Áður en byrjað var að slá upp fyrir sökklum Laugardalshallarinnar á sjöunda áratuginum hafði önnur íþróttahöll verið í pípunum um nokkurt skeið í Reykjavík, hin svokallaða æskulýðshöll.
Frá upphafi fimmta áratugarins heyrðust með jöfnu millibili háværar óskir um þessa höll enda voru húsnæðismál inniíþróttagreina í miklum lamasessi í borginni. Æskulýðshöllin átti að gjörbylta aðstöðumálum inniíþrótta í borginni en hún átti m.a. að hýsa skautasal þar sem rými var fyrir 3000 áhorfendur auk annars minni íþróttasalar sem rúma átti 500 manns í sæti. Auk þess átti kvikmyndahús að vera samtengt íþróttahöllinni.
Ekkert varð þó úr þessum áætlunum og má segja að Reykvíkingar hafi þurft að búa við bágan kost í húsnæðismálum inniíþróttagreina þar til Laugardalshöllin reis árið 1965.
Gísli Halldórsson, arkitekt og hönnuður margra íþróttamannvirkja á Íslandi, gerði uppdrátt að æskulýðshöllinni sem sjá má hér að neðan. Auk þess fylgir hér kort sem sýnir hvar æskulýðshöllin átti að rísa.
Ummæli
Skrifa ummæli