Í finnsku borginni Tampere, þar sem íbúafjöldinn er nánast
sá sami og íbúafjöldi höfuðborgarsvæðisins, eða 230 þúsund manns, ríkir
gríðarlegur metnaður í flestu sem tengist íþróttum.
Helsta íþróttahöll borgarinnar er Tampereen Jaahalli en hún
er heimavöllur eins þekktasta ísknattleiksliðs Finnlands, Tappara.
Tampereen Jahalli var tekin í notkun árið 1965 og er því
jafnaldra Laugardalshallarinnar. Sætafjöldi hennar er 5.629 en auk þess getur
hún tekið um 1.300 manns í stæði.
Hún þykir orðin úr sér gengin og úrelt og því hafa
borgaryfirvöld í Tampere tekið þá ákvörðun að byggja nýja fjölnota íþróttahöll
sem verður að mestu leyti nýtt undir ísknattleik en hand- og körfuknattleikur
mun auk þess eiga þar sess.
Áætlanir gera ráð fyrir að nýja höllin muni rúma 11.000
áhorfendur í sæti en teikningar af hugsanlegu útliti hennar hafa verið
aðgengilegar á vefnum um nokkurt skeið.
Um er að ræða glæsilegt mannvirki sem mun að hluta til vera
byggt yfir járnbrautateina.
Hér að neðan eru myndir af nýju höllinni (teiknaðar af arkitektinum Daniel Libeskind) en fyrsta myndin er af gömlu höllinni:
Ummæli
Skrifa ummæli