Árið 1994 var Ellert B. Schram, þáverandi forseti íþróttasambands Íslands, vongóður um byggingu fjölnota íþróttahallar í tæka tíð fyrir HM 95. Hins vegar má greina töluverðrar efasemdar í grein sem hann ritaði í Morgunblaðinu það ár undir heitinu: ,,Höllin sem aldrei reis."
Þessi efasemdartónn átti eflaust rétt á sér því tuttugu og þremur árum síðar er fjölnota höllina hvergi að finna þó vissulega hafi knattspyrnuhallir dúkkað upp hér og þar. Hins vegar er erfitt að skilgreina þær sem fjölnota þar sem lítið er um að aðrar íþróttagreinar rati þar inn.
Í þessari tilteknu grein ritar Ellert m.a.: ,,Á undanförnum dögum og vikum hafa íþróttaáhugamenn fylgst spenntir með fréttum af hugsanlegri byggingu stórs fjölnota íþróttahúss í Reykjavík. Sú umræða hefur að vísu tekið margar dýfurnar og þær hafa ekki ætíð verið málinu til framdráttar."
Ennfremur ritar Ellert: ,,Öllum er þó væntanlega ljóst að bygging fjölnota íþróttahúss yrði gífurleg lyftistöng fyrir þær íþróttagreinar sem eru háðar veðri og vindum og gjalda þess í stuttu keppnistímabili og lakari árangri. Íþróttalífið á Íslandi geldur almennt fyrir aðstöðuleysi."
Ef lesið er á milli línanna er ljóst að Ellert telur aðstöðuna í Laugardalshöll óboðlega fyrir keppnisfólk og áhorfendur.
,,Það er von mín að umræðan að undanförnu hafi vakið menn til vitundar um ágæti málsins og brýna þörf á boðlegum mannvirkjum. Það er góðs viti að borgaryfirvöld vilja kanna, í samráði við íþróttahreyfinguna, með hvaða hætti unnt er að reisa fjölnota íþróttahús. Það er ekki vonum fyrr," stóð í niðurlagi greinarinnar.
Ummæli
Skrifa ummæli