Í dag eru kosningar og tölur og tölfræði reifaðar við mann og annan. Hér koma niðurdrepandi tölur.
Evrópska handknattleikssambandið er búið að staðfesta hvaða
keppnishallir munu hýsa umspilsleikina í undankeppni HM í næsta mánuði. Og viti
menn! Laugardalshöllin er elst þeirra allra.
Byggingin var tekin í notkun árið 1965 en næst elst er
keppnishöll Hvít-Rússa sem var vígð árið 1966. Þær eru einu mannvirkin í
undankeppninni sem voru byggð á sjöunda áratuginum.
Fjórar íþróttahallanna voru teknar í notkun á áttunda
áratuginum og eru þær allar staðsettar í austur Evrópu þ.e. í Rúmeníu,
Tékklandi, Serbíu og Svartfjallalandi.
Þannig að fimm af sex elstu keppnishöllunum eru í löndum sem
tilheyra austur Evrópu, fyrir utan Ísland auðvitað.
Þá verður keppt í tveimur höllum sem voru byggðar á níunda
áratuginum (Rússland og Holland) og þremur sem voru vígðar á 10. áratuginum
(Austurríki, Portúgal og Slóvenía).
Sjö keppnishallanna í undankeppninni voru byggðar á þessari
öld en þær eru í Litháen (2004), Króatíu (2008), Makedóníu (2008),
Ungverjalandi (2008), Svíþjóð (2010), Sviss (2010) og Noregi (2012).
Þessi listi þarf svo sem ekki að koma á óvart enda hafa
íslensk stjórnvöld algjörlega vanrækt þennan málaflokk, þ.e. þjóðarleikvang
innanhússíþrótta, í rúma þrjá áratugi. Það þarf heldur ekki að koma á óvart að keppnishöll okkar Íslendinga sem verður notuð í þessari komandi undankeppni er langelsta höllin í vestur Evrópu.
Land, vígsluár:
Noregur, 2012
Sviss, 2010
Svíþjóð, 2010
Ungverjaland, 2008
Makedónía, 2008
Króatía, 2008
Litháen, 2004
Slóvenía, 1999
Portúgal, 1998
Austurríki, 1995
Holland, 1982
Rússland, 1981
Svartfjallaland, 1978
Serbía, 1974
Tékkland, 1974
Rúmenía, 1970
Hvíta-Rússland, 1966
Ísland, 1965
Mynd: Art Bicnick. |
Ummæli
Skrifa ummæli