Það vakti nokkra athygli þegar nýráðinn landsliðsþjálfari Íslands í handknattleik, Geir Sveinsson, lét hafa eftir sér í viðtali á þessum miðli að íslenska landsliðinu vantaði heimavöll. Aðgengi landsliðsins að Laugardalshöllinni, sem á að heita höfuðvígi landsliðsins, er af mjög skornum skammti og má því miður segja að þetta flaggskipp íslenskra íþrótta hafi verið þar hornreka.
Guðjón Valur Sigurðsson, fyrirliði landsliðsins, tók enn dýpra í árinni í viðtali við Morgunblaðið á síðasta ári þar sem hann sagði að Höllin væri einfaldlega ólöglegur keppnistaður í alþjóðahandknattleik. Samkvæmt reglugerðum er hún það og spurning hversu lengi hún fær að vera á undanþágu.
Það er löngu vitað mál að hér þarf að byggja fjölnota íþróttahöll sem rúmar að minnsta kosti 8.000 manns í sæti. Það grátlega við þetta allt saman er að fyrir rúmum 25 árum gafst Íslendingum fullkomið tækifæri á því að reisa þess konar byggingu í tengslum við HM 95 í handbolta en líkt og með svo margt annað hérlendis fór það forgörðum vegna pólitísks viðvaningsháttar og fælni við ákvörðunartöku. Hefði það hús risið væri þessi árlega umræða óþörf og íslenskar inniíþróttir væru með sinn réttmæta heimavöll.
Hún þarf ekki að vera stór því eftir 20 ár byggjum við stærri
Laugardalshöllin er glæsilegt mannvirki og er prýði borgarinnar en hún er barn síns tíma. Áhorfendapallar eru alltof nálægt vellinum og hún rúmar ekki alla þá áhorfendur sem hafa áhuga á að styðja íslensku inniíþróttalandsliðin í mikilvægum stórleikjum.
Gísli Halldórsson arkitekt, teiknaði Laugardalshöllina, en upphaflega var gert ráð fyrir stærri byggingu en þeirri sem á endanum reis árið 1965.
,,Fyrir það fyrsta var höllin upphaflega teiknuð svolítið stærri en hún er og það endaði með því að fallist var á að minnka hana. Menn féllust á það vegna þess að allir töldu víst að eftir 20 ár yrði komin enn stærri höll,” segir Gísli í endurminningum sínum.
Svona átti Laugardalshöllin að líta út í fyrstu. Mynd sem birtist í Lesbók Morgunblaðsins árið 1960.
Rúmum tuttugu árum síðar virtist sem Gísli yrði sannspár en árið 1987 samþykktu forystumenn HSÍ með samþykki ríkisstjórnarinnar að sækja um að halda Heimsmeistarakeppnina í handbolta 1994.
Fljótlega kom í ljós að sá draumur var ekki eins fjarlægur og margir héldu í fyrstu vegna þess hversu fáar þjóðir sóttust eftir því að halda keppnina. Einungis Svíar sýndu keppninni jafnmikinn áhuga og hófst þá kapphlaup þessara tveggja þjóða um að sanna ágæti sitt frammi fyrir alþjóða handknattleikssambandinu, IHF.
Svíar töngluðust á þeirri staðreynd að mannvirki og innviðir handboltans á Íslandi væru of fábrotnir fyrir keppni af þessari stærðargráðu. Hins vegar væri nóg til af íþróttahöllum í Svíþjóð sem uppfylltu öll skilyrði.
Mótbragð íslensku undirbúningsnefndarinnar var að benda á þá staðreynd að Svíar höfðu á þessum tíma þegar haldið tvær heimsmeistarakeppnir. En Svíar sátu við sinn keip og héldu áfram að benda á litlu, íslensku handboltakofana sem væru til lítils gagns.
Davíð gaf grænt ljós en vildi síðan ekki byggja
Íslendingar dóu þó ekki ráðalausir og voru með annað mótbragð upp í erminni. Gengið var á fund menntamálaráðherra. Niðurstaðan varð sú að menntamálaráðaneytið sendi HSÍ skriflega yfirlýsingu þess efnis að áætlað var að byggja íþróttahöll í Reykjavík, sem gæti rúmað 8.000 þúsund áhorfendur og yrði tilbúin fyrir keppnina.
Þáverandi borgarstjóri Reykjavíkur, Davíð Oddsson, gaf síðan grænt ljós á að láta teikna og birta drög af höllinni í kynningarbæklingi fyrir umsókn Íslands. Þó var einn galli á gjöf Njarðar því Davíð lagði mikla áherslu á það að þó hann hafði samþykkt að teikning af húsinu yrði birt í bæklinginum væri borgin ekki á neinn hátt skuldbundin til að reisa það. Ótrúlegt en satt.
Áætlanir gerðu ráð fyrir að fjölnota íþróttahöllin myndi rísa á þeim stað þar sem frjálsíþróttahöllin reis á síðasta áratug.
Teikning af húsinu birtist síðan í bæklinginum þar sem umsókn Íslands var ítrekuð og rituðu m.a. frú Vigdís Finnbogadóttir, þáverandi forseti Íslands, og Davíð Oddsson þar nokkur orð. Öllu var til tjaldað. Ákvörðun um hvor þjóðin myndi hreppa hnossið átti síðan að liggja fyrir á þingi IHF í Seúl 1988.
Hins vegar var ákveðið að breyta fyrirkomulagi keppninnar og í stað þess að HM færi fram árið 1994 var ákveðið að halda keppnina með tveggja ára millibili; 1993 og 1995. Hlutkesti var látið ráða því hvor þjóðin myndi halda hvora keppni. Fór svo að lokum að Svíþjóð vann hlutkestið og keppnina 1993. HM 95 yrði síðan haldið á Íslandi undir þeim formerkjum að úrslitaleikur keppninnar yrði spilaður í höll sem rúmaði að minnsta kosti 7.000 áhorfendur í sæti. Á Íslandi var nýrri þjóðarhöll fagnað.
Hér má sjá hvernig áætlað var að margnýta þjóðarhöllina í Laugardalnum.
Reykjavík out – Kópavogur in
Hins vegar varð fljótlega ljóst að höllin myndi ekki rísa þegjandi og hljóðalaust, þrátt fyrir ríkisstjórnarsamþykkt og undirritanir ráðherra. Og þó svo að Davíð Oddsson hafi ljáð málinu lið í kynningarbæklinginum var hann ekki á þeim buxunum að reisa einhverja þjóðarhöll innan borgarmarkanna og lýsti því yfir að það væru einungis fífl sem byggðu 7.000 manna höll yfir einn handboltaleik. Svo mikil var framsýnin á þeim bænum.
Árið 1989 ríkti fullkomin óvissa kringum nýja þjóðarhöll. Reykjavík hafði gengið úr skaftinu og var hófana leitað annarsstaðar. Kópavogur og Hafnarfjörður lýstu yfir áhuga á málinu og eftir nokkrar viðræður var ákveðið að ganga til samninga við Kópavogsbæ. Samningar voru undirritaðir í byrjun árs 1990 og mátti greina nokkur skot á forsvarsmenn Reykjavíkurborgar í fyrirsögnum blaðanna. ,,Handboltamusterið byggt í Kópavogi,” stóð meðal annars í fyrirsögn í frétt Tímans um málið.
Handknattleiksforystan andaði léttar en þrátt fyrir undirritun samninga var málinu fjarri því að vera lokið. Sveitastjórnarkosningar fóru fram þá um vorið og komust nýjir aðilar til valda í Kópavogsbæ. Eitt af kosningaloforðum þeirra var að samningarnir um byggingu þjóðarhallarinnar yrðu endurskoðaðir kæmust þeir til valda.
Mynd sem birtist í Tímanum.
Þá um haustið kom forseti IHF, Erwin Lanc, til Íslands til viðræðna við HSÍ og Kópavogsbæ. Þar létu forsvarsmenn Kópavogs í ljós óánægju sína með teikningar af fyrirhugaðri handboltahöll sem byggju á óljósum hugmyndum og röngum forsendum.
Líkan af fyrirhugaðri Þjóðarhöll í Kópavogi.
,,Það kom í ljós í samtölum við forseta IHF að forsendur varðandi sætabreidd, heiðursstúku, aðstöðu fyrir blaðamenn og fleira gera það að verkum að sú höllin sem teiknuð hefur verið, tekur ekki nema 5.500 manns. Þeir gera kröfu um að höllin taki lágmark 7.000 manns, en upphaflega var reyndar miðað við 8.000 manns. Það er furðulegt hvernig hægt er að hanna heilt hús án þess að hafa kröfurnar hvernig það á að vera. Það var kannski ekki von á meiru af teikningu sem hróflað var upp á hálfum mánuði,“ sagði Sigurður Geirdal, þáverandi bæjarstjóri í Kópavogi, í samtali við Tímann 7. september 1990. Sigurður sagði ennfremur að miðað við nýjar forsendur myndi kostnaður við byggingu hallarinnar aukast um mörg hundruð milljónir.
Grunnmynd af Þjóðarhöllinni í Kópavogi.
Jón Hjaltalín Magnússon, þáverandi formaður HSÍ, gaf lítið fyrir þessar yfirlýsingar Sigurðar. „Teikningarnar sem við skoðuðum gera ráð fyrir 7.000 manns í sætum sem er fullnægjandi að því leyti að þau eru í sama gæðaflokki og þau sem sett hafa verið upp hér að undanförnu, þ.e. á vellinum í Kaplakrika og í Garðabæ. Ef Kópavogsbær vill byggja hús með bólstruðum, stórum og þægilegum sætum þá er það þeirra mál en Handknattleikssambandið og IHF gera engar kröfur um gerð eða gæði sætanna,” sagði Jón í samtali við Þjóðviljann.
Flugskýlið á Keflavíkurflugvelli og Electroluxhöllin
Enn á ný var framtíð þjóðarhallarinnar í hættu og eiginlega ljóst hvert stefndi. Það var síðan í lok ársins 1991 að Kópavogsbær sló handboltahöllina út af borðinu.
Þá voru góð ráð dýr. Þrjú ár höfðu liðið frá samþykki IHF fyrir því að Ísland fengi að halda HM 95 með því skilyrði að reist yrði handboltahöll sem stæðist allar kröfur og þrjú ár voru til stefnu áður en mótið hæfist.
Í kjölfarið komu fram hinar ýmsu hugmyndir um hvar úrslitaleikur HM 95 gæti farið fram. Stuttu eftir að Kópavogsbær gaf málið frá sér kom fram sú nýstárlega hugmynd að allir leikir heimsmeistaramótsins yrðu spilaðir í stóru flugskýli sem nýlega hafði risið á Keflavíkurflugvelli.
„Auðvitað viljum við byggja sem flest íþróttahús þannig að við höfum ekki viljað hafa hátt um þessa hugmynd okkar. Ef það er hins vegar komið í strand að byggja handboltahöll fyrir heimsmeistaramótið þá má vel hugsa sér að nýja flugskýlið á Keflavíkurflugvelli yrði nýtt undir keppnina. Þar mætti þess vegna koma fyrir mörgum átta þúsund manna völlum fyrir lítinn pening,“ segir Jóhann Bergþórsson, forstjóri Hagvirkis í nóvember 1991.
Einar Sigurðsson, blaðafulltrúi Flugleiða, sagði að þar á bæ myndu menn skoða málið.
„Innan Flugleiða hefur ekki verið rætt af neinni alvöru um flugskýlið sem handboltahöll. Vafalítið myndu menn hér þó ljá hugmyndinni eyra væri hún borin undir okkur. Skýlið er hins vegar byggt með það fyrir augum að þar fari fram flugvélaviðgerðir og árið 1995 á starfsemin þar að vera komin í fullan gang. Það yrði ekkert lítið mál að stöðva starfsemina þar og leigja húsnæðið undir eitthvað annað, hvort heldur það væri undir fjöldasöng eða handbolta. Þetta er það dýr fjárfesting að menn fara ekkert að leika sér með hana,“ segir Einar Sigurðsson, blaðafulltrúi Flugleiða.
Á þessum tíma risu knattspyrnuhallir úr stálgrindum eins og gorkúlur á Norðurlöndunum og í frétt sem birtist í Alþýðublaðinu 28. nóvember 1991, bauðst umbjóðandi stærsta framleiðanda stálgrindarhúsa í heiminum, Butler, að reisa fjölnota íþróttahöll fyrir 168 milljónir króna. Hins vegar var lítið um svör.
Árin liðu án þess að nokkuð gerðist og 1994 þegar eitt ár var til stefnu var enn óljóst hvar úrslitaleikur HM myndi fara fram. Ísland varð að nokkurs konar aðhlátursefni í útlöndum. Ekki var við HSÍ að sakast sem reyndi eftir fremsta megni að ná ásættanlegri lendingu í málinu.
Í júlí 1994 dró smá frá sólu þegar sænska alþjóðafyrirtækið Electrolux hóf viðræður við Reykjavíkurborg um þátttöku fyrirtækisins í byggingu fjölnota íþróttahallar. Menn á vegum Electrolux ferðuðust þrisvar til landsins það ár og funduðu meðal annars með forseta ÍSÍ, borgarverkfræðingi og framkvæmdastjóra íþrótta- og tómstundaráðs Reykjavíkurborgar. Í kjölfar fundanna sendi Mads Johanson, forstjóri Electrolux, ÍSÍ bréf sem birtist í Dagblaðinu Vísi, þann 27. júlí 1994, þar sem lagt var til að; ,,ÍSÍ, HSÍ, Electrolux og aðrir aðilar sem kynnu að hafa áhuga hefðu með sér samvinnu um fjármögnun og starfrækslu fyrirhugaðs fjölnota íþróttahúss í samvinnu við Reykjavíkurborg.”
Auk þess staðfesti Johanson vilja Electrolux um að gerast stór hluthafi í framkvæmdinni. Samkvæmt upplýsingum DV á þessum tíma voru forráðamenn Electrolux þess fullvissir um að fjárfestingin myndi borga sig.
Einhvers misskilings gætti í viðræðum borgaryfirvalda við forráðamenn Electrolux og gengu tilboð á víxl. Reykjavíkurborg skildist sem svo að Electrolux myndi reisa höllina og gerast einhliða rekstraraðili en hugmyndir Electrolux gengu út á það að Reykjavíkurborg myndi leigja húsið til 10 – 15 ára og eignast það síðan að fullu.
Svo fór að lokum að Reykjavíkurborg hafnaði tilboði Electrolux.
Þarna kemur hið dyntótta pólitíska brölt í ljós en rúmum níu árum síðar, árið 2003, samþykkti Reykjavíkurborg byggingu frjálsíþróttahallarinnar á sama stað og fyrirhuguð fjölnota íþróttahöll á átti að rísa. Framkvæmdirnar voru samstarfsverkefni Reykjavíkurborgar og Samtaka atvinnulífsins en hlutafélag var stofnað um verkefnið. Í samningnum var gert ráð fyrir að borgin myndi eignast mannvirkið eftir 30 ár. Heildarkostnaðar við framkvæmdirnar var um 1,4 milljarður króna en inn í þeim kostnaði voru einnig endurbætur á gömlu Laugardalshöllinni.
Ókei, Reykjavík sér þá bara um þetta
Haustið 1994 náðist að lokum samkomulag um undanþágu við IHF þess efnis að úrslitaleikur HM yrði leikinn í stækkaðri Laugardalshöll. Stækkunin var þó lítilsháttar en byggingu 500m2 viðbyggingar við höllina var lokið í mars 1995. Þar var komið upp tímabundinni áhorfendaaðstöðu sem yrði hins vegar ekki nýtt til framtíðarnota.
Rúmum fimm árum eftir Heimsmeistarakeppnina 1995 reis fyrsta knattspyrnuhöllin á Íslandi, í Reykjanesbæ. Tveimur árum seinna og 10 árum eftir að Kópavogsbær gaf þjóðarhöllina frá sér, reis Fífan í Kópavogi fyrir rúmar 400 milljónir króna. Kórinn reis árið 2007 og kostuðu framkvæmdir um 1,6 milljarða króna. Kópavogsbær reisti því knattspyrnuhallir fyrir rúma tvo milljarða á síðasta áratug og í frétt sem birtist í Morgunblaðinu 2008 kom fram að um 10 milljarðar hefðu verið eyrnamerktir til uppbyggingu íþróttamannvirkja í bænum frá 2002 til 2010.
Í dag eru knattspyrnuhallir, svipaðar þeim fjölnota íþróttahöllum sem Electrolux bauðst til að reisa, nánast út um allt land. Það má því segja að HM á Íslandi hafi farið fram nokkrum árum of snemma.
Ætli það sé ekki best að enda þetta með því að endurtaka orð Gísla Halldórssonar, arkitekts Laugardalshallarinnar, í endurminningum sínum. Þar minntist hann þess að árið 1968 hafi menn búist við því að Laugardalshöllinni yrði skipt út fyrir stærri höll eftir tveggja áratuga notkun. ,,Fyrir það fyrsta var höllin upphaflega teiknuð svolítið stærri en hún er og það endaði með því að fallist var á að minnka hana. Menn féllust á það vegna þess að allir töldu víst að eftir 20 ár yrði komin enn stærri höll.”
Síðan er liðin hálf öld.
Pistill sem ég skrifaði og birtist á Fimmeinn 19. apríl 2016.
Pistill sem ég skrifaði og birtist á Fimmeinn 19. apríl 2016.
Ummæli
Skrifa ummæli