo að ég tel mig vera jafnábyrgan fyrir því eins og þeir ágætu menn sem ég nefndi hér áðanÍ framhaldi af þessu var gerður samningur við Kópavogsbæ. Að sjálfsögðu er hægt að breyta þeim samningi ef Kópavogsbær óskar ekki að byggja slíkt handboltahús og báðir aðilar eru því sammála, en hinn alþjóðlegi samningur stendur eftir sem áður. Mér sýnast fjárhagsvamdræði Handknattleikssambandsins megi ekki verða til þess að rjúfa samninga enda skilst mér að Handknattleikssambandið hafi alls ekki gefið frá sér að halda mótið hér á landi. Þau mál verður að leysa eftir öðrum leiðum og eru að mínu mati óháð þessuKomið hafa fram upplýsingar upp á síðkastið um að slík hús megi byggja miklu ódýrara en áður var talið og ég tel að ríkisstjórnin, miðað við þá forystu sem þeir ýmsu menn sem ég nefndi áðan hafa haft, ætti að ganga í það að leita samstarfs annars staðar um byggingu ódýrara handboltahúss. Því er lagt til að þessi fjárveiting verði veitt. Ég set reyndar fram tillögu til vara að breyta þessu í heimild, þ.e. hafa heimild á 6. gr. til lántöku að upphæða 50. millj. kr. til byrjunarframkvæmda við byggingu handboltahallar. Það kann vel að vera að hæstv. ríkisstjórn kjósi það fremur og það er þá ekki eins fast bundið ef t.d. samkomulag yrði um það við alþjóðlega aðila og við Handknattleikssambandið að þeir hættu við þessa keppni hér á landi sem ég tel að vísu hinn mesta álitshnekki fyrir okkur Íslendinga eins og að henni var staðið áður."

Það kemur skýrt fram í orðum Steingríms að Íslendingar hafi verið búnir að skuldbinda sig til að reisa stóra keppnishöll í tengslum við HM95. Að öðrum kosti hefði Ísland aldrei fengið vilyrði fyrir að halda keppnina. Gerður hafi verið alþjóðasamningur og honum hafi okkur borið að hlýta.

Einnig kemur fram í orðum Steingríms að stjórnvöld hafi lagt allt kapp á að fá keppnina hingað til lands og öllu hafi verið til tjaldað. Hvers vegna breyttist afstaðan svona mikið? Voru stjórnarskiptin og nýr forsætisráðherra Davíð Oddsson eindregið á móti þessu? Davíð hafði lagt sitt á vogarskálarnar í kynningarbæklingnum glæsilega en virtist nú algjörlega mótfallinn byggingu íþróttahallarinnar. Steingrímur bendir einnig á þann möguleika að byggja ódýrari keppnishöll, sem er áhugavert. En allt kom fyrir ekki.

Engin reis keppnishöll nema lítil viðbygging við Laugardalshöllina.





































Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Nýtt körfuboltahús Hauka, Ólafssalur

Körfuknattleikslið Hauka mun spila á nýjum heimavelli á komandi leiktíð Domino's deildar karla og kvenna. Um er að ræða sérhæft körfuknattleikshús sem mun nær eingöngu þjónusta körfuknattleiksdeild Hauka. Um er að ræða einstakt hús á íslenska vísu og verður fróðlegt að fylgjast með því hvort önnur félög fylgi í kjölfarið. Keppnissalurinn er sérhannaður fyrir körfubolta og stúkan mun rúma 1100 manns en samkvæmt fréttum geta allt að 2.000 manns komist fyrir með því að raða fólki þétt á svölunum. Engin hefðbundin leikklukka verður í húsinu heldur verður stöðu, tíma og stigaskori varpað upp á LED skjái í sitthvorum enda vallarins. Meðfylgjandi myndir voru teknar af Erni Eyjólfssyni, ljósmyndara Fréttablaðsins, og birtist í frétt blaðsins um íþróttamannvirkið síðastliðið vor. Þá var áhorfendaaðstaðan ekki komin til landsins en hún ætti að vera kominn upp fyrir upphaf körfuknattleikstímabilsins í haust. Mynd: Örn Eyjólfsson, Fréttablaðið. Mynd: Örn Eyjólfsson, F

Nýtt íþróttahús í Njarðvík?

Íþróttahúsið í Njarðvík, Ljónagryfjan svokallaða, er elsta keppnishúsið sem er í notkun í Domino‘s deild karla í körfuknattleik. Húsið var tekið í notkun árið 1973 og stendur við grunnskóla Njarðvíkur. Ef mið er tekið af íþróttahúsum sem byggð hafa verið hérlendis á síðasta áratug eða eru í byggingu er ljóst að mannvirkið er allt of lítið; ekki er nægilegt rými umhverfis keppnisgólfið og þá er takmörkuð aðstaða fyrir áhorfendur. Húsið er einfaldlega of lítið fyrir starfsemi félagsins. Vitaskuld er Ljónagryfjan fallegt og skemmtilegt íþróttahús og er það eitt af djásnum íslensks körfubolta en því miður er það ekki boðlegt lengur sem heimavöllur eins sigursælasta körfuknattleiksfélags landsins. ,,Ljónagryfjan" í Njarðvík. Skjáskot: Ja.is. Mikil íbúafjölgun Árið 1973 voru íbúar Njarðvíkur 1.700 en í dag búa yfir 6.000 manns í Njarðvíkurhluta Reykjanesbæjar. Fjölgun íbúa í Njarðvík nemur því um 250% á tímabilinu og er ljóst að þörf er á aðgerðum af hálfu bæjaryfirvalda sem

Laugardalshöllin: gömul, eldri, elst

Þegar fjórar síðustu undankeppnir í EM í handbolta eru skoðaðar kemur í ljós að Laugardalshöll er langelsta íþróttahöllin sem er notuð að staðaldri í keppnisleikjum í Evrópu. Fjölnota íþróttahöll. Alls fóru fram 12 landsleikir í í Laugardalshöll í undankeppni EM á þessu tímabili, eða allir heimaleikir Íslands. Auk Laugardalshallarinnar fóru á þessu tímabili fram landsleikir í 12 öðrum íþróttahöllum sem reistar voru fyrir 1970. Engin þeirra hýsti jafnmarga leiki og Laugardalshöllin en þær hallir sem komust næst Laugardalshöllinni hýstu fjóra leiki á þessu tímabili, eða að meðaltali einn leik í hverri undankeppni. Þær hallir sem hýstu fjóra landsleiki voru Yunost Sports Palace (1967) í Chelyabinsk í Rússlandi, Dvorana Mirza Delibasic (1969) í Sarajevo í Bosníu og Minsk Sports Palace (1966) í Minsk í Hvíta-Rússlandi. Þessar þrjár íþróttahallir eru allar handan austantjaldsins en Ísland er eina Vestur-Evrópu þjóðin þar sem landsleikir í handknattleik eru leiknir að s