Það er mikill uppgangur í norskum handbolta um þessar mundir eftir að karlalandsliðið nældi óvænt í silfrið á heimsmeistaramótinu í Frakklandi í janúar síðastliðinn og þá er óþarfi að fjölhæfa um árangur kvennalandsliðsins undir stjórn Þóris Hergeirssonar.
Svo virðist sem að árangur karlalandsliðsins komi á besta tíma en framundan eru tvö stórverkefni á norskri grundu þar sem Evrópumót karla og kvenna verða haldin í samvinnu við aðrar þjóðir árið 2020.
Ásamt Norðmönnum munu Svíar og Austurríkismenn halda Evrópumót Karlalandsliða en Danir verða þeim norsku til halds og trausts kvennamegin.
Í ljósi þess að tvö stórmót hafa rekið á fjörur Norðmanna hefur verið tekin ákvörðun um að byggja nýja keppnishöll og gera áætlanir ráð fyrir að hún muni rúma 8000 áhorfendur. Hins vegar er talið líklegt að hún muni rúma fleiri í sæti þegar endanlegar teikningar hafa verið samþykktar.
Ekki er ráðgert að höllin rísi í Osló heldur er stefnt að því að hún rísi í Þrándheimi.
Við skulum krossa fingur og vona að Norðmenn lendi ekki í sama hallarveseni og Íslendingar hér um árið.
Hér að neðan eru tvær tölvuteiknaðar myndir af ,,ferlíkinu" eins og væntanleg bygging er stundum nefnd.
Ummæli
Skrifa ummæli