Fara í aðalinnihald

Smá talnaleikur

Hverfum rúm 30 ár aftur tímann þegar mörgum þótti tími til kominn til að leysa Laugardalshöllina af hólmi með nýrri fjölnota íþróttahöll. Þá voru teknar ákvarðanir, gerðir samningar og stjórnvöld hérlendis skuldbundu sig til að reisa 8.000 sæta fjölnota íþróttahöll. Tvær ríkisstjórnir skrifuðu undir viljayfirlýsingu þess efnis undir lok níunda áratugarins.
Ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar hafði sett málið í ákveðinn farveg sem síðan rakst á himinháa stíflu þegar Davíð Oddsson tók við völdum 1991. Þar var viljinn enginn á að sigla málinu farsællega í höfn. Steingrímur sem marga fjöruna hafði sopið í íslenskum stjórnmálum taldi að með þessu væri verið að fara svíkjast undan alþjóðlegri skuldbindingu. Hann lagði fram tillögu um að veita 50 millj. kr. til byrjunarframkvæmda við íþróttahöllina. ,,Mér er fyllilega ljóst að þetta er umdeilt mál en ég er mjög eindregið þeirrar skoðunar að standa eigi við samninga og reyndar, getum við sagt, alþjóðasamninga eins og þessi er. Hann er bæði alþjóðasamningur og innlendur samningur. Og ég vek athygli á aðdraganda þessa máls. Handknattleikssambandið gekk í það að ná samningi um að heimsmeistaramótið yrði haldið hér á landi og fékk mikinn stuðning frá stjórnvöldum. Það gaf út glæsibækling og í hann skrifuðu m.a. fyrrverandi utanríkissráðherra, Matthías Á. Mathiesen, fyrrverandi borgarstjóri, Davíð Oddsson og fyrrverandi menntamálaráðherra Birgir Ísleifur Gunnarsson og studdu eindregið þessa málaleitun Handknattleikssambands undir, getum við sagt, forystu hæstvirts utanríkissráðhera," sagði Steingrímur í pontu á Alþingi 1991.
Frá því að ákvörðun um byggingu HM-hallarinnar var tekin voru ýmsar tölur á reiki um væntanlegan byggingarkostnað. Fjárhæðirnar rokkuðu frá 1,6 - 3 milljarða króna á núvirði. Kostnaðarupphæðin fór lækkandi eftir því sem árin liðu og svo fór að menn töldu gerlegt að ráðast í framkvæmdir fyrir 1,6 milljarð króna. En nei, það þótti sóun á peningum. Ekki töldu menn að verið væri að fjárfesta til framtíðar með íþróttahöll. Nei, 1,6 milljarður króna svo menn gætu spilað einn handboltaleik innanhús. Þvílík fásvinna!
Við skulum setja þessar tölur í samhengi. Hér var verið að tala um eyða í mesta lagi tveimur milljörðum í að byggja glæsilega íþróttahöll fyrir Heimsmeistaramót sem halda átti hér á landi. En enginn var tilbúinn til að taka af skarið. Hugmyndin um HM-höllina gekk sveitarfélaga á milli líkt og heit kartafla. Davíð Oddsson, fyrst sem borgarstjóri Reykjavíkur og síðar sem forsætisráðherra, var einarður andstæðingur byggingu hallarinnar. Ekki skyldi hann samþykkja fjármögnun slíks mannvirkis enda stóð hann í ströngu á þessum árum við að reisa Perluna fyrir 4,3 milljarða króna á núvirði, Borgarleikhúsið á 4,8 milljarða króna á núvirði og Ráðhúsið sem kostaði 8,6 milljarða króna á núvirði.
Um svipað leyti var langri byggingarsögu Þjóðarbókhlöðunnar að ljúka en heildarframkvæmdarkostnaður þeirrar framkvæmdar nam á endanum 6,3 milljörðum króna á núvirði. Á þessum tíma hafði Listasafn Íslands einnig flutt í nýtt húsnæði en bygging þess nam um 1,5 milljörðum króna á núvirði. Samtals námu þessar framkvæmdir frá lokum níunda áratugarins fram á miðjan tíunda áratug um 25,5 milljörðum króna. Óforsvaranlegt þótti að punga út 1,6 - 2 milljörðum króna í íþróttahöll. Spólum áfram um nokkur ár og ýtum á ,,stopp-takkann" árið 2011. Við Reykjavíkurhöfn stendur menningarhöllin fagra, Harpan, nývígð og reikningur upp á 27,7 milljarða króna heftaður við aðaldyrnar. Ef við bætum honum við áðurnefnda 25,5 milljarða króna þýðir þetta framkvæmdakostnað sem nemur 53,2 milljörðum króna. En nei, ekki voru menn tilbúnir til að byggja fjölnota íþróttahöll fyrir brotabrot af þeirri upphæð þegar nægur peningur virtist fyrir öðrum framkvædum. Bílastæðahúsið við Hörpuna kostaði 3 milljarða króna og glerhjúpurinn utan um bygginguna kostaði um 3,3 milljarða króna. Við getum reist veglega íþróttahöll fyrir þann pening.
Og að lokum til að setja þessar tölur í samhengi við aðrar kostnaðartölur því ekki að nefna þann rúma milljarð króna sem mun fara í að borga aðstoðarmönnum ráðherra laun á núverandi kjörtímabili og því ekki að leggja þá upphæð saman við þau heildarlaun sem aðstoðarmennirnir dyggu fengu útborgað á síðasta kjörtímabili en þá nemur heildarupphæðin 1,8 milljarði króna. Það er sama upphæð og margar þjóðir hafa verið að punga út fyrir nýjum og glæsilegum fjölnota íþróttahöllum.
En hér á Íslandi sitjum við uppi með eina elstu keppnishöll álfunnar og engin áform eru uppi um að leysa hana af hólmi í nánustu framtíð og það þrátt fyrir að hún er ólögleg keppnishöll í alþjóðlegum handknattleik.















Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Nýtt íþróttahús í Njarðvík?

Íþróttahúsið í Njarðvík, Ljónagryfjan svokallaða, er elsta keppnishúsið sem er í notkun í Domino‘s deild karla í körfuknattleik. Húsið var tekið í notkun árið 1973 og stendur við grunnskóla Njarðvíkur. Ef mið er tekið af íþróttahúsum sem byggð hafa verið hérlendis á síðasta áratug eða eru í byggingu er ljóst að mannvirkið er allt of lítið; ekki er nægilegt rými umhverfis keppnisgólfið og þá er takmörkuð aðstaða fyrir áhorfendur. Húsið er einfaldlega of lítið fyrir starfsemi félagsins. Vitaskuld er Ljónagryfjan fallegt og skemmtilegt íþróttahús og er það eitt af djásnum íslensks körfubolta en því miður er það ekki boðlegt lengur sem heimavöllur eins sigursælasta körfuknattleiksfélags landsins. ,,Ljónagryfjan" í Njarðvík. Skjáskot: Ja.is. Mikil íbúafjölgun Árið 1973 voru íbúar Njarðvíkur 1.700 en í dag búa yfir 6.000 manns í Njarðvíkurhluta Reykjanesbæjar. Fjölgun íbúa í Njarðvík nemur því um 250% á tímabilinu og er ljóst að þörf er á aðgerðum af hálfu bæjaryfirvalda sem ...

Nýtt körfuboltahús Hauka, Ólafssalur

Körfuknattleikslið Hauka mun spila á nýjum heimavelli á komandi leiktíð Domino's deildar karla og kvenna. Um er að ræða sérhæft körfuknattleikshús sem mun nær eingöngu þjónusta körfuknattleiksdeild Hauka. Um er að ræða einstakt hús á íslenska vísu og verður fróðlegt að fylgjast með því hvort önnur félög fylgi í kjölfarið. Keppnissalurinn er sérhannaður fyrir körfubolta og stúkan mun rúma 1100 manns en samkvæmt fréttum geta allt að 2.000 manns komist fyrir með því að raða fólki þétt á svölunum. Engin hefðbundin leikklukka verður í húsinu heldur verður stöðu, tíma og stigaskori varpað upp á LED skjái í sitthvorum enda vallarins. Meðfylgjandi myndir voru teknar af Erni Eyjólfssyni, ljósmyndara Fréttablaðsins, og birtist í frétt blaðsins um íþróttamannvirkið síðastliðið vor. Þá var áhorfendaaðstaðan ekki komin til landsins en hún ætti að vera kominn upp fyrir upphaf körfuknattleikstímabilsins í haust. Mynd: Örn Eyjólfsson, Fréttablaðið. Mynd: Örn Eyjólfsson, F...

Staðsetning þjóðarleikvanga: Laugardalur eða annar staður?

Umræðan um staðsetningu og uppbygginga nýrra þjóðarleikvanga hefur verið mikil að undanförnu og að mestu leyti einskorðast við Laugardalinn í Reykjavík. Það er svæði sem flestir Íslendingar skilgreina sem þjóðaríþróttasvæði okkar Íslendinga. Sú umræða er hins vegar á villigötum að mati Þóris Hákonarsonar, fyrrum framkvæmdarstjóra KSÍ, og vill að málinu verði beint í annan farveg. Þórir, sem starfar nú sem íþróttastjóri Þróttar, vill að nýjum þjóðarleikvangi í knattspyrnu og nýrri þjóðarhöll fyrir innanhúsíþróttir, verði fundinn annar staður á höfuðborgarsvæðinu. Með öðrum orðum annars staðar en í Laugardalnum. ,, Það á að kanna nýja staðsetningu og nýja lausn sem hýsir þetta allt með sómasamleg hætti í stað þess að ræða um að byggja upp Laugardalsvöllinn sem ég held að myndi aldrei takast nægjanlega vel miðað við nútíma kröfur ," sagði Þórir í samtali við Guðjón Guðmundsson í Sportpakkanum á Stöð 2 í vikunni. Undirritaður telur að skoða eigi alla valkosti og ef málið ...