Fara í aðalinnihald

Hvernig nýr þjóðarleikvangur innanhússíþrótta gæti verið lykillinn að stækkun íþróttasvæðisins í Laugardal

Laugardalurinn er dýrmæt sameign landsmanna. Þar hefur landið umbreyst úr víðfemu graslendi í grunnum dal í fallegan borgargarð þar sem trjágróður fær að njóta sín. Auk þess hefur, frá miðri síðustu öld, byggst þar upp hágæða íþróttaaðstaða þar sem helstu íþróttamannvirki þjóðarinnar hafa risið á afmörkuðu svæði í miðju dalsins. En íþróttasvæði eru plássfrekar einingar og er æskilegt að rúmt sé um þau innan þéttbýlissvæða. Það er þó ekki alltaf raunin. Sérstaklega í þéttbyggðum borgum þar sem landrými er af skornum skammti. Til allrar hamingju er raunin ekki sú í Laugardalnum en við megum ekki sofna á verðinum.

Þó svo að íþróttasvæðið í Laugardal hafi ekki enn sprengt utan af sér landrýmið eru þó teikn á lofti. Það verður að hugsa til framtíðar í þessum efnum og verður það einungis gert með því að stækka íþróttasvæðið í Laugardal; þjóðaríþróttasvæði okkar Íslendinga.

Svæðið í sífelldri mótun
Í skipulagsuppdráttum af Laugardalnum frá 1972 sést íþróttasvæðið greinilega afmarkað; hrátt og enn í mikilli mótun þar sem gnótt af óuppbyggðu landi er til staðar. Á uppdrættinum sést hvernig Laugardalsvöllur, Valbjarnarvöllur og Laugardalshöll kallast á innan svæðisins. Annað rými er skilgreint undir knattspyrnuæfingavelli og æfingasvæði fyrir frjálsar íþróttir.


Síðan þessi uppdráttur var teiknaður upp hefur svæðið tekið miklum breytingum; Laugardalsvöllurinn hefur stækkað með tilkomu austurstúkunnar og stærri og endurbættrar vesturstúku. Skautahöll hefur risið á austurjaðri svæðisins ásamt gervigrasvellinum gegnt Laugardalshöllinni.  Stór 50 metra löng innilaug er nú í Laugum, norðan við Laugardalsvöllinn, og nýjasta íþróttamannvirkið í Laugardal; frjálsíþróttahöllin rís nú tignarlega austan við Laugardalshöllina. Svæðið er í sífelldri mótun og þróun; líkt og lífvera sem vex og dafnar.

Þarna hafa mannvirki risið undanfarna áratugi og þarna munu ný mannvirki rísa á næstu áratugum. Hvernig verður umhorfs í Laugardalnum eftir 50 ár, 100 ár? Með þetta í huga er nauðsynlegt að stækka íþróttasvæði Laugardalsins og er fýsilegast að gera það með landvinningum á suðurjaðri dalsins; þ.e. á svæðinu milli Engjavegar og Suðurlandsbrautar. Samkvæmt aðalskipulagi er svæðið skilgreint sem opið svæði (OP1) og miðsvæði (M2g). Nauðsynlegt er að gera aðalskipulagsbreytingu á svæðinu og breyta landnotkuninni í íþróttasvæði (ÍÞ).

Skilgreind landnotkun samkvæmt aðalskipulagi Reykjavíkur.

Á svæðinu eru gríðarlega miklir uppbyggingarmöguleikar þar sem auðveldlega væri hægt að koma fyrir þjóðarleikvangi fyrir frjálsar íþróttir og þjóðarleikvangi fyrir innanhúsíþróttir ásamt öðrum íþróttamannvirkjum.


Með því að byggja upp íþróttasvæði á suðurjaðri Laugardalsins verður miðja alls íþróttasvæðisins í Laugardal þar sem skrifstofur Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands eru til húsa í dag, við hlið Laugardalshallarinnar. Þá skapast möguleiki á því að byggja upp frekari aðstöðu fyrir sérsambönd auk annarrar íþróttatengdrar þjónustu, þ.á.m. kennslu- og hótelbyggingar. Þar gæti verið miðstöð alls íþróttalífsins í Laugardalnum.

Út frá þessari nýju miðju byggjast upp tveir ásar; norður-suður. Norðurásinn yrði hið svokallaða eldra íþróttasvæði Laugardals en suðurásinn hið nýja íþróttasvæði. Saman mynda þessar þrjár einingar (Suðurás-miðja-norðurás) hið nýja íþróttasvæði Laugardals. Í heildina yrði um að ræða stórt íþróttasvæði sem væri í stakk búið til að takast á við þá framtíðaruppbyggingu sem þörf er á að farið verði í í náinni framtíð sem og á næstu áratugum.

Tónlistarhúsið og höfuðstöðvar Landssímans
Umrætt svæði milli Engjavegar og Suðurlandsbrautar hefur oft þótt fýsilegt til uppbyggingar fyrir ýmisskonar starfsemi án þess að nokkuð hafi orðið úr þeim áformum.

Þegar Gísli Halldórsson, arkítekt, teiknaði Laugardalshöllina voru fyrstu hugmyndir á þá leið að hún yrði einungis einn hluti af stærri einingu, þ.e. níu byggingum sem teygðu sig til suðausturs frá Höllinni að Suðurlandsbraut. Hugmyndin var sú að hægt væri að nýta þessar byggingar undir frekari íþrótta- og sýningahalds.

Hér að neðan má sjá þessa tillögu Gísla í uppdrætti frá 1961.


Á 9. áratug síðustu aldar var svæðið aftur í umræðunni þegar ákveðið var að loksins skildi reist tónlistarhús í Reykjavík. Lóðin á gatnamótum Engjavegar og Suðurlandsbrautar þótti kjörin staðsetning. Guðmundur Jónsson, arkítekt, bar síðan sigur úr bítum í alþjóðlegri samkeppni um hönnun hússins sem var mun íbúrðarminna en sú höll sem á endanum reis á hafnarbakkanum.

Hér að neðan má sjá hvar fyrirhugað tónlistarhús átti að standa á gatnamótum Engjavegar og Suðurlandsbrautar:



Undir lok 10. áratugarins horfði Landssíminn hýrum augum til svæðisins sem hentuga staðsetningu undir nýjar höfuðstöðvar fyrirtækisins. Mikill styr stóð um málið og voru margir á þeirri skoðun að slík starfsemi sem heyrði undir Landssímann ætti ekki heima í Laugardal. Sem betur fer varð ekkert úr þeim áformum.

Uppdráttur af fyrirhuguðum höfuðstöðvum Landssímans. Morgunblaðið, 1999.

Líkt og rakið hefur verið hér að ofan hafa ýmsar hugmyndir litið dagsins ljós um uppbyggingu á svæðinu.

Hins vegar er mín skoðun sú að rökréttasta niðurstaðan sé að á svæðinu verði íþróttatengd starfsemi.

Nýr þjóðarleikvangur innanhússíþrótta
Einn af þeim möguleikum sem ætti að skoða alvarlega er að nýr þjóðarleikvangur fyrir innanhúsíþróttir rísi á þessu svæði.

Í mastersverkefni mínu í Skipulagsfræði skoðaði ég fýsilega staðarvalskosti fyrir nýjan þjóðarleikvang innanhússíþrótta á höfuðborgarsvæðinu og skoraði svæðið milli Engjavegar og Suðurlandsbrautar (hinn nýi suðurás) hátt í þeirri staðarvalsgreiningu.

Þarna er gott landrými og uppbyggingarmöguleikar miklir.

Almenningssamgöngur eru góðar á svæðinu og er fyrirhugað að ein af meginlínum Borgarlínunnar fari um Suðurlandsbrautina.

Hér fyrir neðan má sjá hvernig hægt væri að staðsetja nýjan þjóðarleikvang innanhússíþrótta meðfram Suðurlandsbrautinni. Fyrsta myndin sýnir afmörkun svæðisins og hvernig það teygir sig til suðausturs frá Laugardalshöllinni og nýju Frjálsíþróttahöllinni. Svæðið næst þessum tveimur höllum hefur verið hugsað sem fýsilegur kostur fyrir nýjan þjóðarleikvang í frjálsum íþróttum. Að mínu mati er það mjög rökrétt staðsetning, þ.e. vegna nálægðar við Frjálsíþróttahöllina.

Eins og sést á annarri myndinni, þar sem horft er vestur yfir svæðið, er gott landrými til staðar.


Ef við skoðum nánar hvernig hægt væri að staðsetja nýjan þjóðarleikvang fyrir innanhússíþróttir á svæðinu, sést að 7.000 - 8.000 sæta höll rúmast þar vel, ásamt umlykjandi bílastæðum.

Sá möguleiki sem gerir ráð fyrir höllinni vestast á svæðinu fellur um sjálfan sig ef þjóðarleikvangur frjálsra íþrótta rís á þeirri lóð. Ef við hins vegar ímyndum okkur þjóðarleikvang fyrir frjálsar íþróttir vestast á svæðinu við hliðina á þjóðarleikvangi innanhússíþrótta, er ljóst að þar gæti skapast gríðarlega skemmtilegur ás, auk þess sem rúm væri fyrir aðra íþróttatengda starfsemi á svæðinu.

Læt meðfylgjandi myndir tala sínu máli:
































Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Nýtt íþróttahús í Njarðvík?

Íþróttahúsið í Njarðvík, Ljónagryfjan svokallaða, er elsta keppnishúsið sem er í notkun í Domino‘s deild karla í körfuknattleik. Húsið var tekið í notkun árið 1973 og stendur við grunnskóla Njarðvíkur. Ef mið er tekið af íþróttahúsum sem byggð hafa verið hérlendis á síðasta áratug eða eru í byggingu er ljóst að mannvirkið er allt of lítið; ekki er nægilegt rými umhverfis keppnisgólfið og þá er takmörkuð aðstaða fyrir áhorfendur. Húsið er einfaldlega of lítið fyrir starfsemi félagsins. Vitaskuld er Ljónagryfjan fallegt og skemmtilegt íþróttahús og er það eitt af djásnum íslensks körfubolta en því miður er það ekki boðlegt lengur sem heimavöllur eins sigursælasta körfuknattleiksfélags landsins. ,,Ljónagryfjan" í Njarðvík. Skjáskot: Ja.is. Mikil íbúafjölgun Árið 1973 voru íbúar Njarðvíkur 1.700 en í dag búa yfir 6.000 manns í Njarðvíkurhluta Reykjanesbæjar. Fjölgun íbúa í Njarðvík nemur því um 250% á tímabilinu og er ljóst að þörf er á aðgerðum af hálfu bæjaryfirvalda sem ...

Nýtt körfuboltahús Hauka, Ólafssalur

Körfuknattleikslið Hauka mun spila á nýjum heimavelli á komandi leiktíð Domino's deildar karla og kvenna. Um er að ræða sérhæft körfuknattleikshús sem mun nær eingöngu þjónusta körfuknattleiksdeild Hauka. Um er að ræða einstakt hús á íslenska vísu og verður fróðlegt að fylgjast með því hvort önnur félög fylgi í kjölfarið. Keppnissalurinn er sérhannaður fyrir körfubolta og stúkan mun rúma 1100 manns en samkvæmt fréttum geta allt að 2.000 manns komist fyrir með því að raða fólki þétt á svölunum. Engin hefðbundin leikklukka verður í húsinu heldur verður stöðu, tíma og stigaskori varpað upp á LED skjái í sitthvorum enda vallarins. Meðfylgjandi myndir voru teknar af Erni Eyjólfssyni, ljósmyndara Fréttablaðsins, og birtist í frétt blaðsins um íþróttamannvirkið síðastliðið vor. Þá var áhorfendaaðstaðan ekki komin til landsins en hún ætti að vera kominn upp fyrir upphaf körfuknattleikstímabilsins í haust. Mynd: Örn Eyjólfsson, Fréttablaðið. Mynd: Örn Eyjólfsson, F...

Hin svokallaða æskulýðshöll

Áður en byrjað var að slá upp fyrir sökklum Laugardalshallarinnar á sjöunda áratuginum hafði önnur íþróttahöll verið í pípunum um nokkurt skeið í Reykjavík, hin svokallaða æskulýðshöll. Frá upphafi fimmta áratugarins heyrðust með jöfnu millibili háværar óskir um þessa höll enda voru húsnæðismál inniíþróttagreina í miklum lamasessi í borginni. Æskulýðshöllin átti að gjörbylta aðstöðumálum inniíþrótta í borginni en hún átti m.a. að hýsa skautasal þar sem rými var fyrir 3000 áhorfendur auk annars minni íþróttasalar sem rúma átti 500 manns í sæti. Auk þess átti kvikmyndahús að vera samtengt íþróttahöllinni. Ekkert varð þó úr þessum áætlunum og má segja að Reykvíkingar hafi þurft að búa við bágan kost í húsnæðismálum inniíþróttagreina þar til Laugardalshöllin reis árið 1965. Gísli Halldórsson, arkitekt og hönnuður margra íþróttamannvirkja á Íslandi, gerði uppdrátt að æskulýðshöllinni sem sjá má hér að neðan. Auk þess fylgir hér kort sem sýnir hvar æskulýðshöllin átti að rísa. ...