Í miðju stormviðrinu sem geisað hafði um staðsetningu og byggingu HM-hallarinnar reyndi þáverandi forseti IHF, Erwin Lanc, að höggva á hnút deiluaðila. Hann kom til landsins haustið 1990 til skrafs og ráðagerðar með ráðamönnum þjóðarinnar og forystumönnum handboltahreyfingarinnar hér á landi.
Um það leyti hafði Kópavogsbær ákveðið og staðfest með samningum að höllin yrði byggð á landi sveitarfélagsins, nánar tiltekið í Smáranum, íþróttasvæði Breiðabliks.
Ýmsar hugmyndir höfðu verið uppi um stærð og útlit væntanlegrar íþróttahallar en á fundi Lanc með forráðamönnum HSÍ og yfirvöldum í Kópavogi kom austurríkismaðurinn með tillögu um að Íslendingar ættu að líta til Spánar, nánar tiltekið til Granollers.
Ólympíuleikarnir í Barcelona, sem halda átti 1992, voru á næsta leyti og hafði Granollers sem er smáborg í Katalóníu verið valin sem einn keppnisstaðanna í handboltakeppni leikanna. Þar höfðu yfirvöld ákveðið með staðfestu að ráðast í byggingu íþróttahallar og lagði Lanc til að Íslendingar gætu stuðst við teikningar af höllinni og jafnvel fengið aðstoð frá fagaðilum sem komu að hönnun og byggingu hennar. Því var hafnað enda ljóst að höllin hefði kostað dágóðan skilding.
Hér fyrir neðan gefur að líta tvær myndir af þeirri höll sem Lanc vildi að Íslendingar byggðu í tengslum við HM95:
Ummæli
Skrifa ummæli