Fara í aðalinnihald

Laugardalshöll að daga uppi

Laugardalshöllin er að daga uppi sem ein elsta keppnishöll Evrópu ef rýnt er í síðustu undankeppnir í hand- og körfubolta. Það er staðreynd. Það er líka staðreynd að frá síðustu aldamótum hafa 62% Evrópuþjóða byggt nýjar þjóðarhallir yfir helstu knattgreinar innanhúss auk íshokkís.

Sé litið til byrjun tíunda áratugs síðustu aldar er prósentutalan 80%. Íslendingar tilheyra þeim 10% sem notast að staðaldri við hallir sem voru byggðar fyrir 1970.

Það er augljóst að tíma Laugardalshallarinnar sem alvöru keppnishöll á fyrir löngu að vera lokið. Því til rökstuðnings verður hér m.a. fjallað um lífsskeið íþróttahalla (arena life-span) og sú staðreynd skoðuð að með örari tækniþróun minnkar endingartími íþróttahalla.

Auk þess verður vitnað í tvo arkitekta varðandi endingartíma íþróttahalla og meistararitgerð frá Háskólanum í Lundi í Svíþjóð er skoðuð en hún tekur á hugtökunum efnahagslegu og tæknilegu lífsskeiði íþróttahalla.
Talað fyrir daufum eyrum
Landsliðsþjálfarar, landsliðsfyrirliðar, íþróttafréttamenn og forráðamenn innan hand- og körfuboltahreyfingarinnar hafa síðustu ár talað fyrir nauðsyn þess að byggð sé ný fjölnota íþróttahöll á Íslandi sem uppfyllir nútímakröfur og reglugerðir. En alltaf fyrir daufum eyrum.

Með réttu hefði ný fjölnota íþróttahöll átt að rísa hérlendis undir lok níunda eða í byrjun tíunda áratugs síðustu aldar, í takt við það sem var að gerast á á hinum Norðurlöndunum. Það gerðist ekki, þrátt fyrir að Íslendingar væru gestgjafar í Heimsmeistarakeppninni í handbolta 1995 .

Gísli Halldórsson, arkitekt Laugardalshallarinnar, skrifaði í endurminningum sínum: ,,Fyrir það fyrsta var höllin upphaflega teiknuð svolítið stærri en hún er og það endaði með því að fallist var á að minnka hana. Menn féllust á það vegna þess að allir töldu víst að eftir 20 ár yrði komin enn stærri höll.”

Sumsé, endingartími Laugardalshallarinnar var áætlaður tuttugu ár. Væntanlega var ein breytan í þeim áætlunum mannfjölgun þjóðarinnar en árið 1965 var íbúafjöldinn um 190 þúsund manns. Tuttugu árum síðar hafði þjóðinni fjölgað um 21% íbúa og í dag búa 330 þúsund manns á skerinu sem gerir um 43% fjölgun frá opnunarári Laugardalshallarinnar.

Ef við horfum lengra fram í tímann gerir hagstofan ráð fyrir því að íbúafjöldinn verði um 370 þús eftir 10 ár og 400 þús eftir 20 ár. Það auk sífellt strangari reglna og reglugerða um framkvæmd keppnisleikja á alþjóðavettvangi ætti að ýta við mönnum. Eða hvað?
Þunnskipaður hópur að þynnast út
Einungis 10% Evrópuþjóða spila keppnisleiki að staðaldri í höllum sem voru byggðar fyrir 1970. Auk okkar Íslendinga eru það Hollendingar, Úkraínumenn, Georgíumenn og Slóvakar en þrjár síðastnefndu þjóðirnar eru einu þjóðirnar sem notast oft við eldri keppnishallir en Íslendingar.

Tvær þessara þjóða hverfa brátt úr þessum hópi en Hollendingar og Úkraínumenn hafa ákveðið að reisa nýjar og glæsilegar keppnishallir innan fárra ára.

Tilfelli Hollendinga er að mörgu keimlíkt þeim aðstæðum sem Íslendingar glíma við varðandi Laugardalshöllina. Sumir hafa gengið svo langt að segja að höllin sé kolólöglegur keppnisstaður í alþjóðahandknattleik og reglugerðir styðja vissulega þær fullyrðingar. Því miður.

Hollendingar drógu lengi lappirnar í þessum efnum og nú er svo komið að þeir eru nauðbeygðir að skella keppnishöllinni Vijf Meihal í lás og byggja nýja. Vijf Meihal var byggð árið 1968 og því er löngu kominn tími á nýja höll segja kunnugir í Hollandi. Það þurfti hins vegar tilskipun frá FIBA um að höllin stæðist ekki lengur alþjóðlegar kröfur til að þeir appelsínugulu sæju að sér. Erum við næst?

Líklegt er að það þurfi tilskipanir frá IHF, EHF eða FIBA um ófullnægjandi ástand Laugardalshallarinnar til að hreyfa við mönnum. Það er alls óvíst hversu mikið þessir aðilar lengja í hengingarólinni en einum manni á vegum EHF var ekki skemmt á landsleik Íslendinga og Ísraela í handbolta árið 2014.

,,Eftirlitsmaður evrópska handknattleikssambandsins hafði út á ýmislegt að setja, t.a.m. klukkuna í Höllinni sem hikstaði öðrum megin og þrengsli þeim megin sem heiðursstúkan er,” stóð í Fréttablaðinu í kjölfar leiksins.

Þar var m.a. viðtal við Róbert Geir Gíslason, mótastjóra HSÍ, sem sagði Höllina hafa fengið algjöra falleinkun hjá eftirlitsmanninum. Lega keppnisgólfsins var til mikillar umræðu en vegna þrengsla sitthvorum megin við það var ógerlegt að hreyfa mikið við því nema með því að þrengja að annarri hliðinni.

Einar Þorvarðarson, framkvæmdarstjóri HSÍ, hafði þetta að segja um málið þá: ,,Höllin er bara barn síns tíma. Það eru orðnar meiri kröfur í kringum alþjóðlega leiki sem húsið ræður ekki við.”

Óljóst var hvort HSÍ myndi fá sektir eða aðra refsingu eftir leikinn en ljóst var að engum hlutaðeigandi var skemmt. ,,Svona er bara staðan á þessu húsi, það uppfyllir ekki nútímastaðla,” sagði Einar, talandi hreint út.
Samanburður við hin Norðurlöndin
Íslendingar eru miklir eftirbátar nágrannaþjóðanna í uppbyggingu stórra, fjölnota íþróttahalla en á sama tíma og Laugardalshöllin á einungis 16 ár í ellilífeyrisaldurinn hafa Danir verið duglegir að reisa stórar og veglegar íþróttahallir á síðustu árum þar sem hæst ber að nefna Jyske Bank Boxen, eða Boxið, sem var tekin í notkun árið 2010 og tekur 12.500 manns í sæti.

Enn glæsilegri höll var síðan vígð í þessum mánuði, þ.e. stórvirkið Royal Arena sem tekur 13.000 manns í sæti. Já, Danir ekki á flæðiskeri staddir með nútímaíþróttahallir.

Svíar hafa einnig verið duglegir að reisa glæisilegar íþróttahallir á undanförnum árum, reyndar hafa þær runnið nánast árlega af færibandi. Sú glæsilegasta er Malmö Arena, sem var tekin í notkun árið 2008 og inniheldur um 14 þúsund sæti.

Hins vegar er Ericsson Globen enn stærsta og glæsilegasta höllin þar í landi. Svíum þykir hún þó í eldri kantinum enda reist árið 1989, þó 24 árum yngri en Laugardalshöllin.

Í Noregi hefur Hákonarhöllin, Hakans Hall, elst nokkuð vel en hún var reist árið 1993. Hins vegar hafa Norðmenn ákveðið að reisa nýja og stórglæsilega fjölnota íþróttahöll í Þrándheimi í tengslum við EM í handbolta, 2020, en nokkrir leikir keppninnar munu fara fram í þeirri höll. Talað er um að þar sé á ferðinni ofurhöll en endanlegur fjöldi áhorfendasæta hefur ekki verið ákveðinn.

Finnar eru ekki handboltaþjóð en þeir elska íshokkí og körfubolta og hafa verið duglegir að finna þeim greinum griðland í glæsilegum höllum. Sú stærsta og glæsilegasta er Hartwall Arena í Helsinki sem tekur um 14.000 manns í sæti. Hún var reist árið 1997 en brátt mun ný höll líta dagsins nærri Ólympíuleikvanginum í tengslum við verkefni sem ber yfirskriftina Helsinki Garden.

Auðvitað eru Íslendingar mun minni þjóð en þessir nágrannar okkar en það breytir því ekki að Íslendingar hafa einungis átt eina alvöru keppnishöll í inniíþróttum og hún var reist árið 1965. Í dag er árið 2017.
,,Ófullnægjandi aðstaða”
Einar Þorvarðarson er einn þeirra sem hefur talað fyrir nýrri fjölnota íþróttahöll og fyrir 10 árum, löngu áður en eftirlitsdómarinn hristi hausinn í landsleik Íslands og Ísrael, lét hann hafa eftir sér í fjölmiðlum að tími aðgerða væri kominn.

,,Því miður er aðstaðan þar (í Laugardalshöllinni) ófullnægjandi. Því miður. Ég vil sjá miklu stærra keppnishús rísa og tel rétt að menn leiði hugann að því að byggja nýja þjóðarhöll sem geti að sjálfsögðu hýst fleiri íþróttagreinar en handknattleik. Það er ekki nóg að hafa þjóðarhöll sem tekur um 2.700 manns í sæti, “ sagði Einar í samtali við Morgunblaðið árið 2007.

Annar sem tjáð hefur sig opinberlega um bágt ástand Laugardalshallarinnar er Hólmgeir Einarsson sem unnið hefur ötult starf fyrir handboltahreyfinga undanfarna áratugi.

,,Mikið rosalega væri gaman að fá hér eina þjóðarhöll. Það er alveg ljóst  að við þurfum miklu stærri höll heldur en Laugardalshöllina. Það sést best á því að það selst alltaf upp á smátíma þegar góðir landsleikir fara fram. Ég held að handbolti á Íslandi  eigi það einfaldlega skilið þegar horft til þess að hve mikið hann hefur gert fyrir almenning á Íslandi. Ég tel ekki óraunhæft að reisa tíu þúsund manna höll til þess að geta tekið við  öllum áhorfendum sem vilja koma. Svo verður líka að horfa til þess að ef við ætlum að halda stórmót þarf eina svona stóra höll samkvæmt lögum frá alþjóðlega handknattleikssambandinu. Hér hefur lítið sem ekkert breyst í aðstöðu síðan 1995 ef undan eru skilin nokkur hús af millistærð. Ég er ekki í vafa um það að við myndum fylla tíu þúsund manna höll þegar landsliðið er að spila, sérstaklega þegar vel gengur,” sagði Hólmgeir í samtali við Dagblaðið Vísi árið 2007.
Færri komast að en fyrir 45 árum
Það skýtur skökku við að á sama tíma og þjóðinni fjölgar, þá rúmi Laugardalshöllin færri áhorfendur en fyrir 45 árum. Í frétt sem birtist í Morgunblaðinu árið 1971 er fjallað um mikla aðsókn á handboltaleiki í Laugardalshöllinni og hafi verið um 4000 áhorfendur á einum leikjanna. Í dag komast um 2700 áhorfendur fyrir í höllinni. Vissulega voru stæði til staðar í Höllinni á áttunda áratuginum en samt sem áður ætti þróunin í sætafjölda liggja upp á við en ekki niður á við. Hvað þá á 45 ára tímabili.

Búast má við því í komandi stórleikjum handboltalandsliðsins að margir munu sitja eftir með sárt ennið ef ekkert gerist í þessum aðstöðumálum. Sú staða kom upp í leiknum mikilvæga gegn Svíum í undankeppni HM í Laugardalshöll 17. júní, 2006. Þar vannst merkilegur sigur en að öllum líkindinum voru hinir almennir stuðningsmenn landsliðsins um 2000 ef frá eru taldir stuðningsaðilar og áhangendur sænska landsliðsins.

Í aðdraganda leiksins lét Einar Þorvarðarson hafa eftir sér í Morgunblaðinu: ,,Áhuginn er slíkur að ég held að Laugardalshöllin sé of lítil fyrir leikinn, við getum örugglega ekki selt öllum þeim aðgang að leiknum sem vilja sjá hann.”

Sama var upp á teningnum í umspilsleik gegn Serbíu ári síðar en líklegt má telja að hægt hefði verið að fylla 6 – 8 þúsund sæta höll á báðum þessum leikjum.
Við erum í djúpum skít
Ég ritaði pistil sem birtist á þessari síðu fyrir rúmu ári um handboltahöllina sem átti að rísa vegna HM á Íslandi árið 1995. Hún reis aldrei og maður spyr sig, ef ekki þá, þegar full ástæða var til, eru einhverjar líkur á því að það gerist innan fimm, tíu eða tuttugu ára? Til að það gerist sem allra fyrst þarf hugarfarsbreytingu hjá stjórnvöldum.

Eftir tuttugu ár verður 71 ár liðið frá byggingu Laugardalshallarinnar. Þá verða þjóðir sem byggðu nýjar hallir um aldamótin væntanlega byrjaðar að teikna upp og byggja nýrri hallir. Verður Laugardalshöllin þá enn í fullri notkun? Það að ég geti ekki svarað þessari spurningu segir allt sem segja þarf.

Í dag eru engar áætlanir uppi um nýja fjölnota íþróttahöll. Engar. Deiliskipulagsreitur sem var eyrnamerktur fjölnota íþróttahöll við hliðina á Laugardalshöllinni fór undir frjálsíþróttahöllinna. Hið besta mál og frábært að frjálsar íþróttir séu komnar með aðstöðu sem þær eiga skilið.

Hins vegar þurfum við að finna nýrri fjölnota íþróttahöll góðan stað. Ef ekki, er öruggt að við þurfum að reiða okkur á undanþágur næstu árin til að spila keppnisleiki í hand- og körfubolta á alþjóðasviðinu.

Það er stór og ísköld vatnsgusa framan í forkálfa HSÍ, KKÍ, landsliðsmenn, þjálfarateymi og stuðningsmenn.
Ör tækniþróun lækkar lífsskeið hallanna
Það hljómar kannski þversagnarkennt en með örari tækniþróun hefur lífsskeið íþróttahalla styst. Þegar Laugardalshöllin var tekin í notkun árið 1965 var meðalendingartími þess konar halla áætlaður um 50 ár eða fram til ársins 2015 í tilfelli Laugardalshallarinnar.

Þessi skilgreining er þó ekki alveg svona einföld því hér er einungis tekið með í reikninginn að tækniþróun standi í stað eða gerist mjög hægt og að íbúafjölgun verði á sama tíma engin eða mjög hæg. Þá eru ótalin þau atriði sem tekin voru út úr upprunalegri teikningu Laugardalshallarinnar.

Tækniþróunin hélst nokkuð stöðug í þessum efnum fram á síðari hluta níunda áratugarins. Hún var hæg og samkvæmt því var Laugardalshöllin í ágætis málum en vegna örar tækniþróunar sem byrjaði að eiga sér stað á tíunda áratuginum, var meðalendingartími nýrra halla þá áætlaður rúm 40 ár. Hallir sem voru þá orðnar 30 ára gamlar, líkt og Laugardalshöllin, voru úreltar. En með kostnaði og enduruppbyggingu náðist væntanlega að halda í skottið á tækniþróuninni í stutta stund en til lengri tíma litið var það ógerlegt.

Arkitektinn, Jon Niemuth, sem sérhæfir sig í hönnun íþróttahalla segir ekki hægt að bera saman hallir sem voru byggðar fyrir 20 – 30 árum saman við hallir sem eru byggðar í dag.

,,Almennt séð voru margar eldri íþróttahallir byggðar til að koma sem flestum fyrir í stað þess að búa til skemmtilegt og gott andrúmsloft fyrir áhorfendur. Nútímaíþróttahallir eiga það sammerkt að það er rýmra á flestum svæðum en í gömlu höllunum sem voru byggðar á tíunda áratugnum.

Takið eftir að Niemuth skilgreinir 20 – 30 ára hallir sem gamlar. Það er til marks um öra þróun í rekstri og notkun þeirra.

Samkvæmt þessari skilgreiningu ætti Laugardalshöllin að vera komin undir græna torfu. Blessuð sé minning hennar.

Annar arkitekt, Matt Rossetti, sem sérhæfir sig á þessu sviði segir nánast útilokað að hallir sem eru byggðar í dag endist jafn lengi og eldri hallir. Tækniþróunin eigi bara eftir að aukast.

,,Ég held að endingartími íþróttahalla sé í mesta lagi 35 ár,“ segir Rossetti. ,,Ég get ekki séð byggingarnar endast lengur en það. Tækniþróunin er svo ör og notkunarhefðin er sífellt að breytast.“

Þetta þýðir að ef Íslendingar myndu ráðst í byggingu meðalstórar hallar sem er útbúin mörgu af því besta sem býðst í dag myndi hún líklega endast okkur til ársins 2052. En einungis ef tækniþróunin stendur í stað og íbúafjölgunin er mjög hæg.

Hefði HM-höllin risið í upphafi tíunda áratugarins hefði hún dugað Íslendingum til ársins 2030 samkvæmt tækniþróuninni undir lok síðustu aldar. Hins vegar hefur sú öra tæknibylting sem orðið hefur á síðustu árum að öllum líkindum þýtt að hún væri þegar orðin úrelt.

Úrelding er stórt orð og skilgreiningin á úreldri íþróttahöll þýðir ekki að það eigi bara að loka henni og skella í lás. Þvert á móti en úrelding þýðir að tiltekin höll uppfyllir ekki lengur ýtrustu kröfur og er ekki lengur samanburðarhæf við aðrar og nýrri hallir.

Tækniþróunin er mesti skaðvaldur íþróttahalla og sumsstaðar er hún mun hraðari en annars staðar. Til að mynda í NBA deildinni í körfubolta í Bandaríkjunum þar sem ávallt er boðið upp á það besta og nýjasta í tækni og þróun í höllunum. Þar eru dæmi þess að hallir geti orðið úreltar á 15 árum en meðalendingartíminn er nú áætlaður í kringum 20 ár. Þar er litið á hallir sem voru byggðar á tíunda áratuginum sem fornar risaeðlur. Sem betur fer er hallarmenningin önnur í Evrópu.
Þú færð það sem þú borgar fyrir
Lífsskeið íþróttahalla er þó breytilegt en nokkrir nemendur í hagfræði við Háskólann í Lundi í Svíþjóð byggðu meistararitgerð sína m.a. á því að skoða hagkvæmni byggingu íþróttahallar í Kristianstad. Það var m.a. gert út frá áætluðum endingartíma hallarinnar.

Þeir ganga út frá því að lífsskeið íþróttahalla sé tvenns konar, þ.e. tæknilegt lífsskeið og fjárhagslegt lífsskeið. Hið síðara er sá tími eða tímabil þegar það er fjárhagslega hagstætt að halda fjárfestingunni gangandi (í þessu tilfelli íþróttahöllin í Kristianstad). Tæknilega lífsskeiðið lítur að byggingunni sjálfri, þ.e. hversu lengi er hægt að nýta fjárfestinguna þar til hún verður úrelt.

Nemendurnir notuðust við þau viðmið sem eru ríkjandi í þessum efnum um að meðallífsskeið nýrra íþróttahalla er 30 – 35 ár. Með það til hliðsjónar skoðuðu þeir áætlaðan endingartíma hallarinnar með tilliti til þess fjármagns sem lagt var í uppbyggingu hennar.

Hæsti útlagður byggingarkostnaður (200 sænskar milljónir) þýddi að höllin mun endast í 35 ár ef tækniþróun helst stöðug. Lækki byggingarkostnaðurinn niður í 50 milljónir styttist endingartíminn niður í 20 ár og lækki hann enn frekar eða í 10 milljónir má einungis búast við því að höllin endist með besta móti í 10 ár þar til hún verður orðin úrelt fyrirbæri.

Það er til umhugsunar hvort líkja megi þessu við byggingu Laugardalshallarinnar á sínum tíma en endanlegur byggingarkostnaður var lægri en áætlað var upphaflega vegna þess að það var sífellt verið að henda út ýmsum atriðum af upphaflegu teikningunni. Þar með var verið að lækka áætlaðan endingartíma hallarinnar.
Slysahætta
Slysahætta íþróttafólks er einn þeirra þátta sem fólk hefur miklar áhyggjur af í Laugardalshöllinni. Fyrir stuttu lá við stórslysi þegar Valsmaðurinn Ólafur Ægir Ólafsson skall með miklum þunga á óvörðum, steyptum stólpa fyrir aftan annað markið. Stólparnir sem eru nokkrir talsins, eru mjög nærri annarri endalínu vallarins.

Í dag er handbolti allt önnur íþrótt en hún var fyrir hálfri öld. Hraðinn er miklu meiri og eru hraðaupplaup stór þáttur leiksins í dag. Leikmenn æða oft fram völlinn á miklum hraða og fórna sér í hinum ýmsu aðstæðum. Það er ljóst að eftirlitsmaður á vegum IHF hefði verið þungur á brún hefði hann orðið vitni að þessu atviki. Hvað ef þetta hefði verið íslensk, dönsk eða frönsk stórstjarna í mikilvægum landsleik? Hverjar hefðu afleiðingarnar verið þá? Guði sé lof, þá voru meiðsli Ólafs ekki alvarleg og þó svo að stólparnir hafi verið bólstraðir eftir atvikið sýnir það glögglega hversu úrelt Laugardalshöllin er í raun og veru.

Einar Örn Jónsson, íþróttafréttamaður á RÚV og fyrrum landsliðsmaður í handbolta var vitni að atvikinu þar sem hann var að lýsa leiknum í beinni útsendingu og honum var ekki skemmt.

,,Ef menntamálaráðherra er að horfa, sem ég veit að hann er að gera þar sem hann er uppi í stúkunni. Þá er þetta ein af ástæðunum að Laugardalshöll er kol, kolólögleg sem keppnishöll. Þessi keppnishöll sem við Íslendingar höfum reyndar átt í rúm 50 ár er einfaldlega úr sér gengin og til skammar. Akkúrat svona atvik eru ástæðan fyrir því að kröfur til keppnishalla eru orðnar miklu, miklu meiri en á miðri síðustu öld þegar þessi höll var byggð. Þetta hús er einfaldlega úrelt og hættulegt fyrir afreksíþróttafólk. Það er hart að segja það en það er einfaldlega staðan. Þessu húsi þarf að loka,” sagði Einar og minntist síðan á annað dæmi sem gerðist fyrir fáeinum árum í Höllinni.

,,Fyrir tveimur árum fékk Ísak Rafnsson alvarlegt höfuðhögg hér í leik og það tók heila eilífð að koma honum í sjúkrabíl af því að sjúkraflutningamenn komust ekki með sínar græjur út úr höllinni.”
Tvinnum höll saman við völl
Norðan við Laugardalshöllina er vinna nú í fullum gangi varðandi framtíð Laugardalsvallarins. Loksins er það mál komið á fullt skrið og má búast við fréttum því tengdu innan nokkurra mánuða. Gott mál.

Eitt af því sem forráðamenn íþróttahreyfinga um gjörvallan heim einblína mest á í dag er heildin. Heild svæðis og heild mannvirkja. Hugtakið sport complex er runnið undan þessum rifjum og hefur rutt sér mjög til rúms síðustu ár.

Þar eru íþróttasvæðin, oft stærstu og verðmætustu svæðin, skipulögð með heildina í huga og mannvirki eru samtengd. Hönnunin og skipulagið gengur út á að samnýta þjónustu, bílastæði og fleira. Knattspyrnuvellir eru sambyggðir hand-, körfu-, eða ísknattleikshöllum; hallir tvinnaðar saman við velli. Þarna eru oft líka sundlaugar innan sömu heildar.

Nú er lag að setjast niður þegar deiliskipulagsvinnan við framtíð Laugardalsvallarins og svæðisins í kring fer á fullt skrið, að finna reit undir fjölnota íþróttahöll. Áætlað er að finna hóteli, skóla-, og þjónustubyggingum stað á svæðinu og hvers vegna ekki íþróttahöll.

Nú er lag að leggja Laugardalshöllinni til hliðar. Hún hefur þjónað sínu hlutverki vel en nú er kominn tími á að önnur og nýrri höll taki við keflinu.

Pistill um Laugardalshöllina sem ég skrifaði og birtist á Fimmeinn.is 1. mars, 2017.

Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Nýtt íþróttahús í Njarðvík?

Íþróttahúsið í Njarðvík, Ljónagryfjan svokallaða, er elsta keppnishúsið sem er í notkun í Domino‘s deild karla í körfuknattleik. Húsið var tekið í notkun árið 1973 og stendur við grunnskóla Njarðvíkur. Ef mið er tekið af íþróttahúsum sem byggð hafa verið hérlendis á síðasta áratug eða eru í byggingu er ljóst að mannvirkið er allt of lítið; ekki er nægilegt rými umhverfis keppnisgólfið og þá er takmörkuð aðstaða fyrir áhorfendur. Húsið er einfaldlega of lítið fyrir starfsemi félagsins. Vitaskuld er Ljónagryfjan fallegt og skemmtilegt íþróttahús og er það eitt af djásnum íslensks körfubolta en því miður er það ekki boðlegt lengur sem heimavöllur eins sigursælasta körfuknattleiksfélags landsins. ,,Ljónagryfjan" í Njarðvík. Skjáskot: Ja.is. Mikil íbúafjölgun Árið 1973 voru íbúar Njarðvíkur 1.700 en í dag búa yfir 6.000 manns í Njarðvíkurhluta Reykjanesbæjar. Fjölgun íbúa í Njarðvík nemur því um 250% á tímabilinu og er ljóst að þörf er á aðgerðum af hálfu bæjaryfirvalda sem

Nýtt körfuboltahús Hauka, Ólafssalur

Körfuknattleikslið Hauka mun spila á nýjum heimavelli á komandi leiktíð Domino's deildar karla og kvenna. Um er að ræða sérhæft körfuknattleikshús sem mun nær eingöngu þjónusta körfuknattleiksdeild Hauka. Um er að ræða einstakt hús á íslenska vísu og verður fróðlegt að fylgjast með því hvort önnur félög fylgi í kjölfarið. Keppnissalurinn er sérhannaður fyrir körfubolta og stúkan mun rúma 1100 manns en samkvæmt fréttum geta allt að 2.000 manns komist fyrir með því að raða fólki þétt á svölunum. Engin hefðbundin leikklukka verður í húsinu heldur verður stöðu, tíma og stigaskori varpað upp á LED skjái í sitthvorum enda vallarins. Meðfylgjandi myndir voru teknar af Erni Eyjólfssyni, ljósmyndara Fréttablaðsins, og birtist í frétt blaðsins um íþróttamannvirkið síðastliðið vor. Þá var áhorfendaaðstaðan ekki komin til landsins en hún ætti að vera kominn upp fyrir upphaf körfuknattleikstímabilsins í haust. Mynd: Örn Eyjólfsson, Fréttablaðið. Mynd: Örn Eyjólfsson, F

Landsliðsmenn um Laugardalshöll árið 1994: ,,á engan hátt samboðin þeirri reisn sem við viljum að íslenskur handknattleikur standi fyrir."

Íslenskir handboltalandsliðsmenn töldu sig illa svikna þegar ljóst var að ný keppnishöll myndi ekki rísa fyrir HM 95. Að þeirra mati var Laugardalshöllin úrelt bygging og engan veginn í stakk búin til að hýsa stórleiki á heimsmeistaramóti sem og aðra leiki að því loknu. Auðvitað var þessi höll þeim öllum kær en að þeirra mati áttu tilfinningar ekki að ráða för í þessu máli. Í júlí 1994, rúmum tíu mánuðum fyrir setningu heimsmeistaramótsins, sendu landsliðsmennirnir aðsenda grein í Morgunblaðið undir yfirskriftinni ,,Við gerum okkar besta - en ..." þar sem framtaksleysi stjórnvalda var harðlega gagnrýnt. ,,V ið höfum allir átt ógleymanlegar stundir í Laugardalshöllinni og margir af stærstu sigrum íslenska landsliðsins hafa einmitt verið þar. Hins vegar verður að viðurkennast að þessi 30 ára gamla bygging er barn síns tíma og á engan hátt samboðin þeirri reisn sem við viljum að íslenskur handknattleikur standi fyrir ," stóð m.a. í greininni. ,,Þ að er hins vegar alveg lj