Eftir rúm tvö ár verða liðin tuttugu ár frá því að fyrsta knattspyrnuhöllin var tekin í notkun á Íslandi, nánar tiltekið í Reykjanesbæ. Síðan þá hafa þær risið með reglulegu millibili hérlendis, flestar á höfuðborgarsvæðinu og á sunnanverðu landinu en landsbyggðin hefur einnig fengið sinn skerf af þessum byltingarkenndum mannvirkjum.
Þær eru misstórar og hvolfist yfirbygginging ekki alltaf yfir heilan knattspyrnuvöll. Það skiptir ekki mestu máli. Mikilvægast er að þær eru komnar hingað. Hingað til að vera. Þessi gímöld sem hafa skipt sköpun í ótrúlegri þróun íslenskrar knattspyrnu á síðustu árum.
Árið 1994, einungis fimm árum áður en Reykjaneshöllin reis í öllu sínu veldi stóð mikill styr um hugmyndir um nýja fjölnota íþróttahöll í tengslum við HM 95. Þá var ekki lengur inn í myndinni að reisa fjölnota íþróttahöll einungis fyrir innanhúsíþróttir heldur var umfangið orðið stærra og átti þess konar höll að rúma heilan knattspyrnuvöll sem hægt væri að nota að loknu heimsmeistaramótinu.
Samkvæmt hugmyndunum voru tveir raunhæfir valmöguleikar um staðsetningu þess konar húss í Laugardalnum; austanmegin við Laugardalshöllina eða á gervigrasvellinum gegnt henni. Niðurstaðan varð hins vegar sú að ekki náðist samkomulag um fjármögnun slíkrar hallar og fauk þar með síðasti möguleikinn á stórri og veglegri íþróttahöll undir úrslitaleik HM út um gluggann.
Síðan þá hafa risið 12 knattspyrnuhallir hérlendis og margar eru á teikniborðinu. Gangi áætlanir eftir verða þær orðnar fleiri en tuttugu innan fárra ára. Samt sem áður hefur aldrei verið fjárfest í færanlegum áhorfendastúkum eða keppnisgólfi sem hægt er að leggja yfir gervigras. Aðstaða fyrir innanhúsíþróttir hefur eiginlega gleymst í hönnunarferlinu. Skrítið.
Færanleg stúkukerfi eru mjög ódýr fjárfesting samanborið við byggingu á heilli höll. Þar með hefði verið hægt að drýgja þann tíma frá því hætt yrði að keppa í úr sér genginni Laugardalshöll þar til ný fjölnota íþróttahöll risi.
Samtals hafa knattspyrnuhallir risið fyrir rúma 14 milljarða hérlendis og það styttist óðfluga í milljarðatuginn. Stofnkostnaður við færanlega áhorfendastúku með sæti fyrir 6 - 8 þúsund manns og viðeigandi gólfefnis gæti numið rúmum 100 milljónum íslenskra króna. Þó svo að greiða þyrfti fyrirtækjum 2 - 6 milljónir króna fyrir upp- og niðursetningu kerfisins, sést að hér er um að ræða dropa í hafið samanborið við aðrar fjárfestingar.
Hér að neðan eru tvö líkön af fjölnota íþróttahöllum sem hugmyndir voru uppi um að reisa austanmegin við Laugardalshöllina. Þær hugmyndir fuku út í veður og vind.
Ummæli
Skrifa ummæli