Fara í aðalinnihald

Þrautargöngu HSÍ og KKÍ að ljúka?

Stofnað hefur verið félag um framtíðaruppbyggingu Laugardalsvallar en líklegt er að umfangsmiklar framkvæmdir vegna stækkunnar leikvangsins hefjist á næsta ári. Þar með er brýnu máli siglt í höfn enda mikil þörf á stærri Laugardalsvelli. Það sem vekur hins vegar athygli í allri umræðunni um nýjan Laugardalsvöll er sú þögn sem ríkt hefur um aðstöðuleysi innanhússíþrótta. Nýr Laugardalsvöllur mun rísa og nýr þjóðarleikvangur í frjálsum íþróttum að sjálfsögðu einnig en það má ekki gleyma innanhúsíþróttunum; Silfurdrengjunum og Eurobaskethetjunum.

HSÍ vildi fá aðild að framtíðaruppbyggingu Laugardalsvallar
Ljóst er að Handknattleikssamband Íslands hafði mikinn áhuga á að þjóðarleikvangur innanhússíþrótta yrði hluti af þeirri uppbyggingu sem er áformuð í tengslum við nýjan og stærri Laugardalsvöll.

Á 59. ársþingi HSÍ vorið 2016 sagði Guðmundur B. Ólafsson, formaður, m.a.: ,,Það þarf að gera betur. Margoft hefur þetta aðstöðuleysi verið rætt við ráðamenn, bæði menntamálaráðuneytið og borgina, og höfum við óskað sérstaklega eftir því að fá að taka forystu í þeirri vinnu. Enda er þetta ekki okkar einkamál heldur mál fleiri sambanda – að skapa hér þjóðarleikvang fyrir inniíþróttir. Því þurfum við að vinna ötullega að því að gera okkur sjálfbær í rekstri,“ sagði Guðmundur og bætti við:

,,Núna hefur umræðan snúist um nýjan Laugardalsvöll. Við erum að reyna að tengja okkur inn í þá umræðu. Ef lagt verður í mörg hundruð milljónir til að bæta Laugardalsvöllinn, þá er það gott og blessað og ekki ástæða til að rövla yfir því að þar sé góð aðstaða. En við þurfum þá að horfa til þess að samnýta nýjar viðbyggingar við það fjölnota hús eða þjóðarleikvang á svæðinu sem hér er í Laugardalnum, ennþá er nóg pláss. Sennilega verður eitt af okkar stærri verkefnum í ár að ná þessu fram. Við óskum eftir góðu samstarfi við önnur sérsambönd og ÍSÍ, enda þarf að setju miklu meiri kraft í umræðuna. Það á sérstaklega við núna, þegar umræðan um Laugardalinn er aftur að koma upp.“

Ljóst er að þessi ósk HSÍ hafði ekki erindi sem erfiði enda hefur aldrei komið opinberlega til umræðu að nýr þjóðarleikvangur innanhússíþrótta yrði samtengdur stækkuðum Laugardalsvelli. Raunar hefur komið til umræðu að ef nýr Laugardalsvöllur verður yfirbyggður sé hægt að umbreyta honum þannig að hægt sé að spila landsleiki í hand- og körfuknattleik þar inni. Það kemur hins vegar ekki til með að leysa æfingaaðstöðuleysi landsliðanna.

Ný fjölnota íþróttahöll nálægt nýjum stærri Laugardalsvelli.
Ekki hægt að spila landsleik vegna skákmóts
,,Sama má segja um landsliðið,“ sagði Guðmundur á sama ársþingi 2016. ,,Við höfum verið í algjöru hallæri með húsnæði, erfitt er að fá æfingatíma fyrir landsliðið. Sem er ekki alveg óskiljanlegt því þegar félagsliðin fá ekki einu sinni tíma, þá er kannski skiljanlegt að landsliðin get ekki síðan labbað inn í húsið og tekið einhverja tíma. Laugardalshöllin er vettvangur æfinga, hér eru Þróttarar með sína aðstöðu, guð má vita hvað þeir hafa misst marga æfingatíma vegna funda stjórnmálaflokka, skákmóts og annars. Sama á við um landsliðið, hér var ekki hægt að keppa á landsleik af því hér var skákmót á sama tíma eða einhverjar aðrar útsendingar.“

Svo mörg voru þau orð. Er þetta í lagi spyr ég bara? Það er ekkert við skákina að sakast heldur kristallast hér það mikla aðstöðuleysi sem innanhúsíþróttir og skákin þurfa að búa við hérlendis. Þar sem ríkir gífurlegur áhugi á handbolta, körfubolta og já líka skák.

Guðmundur hélt áfram að fjalla um bágborna aðstöðu landsliðanna á ársþinginu vorið 2016.

,,Þá verði líka að horfast í augu við það að Laugardalshöllin er orðin of lítil fyrir landsliðið. Til þess að HSÍ geti í raun staðið undir rekstrinum þarf auknar tekjur, meðal annars áhorfendatekjur. Að vera með rúmlega 2000 manna höll stendur ekki undir þessum leikjum til tekjuöflunar og því þarf sambandið fleiri áhorfendur til að standa undir rekstrinum. Ég held að málið með þessa 2000 miða sem við höfum getað selt (og hluti fer til stuðningsaðila), það sé eins og boðsmiðarnir sem KSÍ er með á leikjum sem fer upp í 10.000 manns,“ sagði Guðmundur.

Þetta vekur upp spurningar. Höllin getur einungis tekið við 2.300 áhorfendum en hversu mikill fjöldi þeirra eru boðsgestir? Getur verið að einungis séu 1.500 sæti í boði fyrir hinn almenna handboltaáhugamann? Þessu verður að breyta enda þörfin á nýrri og mun stærri höll gríðarleg.


Þrátt fyrir að HSÍ hafi ekki fengið hljómgrunn fyrir þessar hugmyndir sínar virðist sambandið samt hafa haldið í vonina um samvinnu við KSÍ fram á vormánuði 2017 og kallaði Guðmundur enn eftir sameiginlegri uppbyggingu á 60. ársþingi HSÍ, 2017.

,,Jafnframt þarf að vinna að því með ötulli hætti en fyrr að skapa landsliðinu slíka umgjörð að við getum verið með landsleiki upp á 4 – 5 þúsund manns svo þau geti verið sjálfbær. Samkeppnisstaðan sem við erum í gagnvart til dæmis fótboltanum talar sínu máli. Fótboltinn er örugglega með um 4000 miða á hvern leik til handa styrktaraðilum, meðan við erum með 2300 manna höll. Auglóst er að hér erum við ekki í neinni samkeppnisstöðu. Krafa okkar um nýjan þjóðarleikvang hlýtur því að vera háværari. Sambandið ætti að geta byggt hann hér í Laugardalnum, helst í samstarfi við KSÍ og tengja þeirri viðbótarbyggingu sem þeir eru að hugsa um. Því markhópurinn sem miðað er við nýtingu á slíkum mannvirkjum er nákvæmlega sá sami, háskólarnir, Þróttur og fleiri sem koma að íþróttastarfi. Við þurfum því að leggja fram um að gera okkur sjálfbær í rekstri,“ sagði Guðmundur á ársþingi HSÍ 2017.

Ljóst er að skynsamlegast hefði verið að HSÍ, KKÍ og önnur innanhúsíþróttasérsambönd hefðu fengið stól við borðið og hluta af þeirri köku sem nýr og stærri Laugardalsvöllur er. Hægt hefði verið að byggja stóra höll við völlinn samhliða þeirra uppbyggingu sem mun eiga sér þar stað á næstu árum.

KKÍ treystir á góðmennsku íþróttafélaga og sveitarfélaga
Líkt og komið hefur hér fram hefur HSÍ á undanförnum árum sett aukinn þunga í umræðuna um nýjan þjóðarleikvang fyrir innanhúsíþróttir en ekki má gleyma elju KKÍ í þessum efnum sem hafa líka kallað eftir nýjum þjóðarleikvangi fyrir innanhúsíþróttir. Hannes S. Jónsson, formaður KKÍ sagði m.a. á 48. ársþingi KKÍ árið 2009:

,,Því miður þá er það þannig að KKÍ hefur engan aðgang að neinu íþróttahúsi nema með aðstoð félaganna og sveitarfélaga og er ánægjulegt hversu jákvæð mörg sveitarfélög eru fyrir því að lána okkur sín íþróttahús. Það vantar íþróttahús sem við og fleiri íþróttagreinar gætum notað til æfinga og keppni fyrir okkar afreksstarf – það má segja að það vanti þjóðarleikvang þar sem t.d. körfubolti, handbolti og blak hefðu almennilega aðstöðu.“

Formaður HSÍ vill 5 – 6.000 sæta höll
Lítið hefur gerst í þessum málum undanfarin ár þrátt fyrir áköll frá HSÍ og KKÍ en á ársþingi HSÍ, árið 2014, kallaði Guðmundur B. Ólafsson, formaður HSÍ, eftir því að byggð yrði 5 – 6.000 sæta fjölnota íþróttahöll.

,,Við erum með Laugardalshöllina sem tekur um 2.400 manns í sæti en það er ekki nægjanlegur áhorfendafjöldi til að hafa nægjar tekjur. Við þurfum að fá hér hús sem getur tekið 5.000 – 6.000 manns hvernig svo sem það er gert, pallar inn í Egilshöll eða þá að byggja hér þjóðarleikvang en við þurfum að fara að setja miklu meiri pressu í þetta mál þannig að landsleikir hér með 5.000 – 6.000 manns skili okkar það miklum tekjum að við getum verið sjálfbærir í rekstri með það. Ég veit að sú vinna er í gangi en við höfum ekki verið mikið inni í því og ég held að við eigum að fara setja okkar krafta í að koma þessu verkefni á koppinn,“ sagði Guðmundur og bætti ennfremur við:

,,Þá verður ekki hjá því komist að leggja meiri áherslu á ytri umgjörð fyrir landsleiki. Koma þarf á betri umgjörð fyrir landsliðið bæði er varðar æfingaaðstöðu, og ekki síður þarf að huga að þjóðarleikvangi til að spila landsleiki, bæði til að gefa fleirum kost á að sjá landsliðið okkar spila og ekki síður til að auka tekjur af landsleikjum.“

Þessi orð Guðmundar féllu fyrir rúmum fjórum árum  en lítið sem ekkert hefur heyrst frá stjórnvöldum varðandi þessi mál fyrr en nú. Því loks er farið að birta til í þessum málum og hefur borgarráð óskað eftir því að myndaður verði starfshópur um nýjan þjóðarleikvang fyrir innanhúsíþróttir.

Starfshópur myndaður um byggingu nýs þjóðarleikvangs innanhússíþrótta
Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, lagði til á fundi borgarráðs þann 10. apríl síðastliðinn að tekið verði undir ábendingar HSÍ og KKÍ um nauðsynlega aðstöðu sérsambanda fyrir innanhúsíþróttir og skilgreiningu á þjóðarleikvangi fyrir innanhúsíþróttir.

Borgarráð lagði í kjölfarið fram tillögu þess efnis að settur verði upp starfshópur ráðuneyta, Reykjavíkurborgar, HSÍ og KKÍ til að annast nauðsynlegar viðræður um málið. Í bréfi dagsettu þann 28. mars, 2018 höfðu Guðmundur B. Ólafsson, formaður HSÍ, og Hannes S. Jónsson, formaður KKÍ, ítrekað nauðsyn þess að byggður verði nýr þjóðarleikvangur fyrir innanhúsíþróttir.

,,Höllin var byggð sem þjóðarleikvangur og þar hafa allir helstu íþróttaviðburðir farið fram sl. 50 ár. En tímarnir breytast og fyrir margt löngu hætti höllin að uppfylla alþjóðlegar kröfur sem gerðar eru til alþjóðlegra leikja bæði í handknattleik og körfuknattleik," segir m.a. í bréfinu.

Auk þess kemur fram í bréfinu að formennirnir hafi átt fund með mennta- og menningarmálaráðherra um aðkomu ríkisvaldsins að byggingu nýs þjóðarleikvangs fyrir innanhúsíþróttir.

,,Við leitum því til Reykjavíkurborgar sem höfuðborgar um þátttöku í viðræðum um byggingu þjóðarleikvangs. Við gerum okkur grein fyrir að slík bygging og rekstur er ekki eingöngu á ábyrgð Reykjavíkurborgar þó ljóst sé að slík bygging verður ekki reist án þátttöku og stuðnings borgarinnar."

Er 30 ára þrautargöngu HSÍ að ljúka en fyrir 30 árum gerði HSÍ samkomulag við íslensk stjórnvöld um byggingu 8.000 sæta fjölnota íþróttahallar í tengslum við HM 95. Sú bygging reis aldrei en getur verið að þessi máli ljúki farsællega innan tíðar? Vonandi.

Þá er ljóst að reglugerð um viðurkenningu þjóðarleikvanga í íþróttum sem tók gildi síðastliðið vor hefur haft nokkur áhrif á málið en með gildingu hennar er ljóst að Laugardalshöllin stenst ekki lágmarkskröfur samkvæmt skilgreiningu reglugerðarinnar.

Auk þess hefur höllin verið á undanþágu í mörg ár í keppnisleikjum á vegum EHF og FIBA.

Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Nýtt íþróttahús í Njarðvík?

Íþróttahúsið í Njarðvík, Ljónagryfjan svokallaða, er elsta keppnishúsið sem er í notkun í Domino‘s deild karla í körfuknattleik. Húsið var tekið í notkun árið 1973 og stendur við grunnskóla Njarðvíkur. Ef mið er tekið af íþróttahúsum sem byggð hafa verið hérlendis á síðasta áratug eða eru í byggingu er ljóst að mannvirkið er allt of lítið; ekki er nægilegt rými umhverfis keppnisgólfið og þá er takmörkuð aðstaða fyrir áhorfendur. Húsið er einfaldlega of lítið fyrir starfsemi félagsins. Vitaskuld er Ljónagryfjan fallegt og skemmtilegt íþróttahús og er það eitt af djásnum íslensks körfubolta en því miður er það ekki boðlegt lengur sem heimavöllur eins sigursælasta körfuknattleiksfélags landsins. ,,Ljónagryfjan" í Njarðvík. Skjáskot: Ja.is. Mikil íbúafjölgun Árið 1973 voru íbúar Njarðvíkur 1.700 en í dag búa yfir 6.000 manns í Njarðvíkurhluta Reykjanesbæjar. Fjölgun íbúa í Njarðvík nemur því um 250% á tímabilinu og er ljóst að þörf er á aðgerðum af hálfu bæjaryfirvalda sem ...

Nýtt körfuboltahús Hauka, Ólafssalur

Körfuknattleikslið Hauka mun spila á nýjum heimavelli á komandi leiktíð Domino's deildar karla og kvenna. Um er að ræða sérhæft körfuknattleikshús sem mun nær eingöngu þjónusta körfuknattleiksdeild Hauka. Um er að ræða einstakt hús á íslenska vísu og verður fróðlegt að fylgjast með því hvort önnur félög fylgi í kjölfarið. Keppnissalurinn er sérhannaður fyrir körfubolta og stúkan mun rúma 1100 manns en samkvæmt fréttum geta allt að 2.000 manns komist fyrir með því að raða fólki þétt á svölunum. Engin hefðbundin leikklukka verður í húsinu heldur verður stöðu, tíma og stigaskori varpað upp á LED skjái í sitthvorum enda vallarins. Meðfylgjandi myndir voru teknar af Erni Eyjólfssyni, ljósmyndara Fréttablaðsins, og birtist í frétt blaðsins um íþróttamannvirkið síðastliðið vor. Þá var áhorfendaaðstaðan ekki komin til landsins en hún ætti að vera kominn upp fyrir upphaf körfuknattleikstímabilsins í haust. Mynd: Örn Eyjólfsson, Fréttablaðið. Mynd: Örn Eyjólfsson, F...

Hin svokallaða æskulýðshöll

Áður en byrjað var að slá upp fyrir sökklum Laugardalshallarinnar á sjöunda áratuginum hafði önnur íþróttahöll verið í pípunum um nokkurt skeið í Reykjavík, hin svokallaða æskulýðshöll. Frá upphafi fimmta áratugarins heyrðust með jöfnu millibili háværar óskir um þessa höll enda voru húsnæðismál inniíþróttagreina í miklum lamasessi í borginni. Æskulýðshöllin átti að gjörbylta aðstöðumálum inniíþrótta í borginni en hún átti m.a. að hýsa skautasal þar sem rými var fyrir 3000 áhorfendur auk annars minni íþróttasalar sem rúma átti 500 manns í sæti. Auk þess átti kvikmyndahús að vera samtengt íþróttahöllinni. Ekkert varð þó úr þessum áætlunum og má segja að Reykvíkingar hafi þurft að búa við bágan kost í húsnæðismálum inniíþróttagreina þar til Laugardalshöllin reis árið 1965. Gísli Halldórsson, arkitekt og hönnuður margra íþróttamannvirkja á Íslandi, gerði uppdrátt að æskulýðshöllinni sem sjá má hér að neðan. Auk þess fylgir hér kort sem sýnir hvar æskulýðshöllin átti að rísa. ...