Fara í aðalinnihald

Að taka Laugardal sem gefnum hlut

Laugardalur er helsta íþróttasvæði okkar Íslendinga. Þar eru og verða staðsettir þjóðarleikvangar ýmissa íþróttagreina í framtíðinni. Svæðið á eftir að þróast og fjallaði mastersritgerð mín í Skipulagsfræði m.a. um fýsilegustu staðsetningu nýs þjóðarleikvangs innanhússíþrótta í dalnum.

Hins vegar finnst mér stundum við Íslendingar taka þessu stórkostlega svæði sem gefnum hlut. Ég skal bara benda ykkur á staðreyndir málsins í mjög stuttu máli. Það er ekki gefinn hlutur að finna stór og rótgróin íþróttasvæði inni í miðjum borgum og hvað þá höfuðborgum.

Oft á tíðum dreifast þjóðarleikvangar um borgirnar, m.a. í viðleitni yfirvalda til þess að styrkja ákveðin hverfi. Íþróttamannvirki geta meðal annars stuðlað að styrkingu hverfa eða ákveðinna borgarhluta og eru þau oft notuð sem liður borgaryfirvalda í enduruppbyggingu niðurnídda hverfa sem byggja á upp. Það er annað mál.

Staðreynd málsins er einfaldlega sú að við erum svo ótrúlega heppin að eiga íþróttasvæði inni í miðri borg, umlukið gróðri og ýmiskonar þjónustu. Þetta svæði mun halda áfram að þróast og einn liður í því að mínu mati er að stækka það til suðurs meðfram Suðurlandsbrautinni, líkt og ég hef áður fjallað um.

Til að sýna fram á gæfu okkar Íslendinga í þessum málum skulum við bera saman fjarlægðina milli þjóðarleikvangs fyrir knattspyrnu og þjóðarleikvangs innanhúsíþrótta í Reykjavík annars vegar og í öðrum norrænum höfuðborgum hins vegar.

Í Reykjavík er fjarlægðin milli Laugardalsvallar og Laugardalshallarinnar um 250 metrar enda bæði íþróttamannvirkin staðsett í Laugardalnum.
Loftmynd: Google Earth.
Fjarlægðin milli þessara tveggja íþróttamannvirkja (Olympiastadion og Hartwall Areena) er næststyst í Helsinki í Finnlandi en þar er hún um 1,9 kílómetrar.

Finnar og Helsinki-búar eru reyndar þeirrar gæfu aðnjótandi, líkt og við Íslendingar, að búa yfir svæði þar sem þyrping þjóðarleikvanga hefur myndast, m.a. í tengslum við sumarólympíuleikana sem fóru fram í Helsinki árið 1952.

Það skýtur hins vegar dálítið skökku við að Hartwall Areena nýr þjóðarleikvangur fyrir innanhúsíþróttir, sem var reistur í Helsinki árið 1997, skildi vera staðsettur rétt norðan við þetta rótgróna íþróttasvæði. Og það í nánd við mislæg gatnamót, á eyju milli fjölmargra járnbrautarteina. Finnum til varnar er þó hægt að taka það með í reikninginn að hið rótgróna þjóðaríþróttasvæði þeirra er nánast fullbyggt.
Loftmynd: Google Earth.
Í Osló í Noregi er fjarlægðin Ullevaal (þjóðarleikvangsins fyrir knattspyrnu) og Oslo Spektrum (þjóðarleikvang innanhússíþrótta) um fjórir kílómetrar og þar mitt á milli er Bislett Stadion (þjóðarleikvangurinn í frjálsum íþróttum).

Þar er ekkert þjóðaríþróttasvæði heldur dreifast þessi íþróttamannvirki um alla borg. Ullevaal Stadion er í norðurjaðri borgarinnar en Oslo Spektrum er staðsett í miðborginni en hún er eina þjóðarhöllin á Norðurlöndum sem er staðsett í rótgróinni miðborg. Það væri eins og Laugardalshöllin væri staðsett við hliðina á Hörpunni í miðborg Reykjavíkur. 
Loftmynd: Google Earth.
Telia Parken í Kaupmannahafn (þjóðarleikvangur Dana fyrir knattspyrnu) er staðsettur í nánd við miðborgina en rúmir 8,4 kílómetrar skilja leikvanginn og nýja þjóðarhöll danskra innanhúsíþrótta, Royal Arena, að.

Við Parken er rúmgott svæði þar sem hæglega væri hægt að koma stórri íþróttahöll fyrir og skapa þannig vísi að þyrpingu þjóðarleikvanga. Royal Arena var hins vegar reist í útjaðri suðurhluta borgarinnar í engum tengslum við önnur íþróttamannvirki.
Loftmynd: Google Earth.
 Fjarlægðin milli þjóðarleikvangs fyrir knattspyrnu og þjóðarleikvang innanhússíþrótta er lengst í Stokkhólmi eða um 9,8 kílómetrar.

Globen, eitt þekktasta íþróttamannvirki Norðurlanda, er staðsett í þyrpingu íþróttamannvirkja sunnan við miðborgina en Rasunda Stadium, gamli þjóðarleikvangurinn fyrir knattspyrnu, var staðsettur talsvert norðan við miðborgina og því talsverð fjarlægð þar á milli.

Þegar staðsetning nýs þjóðarleikvangs fyrir knattspyrnu var í skoðun kom til greina að reisa nýjan völl í nánd við Globen, á þeim stað sem Tele2 Arena er nú, en fljótlega var horfið frá því.

Þess í stað var ákveðið að reisa Friends Arena nálægt þeim stað sem Rasunda var staðsettur á, en örlítið norðar. Þar er leikvangurinn nálægt höfuðstöðvum sænska knattspyrnusambandsins auk þess sem stór lestarstöð er í grenndinni. Sem er mjög hentugt með tilliti til ferjunar áhorfenda til og frá leikvanginum.

Loftmynd:Google Earth.



Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Nýtt íþróttahús í Njarðvík?

Íþróttahúsið í Njarðvík, Ljónagryfjan svokallaða, er elsta keppnishúsið sem er í notkun í Domino‘s deild karla í körfuknattleik. Húsið var tekið í notkun árið 1973 og stendur við grunnskóla Njarðvíkur. Ef mið er tekið af íþróttahúsum sem byggð hafa verið hérlendis á síðasta áratug eða eru í byggingu er ljóst að mannvirkið er allt of lítið; ekki er nægilegt rými umhverfis keppnisgólfið og þá er takmörkuð aðstaða fyrir áhorfendur. Húsið er einfaldlega of lítið fyrir starfsemi félagsins. Vitaskuld er Ljónagryfjan fallegt og skemmtilegt íþróttahús og er það eitt af djásnum íslensks körfubolta en því miður er það ekki boðlegt lengur sem heimavöllur eins sigursælasta körfuknattleiksfélags landsins. ,,Ljónagryfjan" í Njarðvík. Skjáskot: Ja.is. Mikil íbúafjölgun Árið 1973 voru íbúar Njarðvíkur 1.700 en í dag búa yfir 6.000 manns í Njarðvíkurhluta Reykjanesbæjar. Fjölgun íbúa í Njarðvík nemur því um 250% á tímabilinu og er ljóst að þörf er á aðgerðum af hálfu bæjaryfirvalda sem ...

Nýtt körfuboltahús Hauka, Ólafssalur

Körfuknattleikslið Hauka mun spila á nýjum heimavelli á komandi leiktíð Domino's deildar karla og kvenna. Um er að ræða sérhæft körfuknattleikshús sem mun nær eingöngu þjónusta körfuknattleiksdeild Hauka. Um er að ræða einstakt hús á íslenska vísu og verður fróðlegt að fylgjast með því hvort önnur félög fylgi í kjölfarið. Keppnissalurinn er sérhannaður fyrir körfubolta og stúkan mun rúma 1100 manns en samkvæmt fréttum geta allt að 2.000 manns komist fyrir með því að raða fólki þétt á svölunum. Engin hefðbundin leikklukka verður í húsinu heldur verður stöðu, tíma og stigaskori varpað upp á LED skjái í sitthvorum enda vallarins. Meðfylgjandi myndir voru teknar af Erni Eyjólfssyni, ljósmyndara Fréttablaðsins, og birtist í frétt blaðsins um íþróttamannvirkið síðastliðið vor. Þá var áhorfendaaðstaðan ekki komin til landsins en hún ætti að vera kominn upp fyrir upphaf körfuknattleikstímabilsins í haust. Mynd: Örn Eyjólfsson, Fréttablaðið. Mynd: Örn Eyjólfsson, F...

Hin svokallaða æskulýðshöll

Áður en byrjað var að slá upp fyrir sökklum Laugardalshallarinnar á sjöunda áratuginum hafði önnur íþróttahöll verið í pípunum um nokkurt skeið í Reykjavík, hin svokallaða æskulýðshöll. Frá upphafi fimmta áratugarins heyrðust með jöfnu millibili háværar óskir um þessa höll enda voru húsnæðismál inniíþróttagreina í miklum lamasessi í borginni. Æskulýðshöllin átti að gjörbylta aðstöðumálum inniíþrótta í borginni en hún átti m.a. að hýsa skautasal þar sem rými var fyrir 3000 áhorfendur auk annars minni íþróttasalar sem rúma átti 500 manns í sæti. Auk þess átti kvikmyndahús að vera samtengt íþróttahöllinni. Ekkert varð þó úr þessum áætlunum og má segja að Reykvíkingar hafi þurft að búa við bágan kost í húsnæðismálum inniíþróttagreina þar til Laugardalshöllin reis árið 1965. Gísli Halldórsson, arkitekt og hönnuður margra íþróttamannvirkja á Íslandi, gerði uppdrátt að æskulýðshöllinni sem sjá má hér að neðan. Auk þess fylgir hér kort sem sýnir hvar æskulýðshöllin átti að rísa. ...