Þegar íslensk stjórnvöld höfðu skrifað undir viljayfirlýsingu þess efnis að byggð yrði ný fjölnota íþróttahöll í tengslum við Heimsmeistarakeppnina í handbolta fór strax í gang vinna við frumdrög að væntanlegri byggingu.
Það var Teiknistofan hf., sem sá um hönnunina en hún var að miklu leyti byggð á fjölnota íþróttahöll sem staðsett var í Osaka í Japan. Höllin var reist árið 1983 og bar heitið Osaka-Jo Hall.
Jón Hjaltalín Magnússon, þáverandi formaður HSÍ, hafði meðal annars gert sér ferð til Japans árið 1988, þar sem hann virti höllina fyrir sér ásamt öðrum aðilum innan handknattleikssambands Íslands.
Samkvæmt teikningum var gert ráð fyrir að höllin yrði 7.500 fermetrar að stærð og átti hún að rúma 8.000 manns í sæti. Í húsinu átti einnig að vera rými fyrir ráðstefnur og sýningar. Ráðgert var að höllin yrði reist við hliðina á Laugardalshöllinni á þeim stað sem frjálsíþróttahöllin er í dag.
Það er ljóst að um var að ræða nokkuð volduga byggingu; hringlaga og fyrirferðarmikla. Mannvirki sem stæði upp úr hvað stærð varðar á svæðinu. Teiknuð yfirlitsmynd af Laugardalshöllinni þar við hlið var sem loftmynd af Eyjafjallajökli við hliðina á Mýrdalsjökli og Kötlu. Séð á hlið líktist fyrirhugð höll reyndar Kötlu. Þannig að samlíkingin á alveg rétt á sér.
Hins vegar gerðu kostnaðaráætlanir ráð fyrir því að það tæki um 3 milljarða króna (á núvirði) að reisa hana, þannig að ljóst var nokkuð fljótlega að hugmyndin um þessa miklu höll yrði aldrei neitt annað en fallegt riss á blaði.
Innanhús var gert ráð fyrir að byggingin yrði rúmgóð og ljóst að hún hefði orðið veglegur og verðugur vettvangur úrslitaleiks HM 95. Mikið var lagt upp úr útli hennar og er ljóst að hún hefði sómað sér vel við hlið litlu Laugardalshallarinnar.
Fyrirmyndin, Osaka-Jo Hall, er mikið notuð undir tónleikahald í dag en alls geta 16 þúsund áhorfendur komist fyrir á tónleikum þar inni. Hún er vinsæll vettvangur stórra hljómsveita sem eru þar tíðir gestir.
Þegar horfið var frá áformunum um þessa hringlaga höll í Laugardalnum, urðu hugmyndirnar um HM-höllina lágstemmdari. Þess í stað var horfið til hins venjubundna kassalaga forms og menn voru tilbúnir að fórna glæsileikanum fyrir hógværar hugmyndir.
Ummæli
Skrifa ummæli